Andvaka

-Þú ert andvaka.
-Ekki hugsa um það. Farðu bara að sofa, það er allt í lagi með mig.
-Það er ekki í lagi að vera andvaka, það er andstyggilegt.
-Hafðu ekki áhyggjur Eva mín.
-Er þér heitt?
-Nei, mér líður vel.
-Ekki er það kynhvötin.
-Nei.

-Ég veit ekki hvað er að mér. Ég hef alltaf getað sofið hérna. Kannski er það rúmið.
-Ég skal sækja dýnuna þína.
-Nei, ég ætla að vera hjá þér.
-Það er ekki rúmið. Þú svafst í því allvega tvær nætur þegar ég var í stóra rúminu.
-Já, það er rétt.
-Það eru heldur ekki þrengslin. Manstu einu sinni þegar þú sofnaðir hjá mér í stóra rúminu, þú vaknaðir upp úr miðnætti og gast ekki sofnað aftur fyrr en þú færðir þig milli rúma. Samt var alveg nóg pláss. Það er nálægðin við mig sem heldur fyrir þér vöku.
-Það er undarlegt. Mér líður vel hjá þér. Ég vil horfa á þig sofa. Ég vil vakna hjá þér í fyrramálið.
-Ég veit. Það er bara svo stórt skref fyrir þig að deila með mér rúmi.
-Nú? Er það ekki yfirleitt kynlíf sem er stóra skrefið?
-Fyrir suma jú. Flesta kannski. En fólk með svona reynslu hefur aðrar áherslur.
-Það er varla hægt að kalla það reynslu. Ég man ekki einu sinni eftir því. Það skaðaði mig allavega ekkert.

Skaðaði þig ekki nei. Ekki að öðru leyti en því að þú tengir ekki traust og kynlíf á sama hátt og flestir virðist gera. Þú gætir kannski hnoðast á heilu kvennabúri af ástríðu og dugnaði en þú verður ekki viðkvæmur fyrir konu þótt þú skiptist á líkamsvessum við hana. Finnur ekki almennilega fyrir raunveru hennar fyrr en hún liggur í faðmi þér, sofandi, í ljótum bómullarnáttkjól og gnístir tönnum eða hrýtur eða eitthvað þaðan af kvenlegra. Er það traust þess sem sefur sem heldur vöku fyrir þér? Eða heldurðu að draumar, líkt og sníkjudýr, smitist helst á milli fólks sem deilir rúmi? Eða heldurðu kannski, að öll þessi ár sem þú hefur af og til kysst mig góða nótt og sofnað svo á dýnu á gólfinu hjá mér, hafi ég ekki, í hvert einasta sinn, notað tækfærið til að hlusta á þig sofa?

 

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Andvaka

  1. ———————————–

    Þetta er fallegt, þetta snertir mig, ég hlusta á þig vaka

    Posted by: G | 24.02.2007 | 0:16:55

Lokað er á athugasemdir.