Dauðasyndin

-Af hverju ertu svona upptekin af því að eignast mann? spurði hann.
-Af því ég er einmana, missti ég út úr mér og mundi ekki í augnablikinu að maður á víst að skammast sín fyrir það. Ég hef aldrei kunnað almennilega að skammast mín fyrir tilfinningar.

Undarlegt annars hvernig dauðasyndunum hefur verið skipt út. Í dag þykir lauslæti, hroki og ágrind ekki tiltökumál. Það er hinsvegar mikil smán að vera einmana, hafa lágt sjálfsmat og ljúka ekki framhaldsskóla.

Það er auðvitað algert fömbl af hálfu fordæðu að viðurkenna svo lágkúrulegan veikleika fyrir ungum og fögrum lærisveini. Ég hefði átt að segja honum að ég væri haldin fermingardrengjablæti og væri að vonast til þess að geta leynt vampýrunni í mér með því að giftast belgsíðum skallakalli á aldur við mig. Það er að vísu ennþá dauðasyndarkeimur af því að finnast flauelsstrákur geðslegri en blautur sandpappír en það er þó allavega töluvert töffaðra en að vera bara einmana.

Best er að deila með því að afrita slóðina