Afsakið …

Mér finnst alltaf skrýtið þegar fólk biðst afsökunar á því að hafa ekki bloggað lengi. Ég gæti kannski skilið það ef bloggið væri eina færa leiðin til að láta nánustu aðstandendur vita að maður sé á lífi en þeir sem eru í aðstöðu til að blogga geta nú yfirleitt líka sent tölvupóst. Það liggur því beinast við að álykta að fólk sé að biðjast forláts á því að hafa ekki sinnt þeirri borgaralegu skyldu sinni að vera kunningjum sem og ókunnugum til afþreyingar. Upplifir fólk virkilega vefbókina sem kvöð? Eitthvað sem maður skrifar af skyldurækni fremur en sjálfum sér til ánægju?

Ennþá furðulegra finnst mér að sjá komment á bloggara sem hafa tekið sér hlé eða tala jafnvel um að þeir ætli nú að bráðum að hætta þessu (stundum hálfafsakandi eins og þeir væru að segja upp vinnu) þar sem fólk er eindregið hvatt til að halda áfram, stundum með dramatískum yfirlýsingum um að lífið verði ekki samt ef viðkomandi bloggjöfur hverfi af sjónarsviðinu.

Ástæðurnar sem ég hef séð tilgreindar fyrir þessu væli út af vefbókum annarra eru tvær. Stundum virðist fólk álíta að það sé bloggaranum nauðsynlegt að blogga og að það bendi til örvæntingar eða áfalls ef hann/hún hættir. Ég gæti vel skilið þetta ef t.d. 13 ára krakki ætlaði að hætta að skrifa af því hann væri miður sín yfir andstyggilegu kommenti en maður sér þetta ekkert síður gagnvart fólki sem er engin ástæða til að ætla að hvíli sig á vefskrifum á öðrum forsendum en sínum eigin. Ég var t.d. ítrekað spurð að því hvort væri allt í lagi hjá mér, hvað hefði komið fyrr eða hvort ég væri í þunglyndi þegar ég lokaði færslum og hætti að blogga í nokkra daga. Ætli sama fólk haldi að þegar Spaugstofan fer í sumarfrí sé það merki um að móðir Randvers hafi hálsbrotnað eða Karl Ágúst liggi grátandi í bælinu og éti ís?

Hin ástæðan sem er tilgreind er „af því að það er hluti af tilveru minni að lesa bloggið þitt“. Hvurslags eiginlega rugl er það að reyna að gera einhvern bloggara úti í bæ, sem ekki fær krónu fyrir skrifin sín, ábyrgan fyrir daglegri rútínu sinni? Sjónvarpsstöðvar hvíla vinsælar þáttaraðir af og til án þess að geðdeildirnar yfirfyllist af syrgjendum. Biðin eftir lokabókinni um Harry Potter er orðin nokkuð löng og þótt höfundur fái sjálfsagt daglega yfirlýsingar um að einhver vitleysingurinn hyggist ganga af göflunum ef bókin komi ekki í verslanir innan viku, hefur ekki frést af neinum dauðsföllum ennþá.

Auðvitað saknar maður góðra penna og það er eðlilegt að tryggur lesandi þakki kurteislega fyrir góð skrif og voni að bloggarinn kom einhverntíma aftur. Hann hefur hinsvegar engan rétt á að láta í ljós óánægju, því andskotinn hafi það ef skemmtilegur penni má ekki nýta frítíma sinn til annarra hluta án þess að sitja uppi með samviskubit.

Vefbók er ólík ritverkum og sjónvarpsþáttaröðum á margan hátt. T.d. er þetta ólaunuð afþreying sem þjónar fyrst höfundinum sjálfum. Þegar vefbókin er annarsvegar er lesandinn í öðru sæti, höfundurinn var ekki að skrifa fyrir hann heldur sjálfan sig. Kannski kemur að því að lesendur þurfi að borga fyrir aðgang að vefbókum. Meðan svo er ekki getur enginn gert neinar kröfur til bloggarans og hann ætti aldrei að finna sig knúinn til að afsaka sig fyrir að skrifa ekki.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Afsakið …

 1. ———————————–

  rétt..
  eins og svo oft.

  Posted by: inga hanna | 8.04.2007 | 22:55:23

  ————————————————————

  vorum við ekki sammála um blogg og kynlíf – ekki gera það nema þig langi?

  Posted by: baun | 9.04.2007 | 11:14:53

  ————————————————————

  Jú ætli munurinn á bloggi og því að skrifa t.d. fyrir tímarit sé ekki svipaður og munurinn á skuldbindingalausu kynlífi og hjónabandi. Innan hjónabands hlýtur að koma fyrir að fólk finni sig knúið til að stunda kynlíf makans vegna en sá sem er á lausu þarf aldrei að biðjast afsökunar á því að vera ekki í stuði.

  Posted by: Eva | 9.04.2007 | 16:36:36

Lokað er á athugasemdir.