Nýkomin heim af galdraráðstefnu vestur á Ströndum. Það var gaman. Að vísu var ég algerlega ósofin og hálflasin þegar Anna kom að sækja mig á föstudagsmorguninn en ég veiktist ekki enda reykingar bannaðar á Laugarhóli.
Fyrirlestrarnir voru hver öðrum áhugaverðari, góð þátttaka í umræðum og góð stemning í hópnum almennt. Ég er búin að liggja í bælinu til kl 9 tvo morgna í röð og hitta taminn hrafn sem reyndi að losa hnappana af kápunni minni. Auk þess erum við Anna búnar að afreka það að samstilla tíðahringinn. Ekki tók það langan tíma.
Einhleyp illmenni (allavega þau sem bera illsku sína utan á sér) vörðu helginni annarsstaðar en í Bjarnafirði og er Anna því ennþá jafn ógipt og þegar við lögðum af stað. Sjálf hef ég þróað með mér mikla matarást á kokknum á Laugarhóli og þar sem matarást er bæði dýpri og raunverulegri en nokkur önnur ást, reikna ég fastlega með að senda föður minn vestur til að biðja um hönd hans og pönnu, einhverntíma fyrir haustjafndægur.
Búðarsveinninn og Byltingarmaðurinn gættu verslunar vorrar í fjarveru nornarinnar og fórst það svo vel úr hendi að ég sé fram á að geta veikst án þess að verða gjaldþrota. Það hefur ótrúlega góð áhrif á heilsuna að vita það.