Þegar fólk spyr „hvernig datt þér þetta í hug?“ í aðdáunartón, verður manni fátt um svör. Góðar hugmyndir standa nefnilega oftast í rökréttu samhengi við það sem á undan er gengið. Oft gæti það ært óstöðugan að brjóta allar forsendur til mergjar og það er sjálfu sér ekkert dularfullt við góðar hugmyndir.
Öðru máli gegnir um vondar hugmyndir. Einkum vondar hugmyndir sem koma frá mjög greindu fólki. Gáfað fólk getur nefnilega fengið afspyrnu vondar hugmyndir. Sonur minn Byltingin er eitt þeirra gáfnaljósa sem iðulega slær mann út af laginu með fáránlega vondum hugmyndum.
Nýjasta dæmið er síðan í gær. Ég lét hann fá 10.000 kall og bað hann að fara og kaupa í matinn, því það væri bókstaflega ekkert í ísskápnum. Sagðist treysta hyggjuviti hans. (Það var ekki eins vond hugmynd og menn gætu haldið því hann hefur margoft séð um innkaupin og oftar en ekki af prýðilegri skynsemi). Ekki veit ég hvað kom yfir hann en hann keypti mjólk, einn pakka af tófú (sem ég hef aldrei eldað og aðeins einu sinni smakkað), lauk á stærð við melónu og eina dós af kókosmjólk.
Hvað getur maður sagt? Ósjálfráð viðbrögð mín eru; „hvernig í ósköpunum datt þér þetta í hug?“