Vandamál er ekki það sama og verkefni þótt sumir vilji endilega gera einföldustu verkefni að vandamálum. Vandamál er meira en erfitt verkefni. Vandamál er ástand sem er of vandasamt að breyta til að maður hafi trú á að það sé áreynslunnar virði en samt svo slæmt að lifa við að maður vill það ekki heldur.
Sum vandamál má skrifa á reikning örlaganna. Maðurinn velur yfirleitt ekki að vera fatlaður, fæddur til örbirgðar eða að sæta ofsóknum. Það er semsagt ekki rétt að allt líf okkar sé afleiðing af eigin gjörðum og afstöðu. Eftir stendur að oft, mjög oft, kannski oftast, leggjum við sjálf heilmikla þyngd á vogarskál vandamálsins, jafnvel þegar það er ekki sjálfsakapað víti.
Í lífi mínu er eitt vandamál. Eitt, einasta andskotans vandamál og það veldur mér meiri geðbólgu en ég hef smekk fyrir. Sennilega á ég mesta sök á því sjálf en ég hef ekki hugmynd um hvað ég gerði vitlaust. Ef ég vissi það væri ég búin að leysa málið fyrir mörgum árum. Stundum held ég jafnvel að ég hafi í raun ekki gert nein mistök, ég sé bara svona óheppin. Hvað sem því líður græði ég nákvæmlega ekkert á því að finna sökudólg því þótt hann fyndist stæði samt ekki upp á neinn nema sjálfa mig að leysa málið. Ég hélt að ég gæti fengið aðstoð til þess en nú er mér sagt að vandamálið sé einfaldlega óleysanlegt. Það eina sem ég geti gert sé að sætta mig við ástandið eða að losa mig úr þessari aðstöðu, með aðferð sem er þess eðlis að mér myndi alls ekki líka vel við sjálfa mig ef ég færi þá leið.
Yfirleitt sé ég lítinn tilgang í að eyða orðum á þann sem er ekki viðræðuhæfur. Í slíkum tilvikum lætur maður verkin tala og reynir framvegis að hafa eins lítil samskipti við viðkomandi og mögulegt er. Mér lætur yfirleitt ágætlega að koma fram af fullri hörku, einkum gagnvart stofnunum og drullusokkum. Nú stend ég hinsvegar frammi fyrir því að þurfa að sýna meiri grimmd en samræmist sjálfsmynd minni, ella láta valta yfir mig án þess að bera hönd fyrir höfuð mér.
Mér finnst ótrúlegt að það séu ekki til fleiri valkostir en þessir tveir en ekki sé ég neina aðra og ekki hafa sérfræðingar betri svör.
Hvað gerir maður við fólk sem ekki er hægt að tala við?
————————————-
Finnur málamiðlun með hjálp 3 aðila ?
Posted by: Guðjón Viðar | 14.01.2008 | 16:35:56
— — —
Málamiðlun hlýtur að byggjast á samvinnu. Hvað gerir maður við fólk sem er ekki hægt að tala við?
Posted by: Eva | 14.01.2008 | 17:19:12
— — —
Nema þú sért að meina að þú talir ekki Swahili meðan hinn sé mjög fimur í því sproki, þá er alltaf til 3 aðili sem báðir treysta.
Posted by: Guðjón Viðar | 14.01.2008 | 17:44:22
— — —
Ég skil hvað þú átt við þó svo ég hafi ekki hugmynd um um hvað þitt mál snýst.
Ég þarf að hafa samskipti við óviðræðuhæfan einstakling og þriðji, fjórði, fimmti, whatever-aðili hefur ekki fundist sem breytir óviðræðuhæfum einstakling í mannlega viðræðuhæfa veru.
Posted by: Harpa | 14.01.2008 | 19:34:52
— — —
Það er ómögulegt að svara þessu án þess að vita hvað málið gengur út á og þekkja til þess sem á undan er gengið.
Posted by: Þorkell | 15.01.2008 | 0:10:43
— — —
Sammála Kela.
Knús á þig 🙂
Posted by: Hulla | 15.01.2008 | 5:59:25