Dýpra en bliss

Ég sá Glæp gegn diskóinu í gær. Það er góð saga en mig vantar almennilegt íslenskt orð yfir tilfinninguna sem góð saga skilur eftir.

-Ég var ánægð með sýninguna en ég verð líka ánægð þegar strákarnir ganga frá þvottinum sínum svo það orð er tæplega nothæft í þessu samhengi.
-Góð saga vekur tilfinningu sem er náskyld gleði en þegar sagan er dapurleg og ljót verð ég ekki glöð heldur eitthvað annað þótt efnahvörfin í heilanum kunni að vera þau sömu.
-Ég gæti sagst vera fullnægð og komist nálægt því, en það orð er svo fast tengt kynferðislegri upplifun í hugum okkar að það gengur ekki heldur. (Auk þess er orðið villandi, fullnæging er sjaldan fullnægjandi)
-Alsæla tengist ákveðnu vímuefni, uppljómun tengist trú, andakt líka.

Eina nothæfa orðið sem ég kann yfir þetta ó! sem hríslast um taugakerfið, þegar maður gengur út af leiksýningu sem mann langar að sjá aftur eða leggur frá sér bók með nánast sársaukafullum trega yfir því að hún sé búin, er „bliss“ og það er ekki sérlega íslenskt. Auk þess hljómar bliss líkt og blossi og þessvegna finnst mér að bliss hljóti að vera eitt örstutt andartak. Bliss er brandari sem maður gleymir, kynferðisleg fullnæging, sena úr hrollvekju, eitt bros. Það sem ég er að reyna að koma orðum að á meira skylt við ást. Upplifun sem eyðir samviskubitinu yfir því að fara út eða sökkva sér í skáldsögu þótt sé fullt af óhreinum þvotti heima. Upplifun sem heldur manni í því ástandi mjög lengi og skilur eitthvað eftir sem er heldur ekki til neitt almennilegt orð yfir í íslensku. Og kannski engu öðru tungumáli heldur.

Best er að deila með því að afrita slóðina