Afrek dagsins

Afrek dagsins er svo mikilvægt að ég efast um að nokkuð sem ég á eftir að taka mér fyrir hendur á þessu ári komist í hálfkvisti við það. Í dag bjargaði ég fjármunum sona minna frá eilífri glötun í íslensku bankakerfi. Ekki veit ég hvaðan þeir hafa þá hugmynd að það sé ósiðlegt að vera fjárhagslega sjálfstæður. Líklega hef ég gengið full langt í því að innræta þeim andúð á neysluhyggju.

Ég er ekki ennþá búin að sannfæra Hauk um að það sé siðuðum manni sæmandi að fjárfesta í verðbréfasjóðum og ég efast um að það takist nokkurntíma. Hann sagðist með tregðu ætla að réttlæta það að leggja fé í stórfyrirtæki, með því að vextirnir gætu með tímanum gert honum fært að verja þeim tíma sem annars færi í vinnuþrælkun fyrir einhverja kapítalistaandskota í þágu byltingarinnar. Láta heimsvaldasinnaógeðin borga sér fyrir að steypa þeim.

Sama er mér hvaða rök þessir drengir mínir nota. Ég vil bara að þeir átti sig á því að það er ekki nóg að vera nægjusamur, maður sem skilur ekki að peningar hafa sinn fengitíma og vanrækir að hleypa til, verður alltaf fátækur. Og ekkert er verra en fátækt, nema auðvitað krabbamein.

Best er að deila með því að afrita slóðina