Hvað er tröll nema það?

-Er hann þá loksins farinn?
-Það lítur út fyrir það.
-Eva. Sorrý að ég skuli skipta mér af þessu en ólíkt fólk rennur stundum saman í eina persónu á blogginu þínu. Stundum veit ég ekki hvort þú ert að skrifa um mig, Elías eða einhvern annan, sagði hann og hljómaði eins og eitthvað væri athugavert við það.

-Já, ég hef tekið eftir því líka, sagði ég hissa, merkilegur andskoti.
-Hvað gengur þér til með því að skrumskæla raunveruleikann svona?
-Það kallast skáldskapur yndið mitt.
-Ég kann bara frekar illa við það þegar einhverjum öðrum er eignað eitthvað sem ég hef sagt eða þegar ég er látinn gera eitthvað með þér sem gerðist í rauninni með einhverjum öðrum, sagði hann og gott ef hamingjuglottið vipraðist ekki eilítið.
-Það er í lagi elskan. Það eru þúsundir annarra bloggsíðna í boði svo þú þarft ekkert að lesa mína frekar en þú kærir þig um.
-Af hverju geturðu ekki bara sagt hlutina eins og þeir eru í raun og veru?

-Í fyrsta lagi þá er raunveruleikinn of skyldur sápuóperu til að vera skrifum mínum samboðinn. Í öðru lagi þá er góð saga ekki verri þótt hún sé login. Og svo er eitt enn; myndirðu í alvöru kæra þig um að sjá sannleikann umbúðalausan á opinni vefsíðu?
-Af hverju ekki? Ég kann ágætlega við raunveruleikann.
-Þú gætir t.d. reiknað með óþægilegum spurningum frá konunni þinni.
-Hafðu ekki áhyggjur af því. Hún er allt of sjálfhverf til að lesa blogg þar sem hún er ekki nafngreind.

Reyndar held ég gæskurinn minn að þú vanmetir kvenlega hnýsni. Og sjáðu nú hvað það er í rauninni praktískt að draga ekki alveg skýra línu á milli skáldskapar og raunveruleika. Nú set ég þetta samtal á bloggið mitt og ef hún spyr geturðu sagt henni að atburðir og karakterar séu álíka aðgreinanlegir eftir 7 mínútna viðkomu í vefbókinni minni eins og grænmeti eftir 7 mínútur í matvinnsluvél. Þú getur m.a.s. vísað í þessa færslu því til sönnunar.

Best er að deila með því að afrita slóðina