Flanlaust

-Er eitthvað sérstakt við miðvikudaginn? Fullt tungl eða eitthvað svoleiðis?
-Nei. Ekki svo ég viti.
-Hvað þá? Eru að byggja upp spennu með því að bíða eða ertu að reyna að halda aftur af þessari kyssiþörf þinni með því að slá því á frest?
-Ég bara þarf að hafa stjórn á þessu. Ekki flana að neinu.

-Nei, það er rétt. Þessar stóru ákvarðanir í lífinu krefjast þess að maður fari hægt í sakirnar. Ens og þegar maður droppar sýru eða giftist eða stútar sér. Nú eða kyssir. Maður bara gerir ekki svoleiðis nema hugsa sig vel um fyrst.
-Ég hef hormóna eins og annað fólk og það vill svo til að mér finnst mjög gott að kyssa þig og þykir afskaplega vænt um þig líka. Ef við eigum að kyssast þarf ég aftengja mig fyrst. Í augnabliknu langar mig að ganga miklu lengra.

-Ég gæti lifað með því.
-Ég líka elskan en þú getur ekki sofið við hliðina á mér nema kannski hálftíma í einu og mig langar ekkert að lifa með því. Ég veit hvernig það yrði. Við myndum elskast, ég myndi sofna í fanginu á þér en svo myndi ég vakna ein. Og þú kemst heldur ekkert upp með að sofa á gólfinu hjá mér mjög oft. Henni er kannski sama þótt þú gistir annarsstaðar á meðan hún er á fylliríi en allajafna reiknar hún með því að þú komir heim áður en rennur af henni.
-Hvaða fáviti ákvað að maður mætti ekki sofna hjá einni konu og vakna hjá annarri? Eða sofna hjá karlmanni og vakna hjá konu? Færið mér hann og ég skal steikja hann á teini.
-Líklega sá sami og ákvað að fólk mætti ekki sofa í sama rúmi nema þurfa endilega að riðlast hvert á öðru í leiðinni. Eins og hvorttveggja er annars ágætt hef ég aldrei skilið þessa beintengingu.

-Eva.
-Já.
-Heldurðu að geti verið að við séum af öðrum heimi? Að það hafi orðið eitthvað rugl í Matrixinu og við séum í raun álfar eða geimverur eða eitthvað svoleiðis?
-Kannski. Eða persónur í sögu sem er svo háfleyg að bara bókmenntafræðingar nenna að lesa hana.
-Hvernig myndi sú saga enda?

-Já, það er nú það. Hún yrði líklega lengi að enda. Við myndum kyssast og við það myndi munnurinn á mér stækka mjög mikið, þar til ég yrði ekkert nema risastórar varir, tunga og tennur. Og risastóri munnurinn myndi kyssa þig þar til þú hyrfir inn fyrir varirnar og þú myndir klessast við góminn. Þar myndi sagan enda held ég, sagði ég með varirnar heitar af blóði.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Flanlaust

  1. ——————————-

    Eins gott að hafa kyssitauið í lagi. Ég held samt að því gæti verið betur varið en í þennan tveggja heima mann.
    Ragna (frú í Foldahverfi).

    Posted by: Anonymous | 25.02.2007 | 18:47:46

Lokað er á athugasemdir.