Kýrhausinn

Sumir eru heppnari en aðrir en enginn er alltaf heppinn. Sá sem virðist alltaf heppinn er að öllum líkindum búinn að skipuleggja heppnina fyrirfram. Á mannamáli heitir það að svindla. Það er heldur enginn alltaf óheppinn. Það er mjög erfitt fyrir venjulegt fólk að skilja hversvegna sumir virðast skipuleggja óhöpp en það er til. Alveg eins og fólk sem meiðir sig viljandi.

Lífið er saltfiskur

Maðurinn sem kryddar allt með salvíu er að koma í bæinn. Mér skilst á Önnu að hann sé jafn girnilegur og saltfiskurinn sem hann eldar og hún hefur mun heilbrigðari hugmyndir um karlegan þokka en ég.

Sjálf sé ég ekkert nema fermingardrengi. Ég er svo hrifin af fermingardrengjum að ég safna þeim. Ég á fulla skápa af léttsöltuðum fermingardrengjum. Stundum hef ég fermingardreng í matinn.

Það hlýtur að teljast mjög borgaraleg nautn.

Og alltaf verð ég jafn hissa

Í dag fékk ég fréttir sem leiddu mig að alveg nýrri niðurstöðu um eðli mannsins.

Konur eru akkúrat og nákvæmlega jafn miklir fávitar og karlmenn!

Munurinn er sá að þegar karl gefur skít í mig fæ ég enga skýringu. (Nema kannski búllsjittskýringu eins og þegar gaurinn flutti út af því að hann þurfti endilega að eignast börn (en sagði mér það ekki fyrr en EFTIR að ég fór í ófrjósemisaðgerðina) og hefur ekki verið við kvenmann kenndur síðan.) Kona sem gefur skít í mig hefur hinsvegar skýringu. Jafnvel tvær skýringar og báðar góðar. Reyndar svo frábærar að ég er ekki bara sátt, heldur beinlínis glöð fyrir hennar hönd.

Svo kemur bara í ljós að þessar frábæru skýringar standast ekki. Hvorug þeirra. Og í þokkabót er ég síðasta manneskja á jarðríki til að frétta það.

Ég held að ég sé að ná þessu:
Hlutirnir eru venjulega nákvæmlega eins og þeir virðast vera.

Fríhyggjan

-Fullvissan er fiskur, sagði ég.
-Gerðist hún þá skáldleg mjök, ok undraðist öll alþýða manna háfleygi hennar, svaraði Drengurinn.
-Hál, þú veist. Gengur þér úr greipum. Og ef þú nærð að landa henni þá bara deyr hún. Þú getur tekið heppilegar ákvarðanir eða snjallar en þú getur aldrei verið viss um að eitthvað sé fullkomlega rétt.
-Þessu er ég nú bara ekki sammála. Mér finnst jólafrí t.d. vera fullkomlega rétt. Mér hefur fundist það frá því að ég lærði orðið jólafrí.
-Þar komstu með það. Jólafrí. Það er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Hver þarf trúarbrögð eða pólitík ef hann hefur jólafrí? Heimspekistefna er fædd.
-Já, sagði Drengurinn, eða stjórnmálastefna. Við skulum kalla hana fríhyggju.

Ænei

Fokk í helvíti, ég held að ég sé að veikjast. Líkaminn sennilega að stilla sig inn á að nú sé frí framundan og þá megi leggjast í aumingjaskap. En hann skal ekki komast upp með það. Þótt ég þurfi að skilja mína vösku galdramenn eftir með tómar hillur og ómerkta tepakka til að ná 10 tíma svefni (svefn læknar allt nema ástsýki), SKAL ég vera keik þegar Anna sækir mig í fyrramálið.

Maður má fá sumarfrí á þriggja ára fresti án þess að fá samviskubit. Og þótt það væru meira en þrír dagar.

Skáldsagan sem ég ætla að skrifa

Þegar ég skrifa skáldsögu verður einn kaflinn á þessa leið.

-Hurru, Valgerður, það var að koma bréf. Hann Grímur Björns er með eitthvað vesen.
-Jæja. Og hvað er það nú?
-Æi, bara þetta sama. Stíflan getur lekið og allt voða hættulegt og við græðum ekkert á þessu og jaríjarí.
-Ekkert nýtt sumsé?
-Nei ekki þannig en Grímur er nottla enginn lopapeysuhippi, þannig að við verðum líklega að láta liðið halda að við tökum mark á honum.
-Skrambans. Þurfum við þá að funda um þetta eða eitthvað?
-Tja, ætli við verðum ekki að koma aðeins inn á þetta, svona formsins vegna.
-Gess só.
-Viltu kíkja eitthvað á þetta?
-Guð minn góður nei, ekki ef ég kemst hjá því. Er annars nokkur ástæða til þess?
-Nei, ekki nema þér leiðist.
-Ókei. Reynum að afgreiða þetta bæði snyrtilega og snarlega.

Kikkið

Mér finnst gaman að vera flink í einhverju. Mér finnst gaman að líta vel út. Mér finnst gaman þegar fólk heldur að ég sé klár,

En ekkert af þessu gefur mér sama egóbústið og það að eiga eignir umfram skuldir.
Og það gerir mig að kapítalista þótt mig langi ekki sérstaklega til að horfast í augu við það.

Að búa við persónunjósnir

Það er langt síðan ég fékk staðfestingu á því að sími Byltingarinnar var hleraður. Hélt fyrst að þetta væri paranoja í honum en ég á vini á réttum stöðum og þetta ku víst vera tilfellið. Eða var það allavega um hríð. Hann ræðir ekkert sem máli skiptir í þann síma svo það er eins líklegt að menn telji tíma og fé lögreglunnar illa til þess varið að komast að raun um hvort þessi ógnvaldur þjóðarinnar ætli að hitta afa og ömmu eða kaupa skólabækur eftir hádegið. Halda áfram að lesa

Fólk er fífl

Í gær fór ég til Tanngarðs. Þurfti að bíða og fletti kjeeellingablaði á meðan. Rakst á grein þar sem því er haldið fram að ekkert sé athugavert við það þótt fólk gefi sig á vald kynferðislegum fantasíum um aðra en maka sína. Þetta sé „saklaust“, jafnvel hollt fyrir sambandið, enda standi ekki til að láta draumana rætast.

Mikið leiðist mér svona hræsni og sjálfsblekking. Ætli greinarhöfundur myndi ráðleggja barnaperrum að „leyfa sér að dreyma“ af því að það sé allt annað en að framkvæma? Nei ætli það. Hugsun er auðvitað ekki það sama og gjörð en hugsun er til alls fyrst.

Þetta er ósköp einfalt. Þegar maður veltir sér upp úr tilteknum hugsunum aukast líkurnar á því að maður taki næsta skref. Það skiptir engu hvort það er draumur um að fara í sumarfrí, gerast verðbréfasali eða stunda kynlíf, endurtekin hugsun breytir viðhorfum manns. Annað hvort álítur maður framhjáhald ásættanlegt eða þá að maður forðast bæði aðstæður og hugrenningar sem hvetja til þess. Þ.e.a.s. ef maður hefur döngun í sér til að horfast í augu við veruleikann.

Ástarbréf

Elskan. Það krefst meira hugrekkis að halda vöku sinni meðan aðrir í höllinni sofa en að stinga sig á snældu þegar einhver heimtar það.

Ég veit hvað brennur mest á þér í augnablikinu og satt að segja hef ég dálítið gaman af að pína þig með því að vekja spurningar en svara þeim ekki. Eins og ég sagði mun ég segja þér satt ef þú spyrð. Ég hef ekkert að vinna en heldur engu að tapa því þeir sem skipta mig máli munu ekki kippa sér upp við svarið og þeir sem kippa sér upp við það skipta mig ekki máli. Halda áfram að lesa

Guði sé lof að ég er trúleysingi

-Jæja, það er nú gott að þú ert búin að fyrirgefa, sagði hún og ef ég væri ekki meðvituð um almenna tilhneigingu múgans til að klæmast á orðinu fyrirgefning, hefði ég snappað.

Það hefur EKKERT, nákvæmlega ekkert með fyrirgefningu að gera, þótt maður taki þá heilbrigðu afstöðu að láta tiltekið mál ekki angra sig.

Heilbrigð mannvera lifir ekki í fortíðinni og kvíðir ekki framtíðinni. Halda áfram að lesa

Greitt með ánægju

Afborgunin af námslánunum er svolítið stór biti en ég hef alltaf greitt þau með ánægju. Mig svíður í nískupúkann undan skattinum, af því að stór hluti hans fer í eitthvað sem ég er mótfallin en LÍN (þrátt fyrir margháttað bókhaldsrugl) gaf mér tækifæri sem ég verð alltaf þakklát fyrir. Ég naut hvers einasta dags í Háskólanum og það sem ég lærði þar nýtist mér í hvert sinn sem ég les bók, horfi á kvikmynd og set saman galdur, kvæði eða smásögu.

Ég er löngu hætt að réttlæta það að hafa farið í nám sem ég hef lítið nýtt í praktískum tilgangi. Mér finnst það bera vott um vonda gerð af heimsku að líta einvörðungu á menntun sem lykil að launuðu starfi. Það er alltaf hægt að finna einhvern sem vill borga manni fyrir að gera eitthvað en sumir virðast ekki reikna með því að þeir muni nokkurntíma eiga frístundir. Ég reikna með að lifa 20-30 ár eftir að ég hætti að vinna og þá ætla ég ekki að horfa á Leiðarljós.