Afrek helgarinnar

Fór með Ökuþórinn á Geisjumyndina á föstudagskvöldið. Ég átti ekki von á japanskri mynd og ætla því ekki að svekkja mig á því þótt hún eigi meira skylt við amríska kvikmyndagerð. Sem slík er hún bara mjög vel heppnuð. Endirinn að vísu full amrískur fyrir minn smekk.

Dró hinn sama Ökuþór með mér á danssýningu hjá Magadanshúsinu á laugardagskvöld. Hann lér sét fátt um finnast og gaf lítið út á það þegar ég spurði hann hver dansmeynna væri sætust.

Endorfínuppspretta tilveru minnar reyndist ekki vera með heilaæxli, kafbátur kom í heiminn og systir mín Anorexía bað mig að finna ráð til að galdra vinnuveitendur sína til Helvítis, eins og hún orðar það. Ekki kann ég þá uppskrift, óska hér með eftir henni.

Sonur minn Byltingamaðurinn fór á Álráðstefnu á föstudaginn. Ekki tókst honum að fremja nein hryðjuverk í það skiptið, þar sem hann var afvopnaður við innganginn. Hið skæða vopn, penninn hans var gerður upptækur og tókst eigi að endurheimta hann að ráðstefnu lokinni. Ekki finnst honum mikið koma til báráttuanda kynslóðar sinnar.
-Brauð og leikar, það er málið, segir hann og ygglir sig. Rómverjar vissu hvað þurfti til að gelda almúgann og það gildir enn. Svo framarlega sem fólk hefur nóg að éta og fótbolta eða annað afþreyingarefni í sjónvarpinu, er því skítsama hvað er að gerast í kringum það.

Stundum finnst mér eins og ég heyri sjálfa mig tala í gegnum hann.

Best er að deila með því að afrita slóðina