Ó! þessi mannlega eymd

Það er fátt sem mér gremst jafn mikið og að þurfa að biðja um aðstoð. Þoli ekki að þurfa að viðurkenna vanmátt minn fyrir öðrum, jafnvel þótt ég sé löngu búin að horfast í augu við hann sjálf.

Ég geri mér alveg grein fyrir því hvað þetta er kjánalegt viðhorf. Það er fátt hallærislegra en að koma sér í óþarfa vandræði eða hjakka endalaust í sama farinu, bara af því að maður er of huglaus eða hrokafullur til að leita til annarra. Afleiðingarnar af því að ætla að leysa alla hluti sjálfur eru sjaldan virðulegar og fyrstu merki þess að maður hafi fallið í þá gryfju eru einkar hallærislegar tilraunir til að breiða yfir það með afsökunum sem allir aðrir sjá í gegnum. Ef maður ræður ekki við barnauppeldi er barnið alltaf „þreytt“ eða „hálflasið“. Sá sem hefur ekki stjórn á fjármálum glímir við krónískt „rugl í bankanum“. Ofrykkjufólk dettur í það af því að það er „undir álagi“.

Ég hef séð þetta allt saman grilljón sinnum og oft staðið sjálfa mig að álíka asnaskap. Veit að ég get forðað sjálfri mér frá verulega hallærislegri aðstöðu og sparað mér mikla orku við að hugsa upp réttlætingar og afsakanir bara með því að brjóta odd af oflæti mínu og viðurkenna ein mistök sem eru m.a.s. mjög eðlileg, mistök sem flestir gera einhverntíma. Ég veit þetta allt en er samt að reyna að sannfæra sjálfa mig um að það gildi einhver önnur lögmál um mig en aðra.

Best er að deila með því að afrita slóðina