Ástarbréf

Elskan. Það krefst meira hugrekkis að halda vöku sinni meðan aðrir í höllinni sofa en að stinga sig á snældu þegar einhver heimtar það.

Ég veit hvað brennur mest á þér í augnablikinu og satt að segja hef ég dálítið gaman af að pína þig með því að vekja spurningar en svara þeim ekki. Eins og ég sagði mun ég segja þér satt ef þú spyrð. Ég hef ekkert að vinna en heldur engu að tapa því þeir sem skipta mig máli munu ekki kippa sér upp við svarið og þeir sem kippa sér upp við það skipta mig ekki máli.

Þú spyrð ekki beint. Réttlætir það sjálfsagt með því að það væri frekt að spyrja um það sem kemur þér ekki við. Samt skoðar þú skrifin mín í leit að svörum, heldur líklega að hér vaxi rósarunnar á milli línanna. Kannski muntu lesa nokkrar rósir en líklegra er að þú rispir þig á þyrnunum.

Hlutirnir eru venjulega eins og þeir koma þér fyrir sjónir. Bara venjulega þó, hið óvenjulega gæti líka verið hluti af myndinni og þín er kvölin að geta í eyðurnar. Það krefst hugrekkis að spyrja óþægilegra spurninga, það sagði ég þér strax og þú skalt ekki ímynda þér að ég ætli að hjálpa þér.

Best er að deila með því að afrita slóðina