Snúður

Trölli hrærði sykri út í kaffið sitt svo skvettist upp úr bollanum. Bölvaði hressilega og ég sótti eldhússpappír og færði honum könnu í stað fíngerða kaffibollans úr gamla stellinu hennar ömmu.

-Ég sé að þú ert bara ýkt happý með þessum flugmanni? sagði hann í þessum líka hressilega tón sem átti sjálfsagt að örva í mér sagnaþulinn.
-Ég er gjörla lukkuleg, svaraði ég.
-Og? Þetta er alvöru karlmaður?

Alvöru karlmaður. Hvað er nú það? Var hann að fiska eftir því hvort Pegasus væri af sömu þursaættum og hann sjálfur eða langaði hann að skemmta sér yfir barbíbleikum lýsingum á ljóðelskandi sykursnúði? Endur fyrir löngu átti ég kærasta sem notaði naglbandaklippur reglulega og Trölla fannst það svo óstjórnlega skemmtilegt að hann getur enn ekki hitt mig án þess að nefna það.

-Hann er náttúrulega ekki alvöru, ég er bara að skálda, sagði ég.
-Djös lygin í þér. Þú ert með tengil á hann, sagði hann en eitthvað í röddinni sagði mér samt að hann væri ekki viss..
-Já. Ég var orðin svo leið á þessu einlífi og vefbókin orðin svo þreytt að ég mátti til með að poppa hana dálítið upp með kærasta. Mig langaði að raungera hann svo ég fann einhvern huggulegan gaur á netinu, náði í myndir af honum og fann bloggið hans og spann sögu í kringum hann.
Hann horfði á mig með svip sem var miðja vegu milli vantrúar og hneykslunar.
-Kommon. Ertu ekki að grínast?
-Neinei. Gaurinn kom hingað svo í fyrradag, þokkalega frústreraður. Einhver hafði sagt kærustunni hans frá þessu og hún snælduvitlaus og allt í hassi.
-Og hvað? Ertu búin að skrifa leiðréttingarblogg?
-Nöjtsh! Ég sagði honum bara að segja kærstunni að lesa meira. Ég er búin að bulla það mikið, elda hann um fimm ár, klína á hann bekkjarmóti norður í landi og allt það. Hann hefur pottþétt nægar fjarvistarsannanir til að geta sannfært hana um að ég sé bara klikkuð.
-Eva þú getur ekkert gert svona!
-Víst. Ég er skáld og það ná engin lög yfir skáldskap.
-Ég meina, hvað sagði maðurinn?
-Ekkert meira svosem. Ég bauð honum upp á furumflumm í bætur í fyrir kærustudramað og hann var alveg sáttur við það.

Hann horfði rannsakandi á mig. Lengi.
-Eva. Þú ERT að djóka er það ekki?
-Heldurðu það?
sagði ég í véfréttartón. Og hló ekki.

 

 

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Snúður

  1. ————————————–

    Þetta er sannur íslenskur húmor. Að skálda sögur og hlægja svo að trúgirni áheyrandans. Ég reyndi þetta hér í Noregi og það gekk ekki.

    Annars er þetta drepfyndið hjá þér og ansi gott að ná að gabba hann svona lengi.

    Posted by: Þorkell | 11.01.2008 | 21:14:34

    —   —   —

    nú ískrar í mér af einskærri gleði 🙂 Þetta er ekkert minna en snilld!

    Posted by: Jón Kjartan Ingólfsson | 11.01.2008 | 23:55:42

    —   —   —

    Hahahahahahahahahaha! 🙂

    Eins og Trölli veit ég ekki í svipinn hverju ég á að trúa en mér er skemmt! 🙂

    Posted by: Unnur María | 12.01.2008 | 14:48:06

    —   —   —

    satt eða logið? skiptir ekki máli ef sagan er góð.

    mig langar samt að pegasus sé til.

    Posted by: baun | 12.01.2008 | 17:22:54

    —   —   —

    Hnuss. Þú hefur ekki verið nógu geðbólgin að undanförnu til þess að ég trúi því að P. sé plat…

    Posted by: Miss G | 12.01.2008 | 22:55:47

Lokað er á athugasemdir.