Point of no return

Sunnudagur.

Kaffi og pönnukökur en að öðru leyti er lítill sunnudagur í mömmunni sem pakkar bókunum sínum í kassa á meðan börnin sveimhugast um íbúðina. Mamman minnir á fyrirætlanir sínar um að festa geymslu á mánudagsmorgun og mætir fullum skilningi hjá ungviði sem álítur ranglega að það sé svo lítið mál að koma persónulegu dóti og fatnaði burt að það sé engin ástæða til að byrja á því með 12 klukkustunda fyrirvara. Halda áfram að lesa

Róttæk aðgerð

Ætli maður að ýta ungunum út úr hreiðrinu í alvöru, þarf maður einnig að tryggja að þeir taki dröslin sín með sér. Hætt er við að ungmenni leggi undir sig hluta af heimilinu löngu eftir að þau eru flutt út og ég hef ekki í hyggju að reka búslóðageymslu fyrir börnin mín. Bílskúr pabba míns þjónaði okkur systrunum sem geymsla þar til hann seldi húsið og ég ákvað, m.a.s. áður en ég fjarlægði síðustu kassana mína, að læra af hans reynslu.
Halda áfram að lesa

Svooo boooooring!

Mér þykir miður að við skyldum bjóða þér í svona leiðinlegt partý, sagði Miriam, einlæg.

Ég lyfti brúnum í forundran. Sá alls ekki þessi meintu leiðindi. Þvert á móti finnst mér notalegt að geta haldið uppi samræðum við skemmtilegt og siviliserað fólk, án þess að þurfa að öskra. Drykkjuskapur í hófi, enginn leiðinlegur, enginn grenjandi, ælandi eða haldandi ógnarlangar einræður. Ég hafði satt að segja átt von á meiri hávaða, meiri drykkju og ruddalegri umgengni í þessu byltingarafmæli. Halda áfram að lesa

Bóndadagur

Fyrir nokkrum árum ætlaði kona ein ástfangin að halda bóndadaginn hátíðlegan með pompi og prakt. Það tókst ekki betur til en svo að maður sá er hún áleit bestan kandidat í hlutverk síns framtíðarbónda var farinn í vinnuna kl 6:15 um morguninn og kom ekki heim fyrr en 11:40 um kvöldið. Sú ástsjúka hafði nefnt það við hann daginn áður hvort hann gæti hætt snemma svo hún gæti boðið honum út að borða en hann vildi ekki heyra á það minnst. Hafði átt afmæli nokkrum dögum áður og sagðist ekki nenna meiri gleðskap í bili en auk þess hefði hún ekkert efni á því að bjóða honum út. Frábað sér einnig gjafir í nafni meintrar fátæktar unnustunnar. Halda áfram að lesa

Gott

Fyrir einu ári ákvað ég að galdra til mín frábæran mann sem ég yrði bálskotin í. Ég hafði galdrað til mín marga áður, bæði fávita og líka mjög góða og almennilega menn en ég bara varð ekkert skotin í þeim góðu og þar sem ég á fávitafælu urðu engin sambönd úr þreifingum fávitanna. Halda áfram að lesa

Ást

Spurðu þína nánustu; ‘þykir þér vænt um mig’? og ef er ekki eitthvað mikið að er svarið afdráttarlaust ‘já’, jafnvel þegar það er lygi. Spurðu þann sama; ‘þykir þér vænt um sjálfa(n) þig’? og að öllum líkindum færðu hikandi; ‘ha? jaaaaá… jújú’. Halda áfram að lesa

Skuggar

Maðurinn er það sem hann gerir. Og þótt athafnir spretti af hugsun þá er besta fólkið ekki endilega það sem hugsar aldrei neitt ljótt. Sá sem ekki hefur hugrekki til að horfast í augu við skrímslið í sjálfum sér hefur sennilega heldur ekki hugrekki til að horfast í augu við heiminn. Maður þarf að sjá það ljóta til að takast á við það.

Þegar upp er staðið er það sem gerir þig að góðri manneskju einfaldlega viðeitni þín til að setja þig í spor annarra. Og það ætti ekki að vera svo erfitt því hjörtunum svipar saman, þrátt fyrir alllan mannanna misskilning. En þú getur ekki sett þig í spor annars manns nema þú skiljir skrímslin hans.

 

Nöldur

Ef ég hefði lesið jafn marga fermetra og ég hef skúrað, væri ég vitur kona í dag.

Ég lofaði sjálfri mér því fyrir löngu að eftir fertugt skyldi ég ekki vinna önnur heimilisstörf en þau sem mig beinlínis langaði til. Mér líður almennt vel í eldhúsi, vil helst sjá um þvottinn minn sjálf en hef megna óbeit á skúringum og í tilefni af því gaf ég sjálfri mér Pólínu í afmælisgjöf. Halda áfram að lesa

Skýrsla

Mér hefur ekki tekist að draga neinn með mér á frönsku kvikmyndahátíðina ennþá, synd og skömm. Í kvöld gafst ég upp og fór ein. Sá yndislega mynd um serbneskan sveitastrák sem fer í kaupstað til að verða sér úti um helgimynd, minjagrip og konu, svo afi hans geti gefið upp öndina. Franskur húmor er svo sérstakur. Eitthvað svo hlýr, jafnvel þegar hann er svartur.

Ég afrekaði það líka í dag að mæta í magadanstíma. Ég hef ekkert farið síðan í mars og er alveg eins og spýtukerling.

Ég mæli svo með viðtalinu við Pegasus sem birtist í Kompásnum á þriðjudaginn.

Bros

Ég var að átta mig á því að ég á ekki nema eina mynd af mér með opnu brosi. Stöku sinnum hafa slíkar myndir verið teknar af mér fyrir slysni en ég hef aldrei verið nógu ánægð með þær til að geyma þær. Yfirleitt lít ég út fyrir að vera alvarlega geðveik á slíkum myndum. Eða þá 62ja ára. Skýringin er nú líklega sú að ef brosið er opið hef ég sennilega verið í hálturskasti. Ég er svona líklegri til að glotta út í annað en að brosa af hófstilltri gleði

Kannski bara fer mér ekki vel að brosa.

Klúður ársins 2007

Svo Snædís litla er þá lifandi enn. Í sumar þegar hún var dauðvona var ég beðin að búa til sérstakan grip handa henni. Ég vissi ekki þá að hún væri búin að missa máttinn í höndunum og bjó til sprota, sem þarf auðvitað handafl til að nota. Hún hafði komið til mín nokkrum vikum áður og þá gat hún vel notað hendurnar. Hversvegna í fjandanum var mér ekki sagt að ég hefði búið til hlut sem myndi ekki nýtast henni?

Ég verð allavega ekki verkefnalaus á morgun.

Óleysanlegt

Vandamál er ekki það sama og verkefni þótt sumir vilji endilega gera einföldustu verkefni að vandamálum. Vandamál er meira en erfitt verkefni. Vandamál er ástand sem er of vandasamt að breyta til að maður hafi trú á að það sé áreynslunnar virði en samt svo slæmt að lifa við að maður vill það ekki heldur. Halda áfram að lesa

Nótt

Og hafi ég mjakast handarbreidd frá þér í svefninum, finn ég sterkan arm þinn leggjast yfir mig og draga mig aftur inn í hlýjan faðm þinn.

Þrátt fyrir allt er eitthvað nákvæmlega eins og það á að vera.

Uncanny again

Í kvöld hef ég sóað tíma mínum í að horfa með öðru auganu á ómerkilega og ákaflega ótrúverðuga bíómynd um gaur sem verður ástfanginn af stúlku með ónýtt skammtímaminni. Hékk á netinu með hinu auganu og komst að því að jafnvel raunverulegasta persóna tilveru minnar lítur á mig sem skáldsagnapersónu. Um leið áttaði ég mig á því hversvegna ég var að horfa á mynd sem er ekki þess virði. Allt er í heiminum táknrænt.

Yfirleitt er fólk ekki sjálfu sér samkvæmt og í raun ekkert hægt að gera slíka kröfu. Mér líkar það stórilla.