Í gær hringdi í mig kona, í sárum eftir Húsasmiðinn. Þurfti að hafa upp á honum til að losna við búslóð sem hann kom fyrir hjá henni áður en hann fór úr landi. Hún taldi að bloggfærslur mínar undanfarið tengdust honum (ekki spyrja mig hvernig hún hefur komist að þeirri niðurstöðu) og fiskaði eftir því hvað væri „í gangi“.
Það er ekkert í gangi í lífi mínu sem tengist Húsasmiðnum. Ég er búin að afgreiða þann útúrdúr ævisögusögu minnar, hef ekki heyrt frá honum í meira en tvö ár, veit ekkert um hann eða hans hagi og hef engan áhuga á að ræða vammir hans og skammir við aðrar konur sem kunna að hafa eitthvað upp á hann að klaga.
Ég er að mestu ósnortin af þessu samtali en hún sagði reyndar eitt sem leiddi dálítinn aumingjahroll niður bakið á mér. Hann færði henni víst gjöf. Styttu sem ég þekki vel.
Þannig vildi til að þegar ég flutti út frá honum stóð ég uppi allslaus. Hafði selt húsið mitt til að kaupa annað með honum en það hús þarfnaðist svo mikils viðhalds að það hefði komið sér ennþá verr fyrir mig að sitja uppi með það. Ég flutti inn í tveggja herbergja leiguíbúð með 3 unglinga, kom auðvitað ekkert öllu mínu dóti fyrir og tilkynnti Húsasmiðnum að fyrst hann hefði komið mér í þessa aðstöðu væri ekki annað en sanngjarnt að hann geymdi eitthvað af því sem ég þyrfti ekki að nota þar til ég kæmist inn í sómasamlega íbúð. Þegar ég svo reyni að ná sambandi til að endurheimta draslið, er hann fluttur úr landi og persónulegar eigur mínar í geymslu einhversstaðar úti í bæ. Ég hef aldrei æðrast neitt yfir því, ég skildi ekkert eftir hjá honum sem skiptir mig sérstöku máli. Þetta eru aðallega skrauthlutir og myndbönd.
Styttan sem seinni kærastan fékk í ástargjöf reyndist vera úr dánarbúi hennar ömmu minnar sálugu. Hún skiptir mig heldur engu sérstöku máli en mér finnst samt fádæma hallærislegt af honum að gefa einhverri annarri konu hana.
Mikið óskaplega er ég heppin að hann skyldi dömpa mér. Ég er alltaf að sjá það betur og betur að í raun hef ég verið mjög heppin í ástamálum. Hefði líkast til eyðilagt líf mitt á því að púkka upp á þessa aumingja ef þeir hefðu ekki hypjað sig sjálfir.
——————————————————-
oj, en hallærislegt af honum…
Posted by: baun | 23.02.2007 | 9:28:52
——————————————————-
góð færsla
Posted by: halli | 23.02.2007 | 11:13:53
——————————————————-
Fyndið. Í gær fékk ég upplýsingar sem benda klárlega til þess að ég sé ekki looser in love, heldur very, very VERY lucky. 🙂
Posted by: anna | 23.02.2007 | 13:33:49
——————————————————-
Bölvaður sé hann!!!
Hvaða stytta var þetta?
Og þú er greinilega heppin, ekki spurning.
Posted by: Hullan | 23.02.2007 | 17:51:22
——————————————————-
Gyðjan. Græna styttan hennar ömmu Hullu. Vilt þú hana?
Posted by: Eva | 23.02.2007 | 18:06:55
——————————————————-
Forvitnilegt, ég hugsa til þín
Posted by: G | 24.02.2007 | 0:11:43
——————————————————-
Bölvað fífl er þessi maður grrr.
Mig langar ekkert í hana, en vill frekar að hún sé hjá okkur heldur en honum (henni) Pabbi gaf ömmu þessa styttu. Og hún dýrkaði hana… það er einmitt á svona stundum sem mér langar að kalla fólk drulluháleysta!
Posted by: Hullan | 24.02.2007 | 5:38:01