Þarf það endilega að vera verðmætt?

Anna segir að raunveruleg verðmæti séu fólgin í vinum þínum en ekki þeim sem þú sefur hjá.

Einhvernveginn finnst mér rökrétt að sofa þá bara hjá vinum sínum. Verst að vinir mínir eru allir fráteknir. Nema Spúnkhildur og ég vil ekkert sofa hjá henni.

Reyndar komst ég að þeirri niðurstöðu fyrir nokkrum árum að það væri vesenisminnst að sofa hjá einhverjum sem mér er hæfilega illa við eða hef allavega nógu lítið álit á til að ekki sé hætta á að það þróist út í einhverjar ástargrillur. Mér hefur samt aldrei verið neitt illa við Elías en ég vissi líka að hann yrði ekkert í boði nema í stuttan tíma svo það var ekki verulega hætta á að yrði eitthvað ástarkjaftæði úr því.

Í augnablikinu er mér því miður ekki illa við neinn.

Afrek dagsins

Afrek dagsins er svo mikilvægt að ég efast um að nokkuð sem ég á eftir að taka mér fyrir hendur á þessu ári komist í hálfkvisti við það. Í dag bjargaði ég fjármunum sona minna frá eilífri glötun í íslensku bankakerfi. Ekki veit ég hvaðan þeir hafa þá hugmynd að það sé ósiðlegt að vera fjárhagslega sjálfstæður. Líklega hef ég gengið full langt í því að innræta þeim andúð á neysluhyggju. Halda áfram að lesa

Valentínusarblogg

Veturinn minn í Leeds átti ég vingott við geðbilað málfræðiséní. Hann safnaði biblíum og smokkaleiðbeiningum, því hann sagði að þetta tvennt væri nákvæmlega eins allsstaðar í heiminum og þessvegna nauðsynlegt þeim sem vildi læra sem flest tungumál. Hann færði mér gjöf á Valentínusardaginn og af því að við vorum ekki á Íslandi fannst mér það ekkert mjög asnalegt. Halda áfram að lesa

Klámsýki Gvuðs

Hahh þarna plataði ég þig. Þessi færsla snýst hvorki um Guð eða gvuð og því síður um klámsýki þeirra félaga.

Ég hef tekið eftir því að ef ég nefni guðdóminn eða eitthvað tengist hinu kynræna í titli færslunnar, eykst aðsóknin á síðuna um 100-150%.

Ég ætlaði bara að tékka á því hvað gerðist ef ég nefndi hvorttveggja :-Þ

Ástúð

Það er ekki af illgirni, (ég myndi alveg viðurkenna það ef svo væri) sem mér hlýnar um hjartaræturnar þegar ég sé mistök hjá manni sem ég hef svo mikið álit á að ef ég væri ekki viss hefði ég sagt nei, þetta er áreiðanlega ekki hann, þetta eru allt of klaufaleg mistök til að það geti staðist. Halda áfram að lesa

Þarfatrapísan

Ég skil neysluhyggju, svona að vissu marki.
Ég skil alveg löngunina til að eiga allskonar fínt og gera allkonar gaman.
Ég skil líka þörfina fyrir stöðutákn.
Ég hef aldrei haft gaman af að þræða útsölur og það veldur mér of mikilli vanlíðan að vera blönk til að ánægjan af nýjum hlutum bæti það upp, en ég veit að verslunaræði er eins og hver önnur fíkn, óheppileg viðbrögð við óhamingju Halda áfram að lesa

Ákall til íslenskra kynvillinga

Ég hef séð tvo þætti af Auga öfuguggans. Þar er sko þjónusta sem ég væri til í að hafa aðgang að.

Plííís! Ef glaðbeittur hópur íslenskra kynvillinga er að hugsa um að búa til svipaða þætti hér heima, má þá sonur minn Sveitamaðurinn vera fyrsta verkefnið?

Launahækkun

Uppfinningamaðurinn hækkaði launin mín. Ég hef aldrei áður haft vinnuveitanda sem tekur það upp hjá sjálfum sér.

Nei, ég beitti ekki galdri til þess.
Hinsvegar ætla ég að galdra marga peninga handa honum á sunnudaginn, og hamingju líka. Ég held að hann langi í svoleiðis.

Spáð í stjörnurnar

Gulli stjarna tók viðtal við mig og útbjó stjörnukort sem er birt ásamt túlkun á sama stað.
Karakterlýsingin kemur skemmtilega á óvart.

Hún er ekki fullkomin en þó ekki óáreiðanlegri en mörg persónuleikapróf sem byggja á spurningum. (Þá er ég ekki að tala um quizilla heldur alvöru próf) Sex atriði eiga alls ekki við mig og ekkert er minnst á þrjá eiginleika sem eru mjög áberandi í fari mínu.

Að öðru leyti er þetta nokkuð nákvæm lýsing. Ég kíkti á nokkur önnur stjörnukort því ég átti svosem alveg eins von á að þetta væru svo almennar lýsingar að ég gæti skrifað undir hverja þeirra sem er en svo er reyndar ekki.

Dálítið forvitnilegt, eins og reyndar flestar þær aðferðir sem mannskepnan notar til að reyna að botna í sjálfri sér.

Klemma

Þegar skelfilega slæmur listamaður, sem ég kann vel við sem manneskju, álítur sjálfur að hann sé afskaplega góður listamaður og skilur ekkert í því að elítan skuli ekki veita því eftirtekt, reyni ég að forðast umræðuefnið við listamennirnir og verkin okkar hin vanmetnu.

Þegar viðkomandi biður mig svo að segja álit mitt á snilldinni, og mér er ekki stætt á því að segjast ekki dómbær, hvernig í fjáranum á ég þá að segja sannleikann án þess að svipta viðkomandi tilgangi lífins?

Til hvers heldur fólk eiginlega að gagnrýnendur séu? Er það ekki í þeirra verkahring að losa vini og vandamenn undan þeirri áþján að þurfa að segja listamanninnum að hann sé einfaldlega á rangri hillu?

Meiri ostur

Ekki datt mér í hug að 135 demparasalar á fylliríi, víðs vegar að úr heiminum, hefðu allir sem einn þolinmæði til að hlutsta á útskýringar álfkvenna á norrænum rúnum. Sér í lagi þar sem aðeins ein úr hópnum er nógu hávaxin og íðilfögur til að vekja þá athygli sem álfar verðskulda.

Álfkonugallinn var svo stór að ég minnti meira á hobbita í hveitsekk en álf en þetta var miklu skemmtilegra en ég átti von á.

Ég á fastlega von á að þetta verði aðeins upphafið að glæstum ferli okkar í ferðamannaþjónustu.

Neyðarlegt

Ég kveikti í nöglinni á mér!

Þetta er það hallærislegasta sem ég hef gert í þessari viku. Aulaverkur síðustu viku var samt verri.

Ég hringdi í Háskólabíó og spurði hvort væru eftir einhverjar sýningar á Kórnum. Stúlkan kom af fjöllum og sagðist ekki vita til þess að sú mynd væri á dagskrá frönsku kvikmyndahátíðarinnar. Halda áfram að lesa