Allt af létta

Gamall vinur minn (einn þessara sem segir að ég sé æðisleg en fer svo alltaf að búa með einhverri annarri sem er ekki eins æðisleg) kom í heimsókn í dag. Sagðist hættur að lesa vefbókina mína af því að hún sé oft svo dulkóðuð að hann skilji ekkert hvað ég sé að tala um.

Það er nú bara takmarkað sem hægt er að leyfa sér að skrifa um einkalíf sitt án þess að nota rósamál, þar sem einkalíf manns tengist gjarnan einkalífi einhverra annarra en svo ég tali hreint út eru aðstæður mínar þessar:

-Ég er svona í kringum 6,5 á hamingjuskalanum.
-Ég er makalaus. Nógu ósátt við það til að máta svo til hvern karlmann sem ekki er beinlínis ógeðfelldur í hlutverkið, í huganum, en ekki nógu ósátt til að gera eitthvað róttækara en það í málinu.
-Ég rek Nornabúðina, vinn að jafnaði 85 stunda vinnuviku og dugar ekki til. Langar stundum að eiga fríkvöld en finnst álagið fyllilega þess virði að eiga mig sjálf og geta gert það sem mér sýnist.
-Ég er félagslega einangruð. Það er svosem ekkert nýtt en svolítið ógnvekjandi hvað ég er orðin sátt við að falla ekki í kramið.
-Ég á fleiri myndir óséðar og fleiri bækur ólesnar en árið 1996. Hins vegar á ég færri fermetra óskúraða.
-Ég er búin að senda inn síðustu skilagrein jarðneskrar tilveru minnar. Hér eftir mun ég láta pappírspassara sjá um svoleiðis viðbjóð.
-Ég er fallegri, heilbrigðari og hamingjusamari en ég var fyrir 10 árum en á hinn bóginn ívið heimskari. Hef enda misst allt álit á greindarfari sem mælikvarða á manngildi.

Best er að deila með því að afrita slóðina