Án þess að vita

Fólk heldur oftast að það sé mikilvægara en það er. Samt er því stöku sinnum öfugt farið. Oft í hverri viku hitti ég mann sem heldur áreiðanlega að hann sé mun stærra númer í lífi fjölskyldu sinnar, vina og nágranna en raun ber vitni. Samt hefur hann ekki hugmynd um að ég, sem veit ekkert um hann, ekki einu sinni fullt nafn hans, er sennilega uppteknari af því hvað hann er að hugsa en allt þetta fólk samanlagt.

Neeej, ég er ekki ástfangin af honum. Ég á það til að fá fólk á heilann af öðrum ástæðum. Ég hef samt velt því fyrir mér undanfarið hvort ég skipti kannski töluverðu máli í lífi einhvers sem ég þekki ekki, án þess að hafa minnsta grun um það.

Verðmat

Fasteignasala auglýsir frítt verðmat án skuldbindingar um að íbúðin sé sett á sölu. Ég minnist þess nú ekki að hafa verið rukkuð um verðmat þegar ég hef sett mínar íbúðir í sölu en vel má vera að einhver fasteignasala sé til sem rukkar fyrir það. Held samt frekar að búi eitthvað undir þegar það sem venjulega er innifalið í pakkanum er auglýst sem „frítt“. Halda áfram að lesa

Stál

Hefur gengið á með éljum. Skrattinn hamast á dyrabjöllunni og Amma hans sendir sms. Skrattinn svarar ekki símanum og Amma hans svarar ekki dyrabjöllunni. Lítið um sprungnar skeljar í þeirri fjölskyldu.

Um miðnætti tróð ég Skrattanum í sauðarlegginn og stáltappa í opið. En ég átti bara einn legg svo Amman lék lausum hala í alla nótt og hélt fyrir mér vöku. Um það leyti sem hún fékkst til að leggja sig var Skrattinn vaknaður. Ég gerði tilraun til að bjóða honum morgunmat ef hann lofaði að vera stilltur en hann trompaðist bara og hótaði að aka stórri ýtu á stáltappann ef ég opnaði ekki fyrir honum.

Svei mér þá ef lítur ekki út fyrir stórhríð.

 

Ljónakaramella

Maðurinn sem getur alveg sofið við hliðina á mér segir að varir mínar bragðist eins og karamellan í Lion-Bar. Vanilla eða hunang hefði kannski verið rómantískara en þar sem hann fílar Lion-Bar í ræmur er ég sátt við þann dóm.

Ég er búin að vera að sleikja á mér varirnar í allan morgun og ég finn nú bara venjulegt varabragð.

Lífið hefur allajafna verið næs við mig en þessa dagana líður mér jafnvel betur en venjulega.

 

Stefnum hærra

Manninum ku víst vera eiginlegt að setja sér markmið. T.d. að ljúka doktorsprófi eða verða Ólympíumeistari. Ég hef líka markmið. Ég ætla að vera algjörlega laus við appelsínuhúð (fallegt orð yfir mörkögglaáferð) á afmælinu mínu. Allt útlit er fyrir að ég nái því löngu áður.

Kannski ætti ég að setja mér aukamarkmið svo ég koðni nú ekki niður í vesældóm og hégómaleysi. Ég gæti t.d. sett mér það markmið að hengja upp úr þvottavélinni áður en þvotturinn fer að mygla.

 

Bragð

-Hæ?
-Já ég er vöknuð. Góðan dag.
-Ertu búin að taka eftir því að ég svaf hjá þér?
-Svafstu eitthvað, eða lástu bara og horfðir á mig slefa á koddann?
-Ég svaf. Steinsvaf. Og vaknaði hjá þér. Beittirðu einhverskonar galdri?
-Ég held að yfirleitt sé það nú ekki kallað galdur en ef það virkar þá er ég sátt.
-Fokk já. Það virkar.
-Þá vitum við hvað við þurfum að gera næst.
-Ég gæti lifað með því Eva. Ég gæti algjörlega lifað með því. Halda áfram að lesa

Valkostur

Sumir eru fæddir til eymdar. Þeir sem fæðast með alnæmi í stríðshrjáðu landi eiga ekki greiðan aðgang að ævarandi hamingju. En í flestum tilvikum á það við sem kona nokkur orðaði það svo vel að „eymd er valkostur“. Ég hef vel því fyrir mér hversvegna sumir kjósa að nema land í Eymdardal og setjast þar að. Maður hefði haldið að vistin þar væri nógu ömurleg til að enginn kysi hana sjálfviljugur. Allt hefur þó sína kosti og fyrst fólk velur sér þetta hlutskipti sjálft, hlýtur það að græða eitthvað á því. Ég hef óljósan grun um kosti þess að búa í Eymdardal og kannski eru þeir miklu fleiri. Allavega held ég að helsti ávinningur af því sé þessi: Halda áfram að lesa

Ímyndun?

Mig hlýtur að hafa dreymt almannavarnahávaðann. Kannski hef ég heyrt í sjúkrabíl og skynjunin brenglast svona í svefnrofunum. Ég á mjög erfitt með að kyngja því að mér skjátlist svona hrapalega. Ég var svo viss um þetta að ég fór fram og kveikti á sjónvarpinu. Fannst ég heyra í flugvélum líka og datt helst í hug loftárás. Átti erfitt með að sofna aftur og rauk strax fram til að hlusta á útvarpið þegar ég vaknaði aftur. Það hlýtur að vera upplifun af þessu tagi sem fær fólk til að trúa því að það hafi séð drauga.