Nöldur

Ef ég hefði lesið jafn marga fermetra og ég hef skúrað, væri ég vitur kona í dag.

Ég lofaði sjálfri mér því fyrir löngu að eftir fertugt skyldi ég ekki vinna önnur heimilisstörf en þau sem mig beinlínis langaði til. Mér líður almennt vel í eldhúsi, vil helst sjá um þvottinn minn sjálf en hef megna óbeit á skúringum og í tilefni af því gaf ég sjálfri mér Pólínu í afmælisgjöf. Halda áfram að lesa

Skýrsla

Mér hefur ekki tekist að draga neinn með mér á frönsku kvikmyndahátíðina ennþá, synd og skömm. Í kvöld gafst ég upp og fór ein. Sá yndislega mynd um serbneskan sveitastrák sem fer í kaupstað til að verða sér úti um helgimynd, minjagrip og konu, svo afi hans geti gefið upp öndina. Franskur húmor er svo sérstakur. Eitthvað svo hlýr, jafnvel þegar hann er svartur.

Ég afrekaði það líka í dag að mæta í magadanstíma. Ég hef ekkert farið síðan í mars og er alveg eins og spýtukerling.

Ég mæli svo með viðtalinu við Pegasus sem birtist í Kompásnum á þriðjudaginn.

Bros

Ég var að átta mig á því að ég á ekki nema eina mynd af mér með opnu brosi. Stöku sinnum hafa slíkar myndir verið teknar af mér fyrir slysni en ég hef aldrei verið nógu ánægð með þær til að geyma þær. Yfirleitt lít ég út fyrir að vera alvarlega geðveik á slíkum myndum. Eða þá 62ja ára. Skýringin er nú líklega sú að ef brosið er opið hef ég sennilega verið í hálturskasti. Ég er svona líklegri til að glotta út í annað en að brosa af hófstilltri gleði

Kannski bara fer mér ekki vel að brosa.

Klúður ársins 2007

Svo Snædís litla er þá lifandi enn. Í sumar þegar hún var dauðvona var ég beðin að búa til sérstakan grip handa henni. Ég vissi ekki þá að hún væri búin að missa máttinn í höndunum og bjó til sprota, sem þarf auðvitað handafl til að nota. Hún hafði komið til mín nokkrum vikum áður og þá gat hún vel notað hendurnar. Hversvegna í fjandanum var mér ekki sagt að ég hefði búið til hlut sem myndi ekki nýtast henni?

Ég verð allavega ekki verkefnalaus á morgun.

Óleysanlegt

Vandamál er ekki það sama og verkefni þótt sumir vilji endilega gera einföldustu verkefni að vandamálum. Vandamál er meira en erfitt verkefni. Vandamál er ástand sem er of vandasamt að breyta til að maður hafi trú á að það sé áreynslunnar virði en samt svo slæmt að lifa við að maður vill það ekki heldur. Halda áfram að lesa

Nótt

Og hafi ég mjakast handarbreidd frá þér í svefninum, finn ég sterkan arm þinn leggjast yfir mig og draga mig aftur inn í hlýjan faðm þinn.

Þrátt fyrir allt er eitthvað nákvæmlega eins og það á að vera.

Uncanny again

Í kvöld hef ég sóað tíma mínum í að horfa með öðru auganu á ómerkilega og ákaflega ótrúverðuga bíómynd um gaur sem verður ástfanginn af stúlku með ónýtt skammtímaminni. Hékk á netinu með hinu auganu og komst að því að jafnvel raunverulegasta persóna tilveru minnar lítur á mig sem skáldsagnapersónu. Um leið áttaði ég mig á því hversvegna ég var að horfa á mynd sem er ekki þess virði. Allt er í heiminum táknrænt.

Yfirleitt er fólk ekki sjálfu sér samkvæmt og í raun ekkert hægt að gera slíka kröfu. Mér líkar það stórilla.

Fíbblamjólk

Heimurinn er að drukkna í kjaftæði og það er sko ekkert leyndarmál.

Ef þér dettur í alvöru í hug að það sé nóg að hugsa sér hlutina eins og þú vilt hafa þá til þess að allt verði fullkomið af sjálfu sér, skoðaðu þá kynóra þína síðustu 10 árin eða svo. Halda áfram að lesa

Eldhússtrix

Pegasus er búinn að trixa eldhúsið mitt svo nú get ég lokað skáp sem annars stóð alltaf opinn. Þessi maður gerir allt fyrir mig.

Skemmtilegar vikur framundan. Hitti systtkini mín um helgina, búin að plana kvöld með Darra (sem ég hef varla hitt síðan á jólunum) Sigrún á stórafmæli og svo er að hefjast frönsk kvikmyndahátíð, einmitt á þessum rólega árstíma. Ég sé fram á að geta flutt lögheimilið mitt í bíó. Já og svo á ég gjafakort í Þjóðleikhúsið. Kannski maður fari að skoða hvað er í boði þar.

Nýtrú

Anna: Ég sá Jesus Crist Superstar og allt í einu áttaði ég mig á því að eftir 50-100 ár verða fígúrur eins og Ophra Winfrey og Dr. Phil tekin í dýrðlingatölu. Fólk er svo sjúkt í persónudýrkun sinni.
Eva: Það er svosem skiljanlegt að fólk dýrki gaur sem breytti vatni í vín. Halda áfram að lesa

Uncanny

Einu sinni elskaði ég mann svo heitt að ég lokaði vefbókinni minni til að geðjast honum. Ef einhver annar hefði sagt mér að hann hyggðist gera það sama hefði ég sagt viðkomandi að það væri sjúkt og rangt og að sá sem væri tilbúinn til að þyggja slíka fórn væri hennar sennilega ekki verður. Ég gerði það samt. Reyndar fórnaði ég líka heimili mínu og fjárhagslegu öryggi áður en hann gaf skít í mig en það var nú ekkert eins erfitt. Halda áfram að lesa

Enn eitt lúxusvandamálið

Óttalega er nú bjánalegt hvað mér finnst alltaf kvíðvænleg tilhugsun að koma jólunum í geymslu. Það hefur aldrei verið hið minnsta vandamál og sjaldan tekið langan tíma. Reyndar hefur það aldrei verið minna mál en í þetta sinn, þar sem ég hef aldrei verið í minni íbúð og þ.a.l. aldrei með minna skraut, hvorugur strákanna setti neitt upp í sínu herbergi og við settum ekki upp jólatré (enda hvergi almennilegt pláss fyrir það.)

Þetta er ein ljósakeðja, aðventukrans og einn kassi með kannski 10-15 hlutum. Auk þess er Darri heima og þótt hann sé ekki haldinn taumlausri afjólunarástríðu verður ekkert mál að fá hann til að hjálpa mér að taka niður háaloftsstigann og setja hann upp aftur en það er erfiðasti hlutinn af þessu prógrammi. Ég reikna með 12 mínútum í verkið. Samt líður mér eins og ég sé að fara í Bónus.

Í nærveru sálar

Þótt ég sé yfirhöfuð ekkert hrifin af því að vera gagnrýnd (þeir sem þykjast vera ánægðir þegar þeim er bent á vankanta sína eru jafn miklir lygarar og þeir sem segjast fagna samkeppni eða lögreglurannsókn) þá gengur mér yfirleitt nokkuð vel að takast á við geðshræringuna sem óhjákvæmilega fylgir því að þurfa að horfast í augu við sjálfan sig. Hitt er svo annað mál að óumbeðin gagnrýni er sjaldnast uppbyggileg en ég hef svosem aldrei verið í vandræðum með að svara fyrir mig. Mér finnst í raun auðveldara að takast á við ósanngirni og dónaskap en verðskuldaðar útásetningar, líklega af því að í þeim tilvikum lít ég svo á að það sé gagnrýnandinn eigi við stærri vandamál að stríða en ég. Halda áfram að lesa

Annáll ársins 2007

Um áramót er ég vön að líta yfir farinn veg og tíunda afrek síðasta árs. Það er frekar fljótlegt að þessu sinni. Helsta afrek mitt árið 2007 er það að hafa tekist að halda úti vefsíðu sem er uppfærð að meðaltali einu sinni á dag, þrátt fyrir að hafa ekki gert nokkurn skapaðan hlut sem er upprifjunar virði.

Jú annars, eitt kannski. Ég framdi svartagaldur á Austurvelli og síðan hafa verið stöðugar jarðhræringar í Upptyppingum.

Áramótakveðja

Nýtt ár er upp runnið og óska ég landsmönnum öllum og öðrum lesendum gríðarlegrar hamingju og skemmtunar á nýju ári. Sérstaklega vona ég að bekkjarsystkini mín úr Þelamerkurskóla sem skipulögðu bekkjarmótið í haust verði fyrir margháttuðu happi á árinu þar sem umrædd samkoma hafði hinn mesta happadrátt í för með sér.

Áramótaheit mín að þessu sinni eru tvö.
1 Ég ætla að hætta að hugsa fyrir syni mína. Að sjálfsögðu ætla ég áfram að hafa skoðanir á öllu sem þeir gera og gera ekki og skipta mér af eftir smekk og þörfum. Ég ætla hinsvegar að hætta að minna þá á að skila bókasafnsbókum, kaupa afmælisgjafir, mæta í matarboð og hengja úr þvottavélinni.
2 Ég ætla að finna leiðir til að vera eins góð við Pegasus minn og hann á skilið. Það verður öllu erfiðara.

 

Klikk

Skrýtið, og þó, kannski er það ekkert svo skrýtið.

Ég býst við að langsveltur maður sem sest að veisluborði sjái næringuna á undan lúxusnum. Hann áttar sig á því að allt er flott og fullkomið en hann treður sig fyrst út til að seðja sárasta hungrið og fer svo að dást að borðbúnaðinum og serviettunum og pæla í því hvernig laxasneiðunum er raðað í blómamynstur. Halda áfram að lesa