Valentínusarblogg

Veturinn minn í Leeds átti ég vingott við geðbilað málfræðiséní. Hann safnaði biblíum og smokkaleiðbeiningum, því hann sagði að þetta tvennt væri nákvæmlega eins allsstaðar í heiminum og þessvegna nauðsynlegt þeim sem vildi læra sem flest tungumál. Hann færði mér gjöf á Valentínusardaginn og af því að við vorum ekki á Íslandi fannst mér það ekkert mjög asnalegt.

Það fer ekkert í taugarnar á mér þótt annað fólk vilji taka upp útlenska tyllidaga en einu húllumhædagarnir sem höfða til mín eru þeir sem ég ólst upp við. Þetta er í eina skiptið sem ég hef orðið eitthvað vör við að dagurinn sé kenndur við Valentínus. Í fyrra fékk ég reyndar sms „til hamingju með daginn“ frá fávita sem hafði nokkrum dögum áður tilkynnt mér að hann hefði sett líkamsvessaskipti við aðra konu á verkefnalistann.

Ég held að ég eigi aldrei eftir að senda nokkrum manni Valentínusarkort. Ég er bara hreinlega meira elegant. Þegar mér finnst tiltekinn maður áhugaverður sendi ég bónorðssonnettu og ég geri það ekki á Valentínusardegi.

Nú hef ég ekki ort sonnettu mjög lengi.