Ástúð

Það er ekki af illgirni, (ég myndi alveg viðurkenna það ef svo væri) sem mér hlýnar um hjartaræturnar þegar ég sé mistök hjá manni sem ég hef svo mikið álit á að ef ég væri ekki viss hefði ég sagt nei, þetta er áreiðanlega ekki hann, þetta eru allt of klaufaleg mistök til að það geti staðist.

Það er bara eitthvað svo hrikalega sætt við svona ponkulitla, ómerkilega villu sem yfirleitt færi í taugarnar á mér. Eins og t.d. ef frábær píanóleikari væri að spila dinnertónlist á ódýru veitingahúsi (fyrir vin sinn, ókeypis) og slægi feilnótu í lagi sem er ekki erfitt og hann hefur spilað milljón sinnum. Það væri kannski sorglegt á tónleikum þar sem frammistaða hans væri undir smásjá. Það væri líka hræðilegt ef hann klúðraði laginu gjörsamlega eða ef hann væri byrjandi og færi heim með sjálfstraustið í rúst.

En þegar það er bara svona pinkuponsu feill sem fáir taka eftir og sýna að frábær listamaður er fyrst og fremst maður en ekki bara snillingur, þá líður mér eitthvað svo ástúðlega.

Það ku vera erfitt að elska snillinga enda er takmarkalaus sjálflægni iðulega fylgifiskur náðargáfna. Ég hef aldrei átt í nánu sambandi við snilling. Ég hef hinsvegar þekkt marga geðsjúklinga og fíkla sem halda að þeir séu snillingar. Ég held að til séu snillingar sem ekki eru haldnir það-sem-ég-vil-núna-heilkenninu. Samt trúi ég hvorki á jólasveininn né ástina.

Ég veit um mann sem er harla snjall. Hann gerir stundum pínulítil mistök en er hvorki alhóhólisti né klámsjúkur. Ég hrífst af snilldinni en það eru mistökin sem vekja mér ástúð. Mikið þætti mér vænt um það ef hann léti svo lítið að svara bréfi sem ég skrifaði honum fyrir löngu.