Ást

Spurðu þína nánustu; ‘þykir þér vænt um mig’? og ef er ekki eitthvað mikið að er svarið afdráttarlaust ‘já’, jafnvel þegar það er lygi. Spurðu þann sama; ‘þykir þér vænt um sjálfa(n) þig’? og að öllum líkindum færðu hikandi; ‘ha? jaaaaá… jújú’.

Kannski truflar það okkur að orðið sjálfselska skuli vera notað um tilhneigingu til að láta undan sinni eigin mis-sanngjörnu þrá á kostnað annarra. Það er dálítið skrýtið að nota orðið sjálfselska um eigingirni og sjálflægni því venjulega tölum við ekki um að dekurspillt börn séu svo mikið elskuð. Flestir álíta það að láta allt eftir börnunum sínum merki um veiklyndi og óöryggi foreldra, fremur en mikla móður- eða föðurást. Ég held samt að það sé ekki bara þetta ónýta orð sem vefst fyrir okkur. Ég held að flestir leiði bara sjaldan hugann að því hversu djúpa ást þeir hafa á sjálfum sér. Kannski heldur maður að maður þurfi ekkert að velta því fyrir sér, bara af þvi að maður sjálfur er hvort sem er eina manneskjan í heiminum sem er nokkuð víst að muni ekki yfirgefa mann hvernig sem maður kemur fram við hana?

Mér myndi sárna ef einhver minna nánustu þyrfti að hugsa sig vel um áður en hann gæti fullyrt að honum þætti vænt um mig eða ef viðkomandi sýndi þess engin merki að ég skipti hann máli. Get ég samt trúað því að ég þurfi ekki að sýna sjálfri mér þau elskulegheit sem ég vænti af öðrum? Væri ekki rökrétt að vera yfirmáta góður við þann eina í heiminum sem verður örugglega alltaf til staðar, mun seint snúa við manni bakinu og er öðrum líklegri til að láta að vilja manns?

Kannski hugsar fólk almennt ekkert sérlega rökrétt.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Ást

 1. ————————————-

  Ef „mér“ þykir vænt um „mig“, hver er þá „mér“ og hver er „mig“? Ég skil alveg hvað þú ert að fara og ég er sammála þér en við lesturinn fór ég að pæla í því hvað það er undarlegt að fólk geti talað svona um sjálft sig, rétt eins og það sé tvær persónur sem deila sama líkama.

  Posted by: Þorkell | 22.01.2008 | 6:44:01

  —  —  —

  Þarftu að upplifa sjálfan þig sem tvær persónur til að kaupa eitthvað handa sjálfum þér eða neita sjálfum þér um eitthvað? Mér finnst reyndar ekkert undarlegt að tala um sjálfan sig sem tvær eða fleiri persónur enda geri ég það oft sjálf. Það hlýtur að vera mjög leiðinleg manneskja sem kemur sjálfri sér aldrei á óvart.

  Posted by: Eva | 22.01.2008 | 10:18:03

Lokað er á athugasemdir.