Stundum þarf maður að losa sig við eitthvað sem maður hefur haldið mikið upp á af því að það er orðið ónýtt og gagnast manni ekki lengur. Gerir jafnvel meiri skaða en gagn. Maður geymir t.d. ekki myglaða köku. Stundum er svosem hægt að lappa upp á það sem hefur skemmst. Einu sinni átti ég t.d. fallega Alparós sem fékk lús. Ég hefði sennilega getað drepið lúsina með dálítilli vinnu en rósin skipti mig ekki nógu miklu máli til þess að ég væri tilbúin að til að hafa pöddur á heimilinu svo ég henti henni. Halda áfram að lesa
Alveg að fara að flytja
Ég afhendi íbúðina um mánaðamótin. Finn samt ekki fyrir neinum flutningakvíða, kannski af því að við Anna ætlum saman í helgarferð um leið og ég er búin að skila lyklunum og ég hlakka svo mikið til þess að ég er hreinlega á hjólum. Ég lifði á galdraráðstefnunni síðasta haust fram að jólum en nú er ég farin að þurfa sárlega á tilbreytingu að halda.
Talandi um flutninga: Ég þarf að losa mig við stórt amerískt hjónarúm, borðstofustóla, lítið nett sófasett, þvottavél, kæliskáp og uppþvottavél. Áhugasamir sendi póst á eva@nornabudin.is
Sumar í nánd
Mikið er það nú heppilegt að skólanum skuli bráðum fara að ljúka. Ég hef að vísu komist drjúgan spöl á tímamögnunargaldrinum en það mun óneitanlega létta af mér fargi þegar Lærlingurinn tekur við fullu starfi og kannski rúmlega það.
Halda áfram að lesa
Nett pirrandi
Mér finnst með ólíkindum að það skuli ekki vera hægt að treysta á milli 10 og 20 hræðum fyrir lykilorði á lokaða vefsíðu. Ég hefði haldið að það væri í verkahring eiganda síðunnar að ákveða hvenær er tímabært að opna hana en það eru víst ekki allir sammála mér um það.
Sveitt daður
Finn snertingu við öxlina. Sveitta öxl. Bregður eilítið og slít heyrnartólin úr eyrunum en hann er þegar búinn að vekja athygli mína á lausri skóreim með bendingu. Stoppa færibandið, muldra þakkir og reima skóinn. Halda áfram að lesa
Í það heilaga
Systir mín Loftkastalinn er að fara að gifta sig í sumar. Nú hafa þau Eiki búið saman í 10-11 ár og eiga saman tvo stráka, fyrir utan hin þrjú börnin sem hann hefur gengið í föðurstað. Þau telja víst að nú sé komin nóg reynsla á sambandið til að stíga það örlagaþrungna skref að fá prest til að innsigla samninginn. Gott hjá þeim. Alltaf eitthvað rómantískt við brúðkaup. Skilst mér. Halda áfram að lesa
Víííí!
Ég er hætt að finna til depurðar eftir æfingar en er á góðri leið með að verða flatbrjósta. Það er mun skárra en að fá hjartaáfall af hreyfingarleysi en ekki nein óskastaða samt. Skilst að sé ekkert einfalt trix til að grenna lærin án þess að brjóstin hverfi. Lykillinn að fullkomnu útliti er ekki hreyfing, heldur lýtalækningar.
Halda áfram að lesa
Skyr
Hvaðan kemur sú hugmynd að skyr sé eina próteinuppsprettan sem líkamsræktarfólki stendur til boða? Ekki svo að skilja að ég hafi neitt á móti skyri, mér finnst það alveg ágætt, með sykri og rjóma að sjálfsögðu. Ég er bara svo hissa á þessari áherslu á einmitt skyr. Hvernig er það í öðrum löndum, þar sem skyr er ekki til? Setja útlenskir endorfínfíklar tófú eða fisk saman við ávaxtamaukið? Eða eru allir bara pervisnir í útlöndum?
Ástandið
Fór í ástandsskoðun í morgun.
Átti allt eins von á því að mér yrði húrrað heim með sjúkrabíl og skýrslu upp á „nánast engin lífsmörk, mælt með byrjendaæfingum á borð við að klappa saman lófunum, hætta á hjartaáfalli við meiri áreynslu en sem því nemur.“ Halda áfram að lesa
Þegar tennurnar týnast …
Fólk sem tekur líkamsrækt alvarlega eyðir ekki orkunni í að tyggja ávexti. Það maukar þá og þynnir svo leðjuna með safa, mysu eða undanrennu svo sé hægt að neyta þeirra í fljótandi formi. Ég hef alltaf haldið að svona hræringur þjónaði þeim tilgangi að hylja lyfjabragðið af próteinpúlveri en nú er mér sagt að það séu ekkert endilega sett fæðubótarefni saman við súpuna. Halda áfram að lesa
Goðsögnin um endorfínkikkið
Tvennt hefur komið mér á óvart síðustu daga.
Í fyrsta lagi er fólk sem hreyfir sig reglulega er ekki rassgat fallegra en við hin. Að vísu hef ég ekki séð marga fituhlunka í tækjasalnum og sjálfsagt er þetta fólk allt saman rosalega sterkt og með mikið úthald en sturturnar eru svo fullar af signum brjóstum, flaxandi viskustykkjahandleggjum og lærum með mörkögglaáferð að ég er alveg hissa á að lýtalæknar hafi ekki klínt auglýsingum upp um alla veggi. Halda áfram að lesa
Sellofan
-Hvernig þekkirðu þennan mann? spurði Lærlingurinn.
-Gömul silkihúfa, svaraði ég.
-Draugur?
-Já. Hann skýtur upp kollinum einu sinni á ári eða svo.
-Draugur sem droppar inn og býðst til að sverma fyrir viðskiptasamböndum. Það er athyglisvert. Heldurðu að sé einhver alvara á bak við það eða er hann bara að vesenast eitthvað til að hafa afsökun fyrir því að nálgast þig?
Það er nú það. Ég veit það ekki og eiginlega er mér sama. Það kemur allt í ljós. Heppnin á það til að bregða sér í dulargervi og þegar allt kemur til alls virka galdrar ekkert verr þótt þeim sé pakkað í sellófan. Þeir seljast hinsvegar betur.
Silkihúfa.
Kannski sellófanhúfa.
Mikið vildi ég að hann Elías drifi nú í því að barna einhverja huggulega lesbíu.
Krónísk frekja?
Enn stendur frekjubíllinn í tveimur stæðum. Um daginn skildi ég eftir á honum svohljóðandi orðsendingu; „Þú hefur dýpkað skilning minn á orðinu frekja.“ Að sjálfsögðu setti ég einnig nafn og staðsetningu á blaðið. Maður sem býr í hverfinu kom í búðina til að þakka mér fyrir framtakið en þetta hefur hinsvegar ekki haft nein áhrif á eigandann.
Ef hann verður ekki farinn í kvöld frem ég eitthvert fordæði.
Þessir litlu hlutir
Í dag þurfti ég að leggja bílnum á gjaldsvæði í smástund. Ég var að ganga að gjaldtökuvélinni þegar stúlka snaraði sér að mér og rétti mér miða sem gilti dágóða stund í viðbót. Sagðist hafa borgað of mikið og þyrfti hann ekki lengur, hvort ég vildi ekki nota hann. Halda áfram að lesa
Komin kort
Nú eru komin nokkur kort inn á Launkofann. Ég lenti í smá veseni með kommentin en nú á þetta að vera komið í lag. Látið mig endilega vita ef þið hafið sent inn komment sem koma ekki fram.
Hvað er tröll nema það?
-Er hann þá loksins farinn?
-Það lítur út fyrir það.
-Eva. Sorrý að ég skuli skipta mér af þessu en ólíkt fólk rennur stundum saman í eina persónu á blogginu þínu. Stundum veit ég ekki hvort þú ert að skrifa um mig, Elías eða einhvern annan, sagði hann og hljómaði eins og eitthvað væri athugavert við það.
Halda áfram að lesa
Frekja
Viku eða 10 dögum fyrir páska var ægilega fínum sportbíl lagt við Norðurstíginn, þannig að hann tók tvö stæði. Ég fann ygglibrúnina síga þegar ég sá hann en tók þá eftir því að eitt dekkið var sprungið. Ég hugsaði sem svo að eigandinn hlyti að hafa lent í vandræðum og væri væntanlegur á hverri stundu með nýtt dekk og myndi svo færa bílinn. Þar skjátlaðist mér. Halda áfram að lesa
Páskafrí útrunnið
Notaði páskana til að þrífa hólf og lakka gólf. Gerði reyndar líka fleira, fór t.d. á leiksýninguna „Epli og eikur“ hjá Hugleik, alltaf gaman að þeim. Fór í mat á Selfoss til pabba og Rögnu á föstudaginn langa. Prísa mig sæla fyrir að vera ekki í mat hjá Rögnu á hverjum degi því það væri vís leið til að koma mér upp krónískri átfíkn. Ég er ennþá södd en reyndar gætu kjúklingabringurnar sem Sigrún eldaði ofan í mig í gær og keisaralega páskaeggið sem Stefán færði mér frá útlandinu haft einhver áhrif. Fyrir nú utan allar kaloríurnar sem Elías er búinn að troða í mig en hann hefur reyndar líka lagt sitt af mörkum til að láta mig brenna þeim aftur og það fannst mér nú skemmtilegt.
Þótt sé góð tilbreyting að hafa búðina lokaða og dunda bara við að lakka og þrífa er samt varla hægt að kalla það páskafrí. Ég er ákveðin í því að taka mér frí fyrstu helgina í júní. Svona alvöru frí, fara burt heila helgi. Ég veit reyndar ekkert hvert ég ætla. Nenni varla austur fyrir svona stuttan tíma en þar sem ég verð þá flutt í kjallarann á Vesturgötunni, kemur ekki til greina að vera heima í því fríi.
Afsakið …
Mér finnst alltaf skrýtið þegar fólk biðst afsökunar á því að hafa ekki bloggað lengi. Ég gæti kannski skilið það ef bloggið væri eina færa leiðin til að láta nánustu aðstandendur vita að maður sé á lífi en þeir sem eru í aðstöðu til að blogga geta nú yfirleitt líka sent tölvupóst. Það liggur því beinast við að álykta að fólk sé að biðjast forláts á því að hafa ekki sinnt þeirri borgaralegu skyldu sinni að vera kunningjum sem og ókunnugum til afþreyingar. Upplifir fólk virkilega vefbókina sem kvöð? Eitthvað sem maður skrifar af skyldurækni fremur en sjálfum sér til ánægju? Halda áfram að lesa
Besta diskólag allra tíma
Hvaða smekkleysuhroði hannaði þetta myndband?
Ég átti lögheimili í þessu lagi þegar ég var 10-12 ára og sá fyrir mér hvílíkan helling af dásamlegum dónaskap að ég gat ekki hlustað á þetta nema í einrúmi.