Ég örþreif. Og þá á ég ekki við að ég hafi þvegið upp og dustað poppkornsagnir úr sófanum.
Ligg andvaka í rúmi Pegasusar og bylti mér.
Eva: Ertu viss um að við séum að gera rétt?
Birta: Við erum ekkert AÐ gera neitt, við erum búnar að því. Þú brenndir skipið góan.
Eva: Þú þarft ekki að nudda mér upp úr því, ég hef nóg með son minn Þvermóð þótt þú sért ekki að rugla í hausnum á mér líka.
Birta: Ég er nú bara að benda á staðreyndir og far þú nú að sofa í hausinn á þér, þú vekur manninn með þessu brölti.
Eva: Ég get ekki legið kyrr. Ekki á meðan ég veit ekki hvað barnið er að hugsa.
Birta: Barnið er karlmaður. Það er ekki hægt að komast að því hvað þessháttar verur hugsa, þeir vita það ekki einu sinni sjálfir.
Eva: Hann hlýtur að þjást af höfnunarkennd.
Birta: Sá sem reynir að fara sínu fram með því að þykjast vera bæði blindur og heyrnarlaus getur reiknað með að fólk gefist upp á því að reyna að ná sambandi við hann. Hann kallaði þetta yfir sig sjálfur.
Eva: Ég hef áhyggjur af honum.
Birta: Ekki ég. Hann er ekki í neinu rugli. Hann er duglegur, sparsamur, stundvís og áreiðanlegur. Það eina sem amar að honum er einsemd og geðillska og það lagast ekki á meðan hann býr með okkur.
Eva: Ég vona að þú hafir rétt fyrir þér.
Birta: Ég hef alltaf rétt fyrir mér.
Gat ég gert eitthvað annað en að ýta honum út úr hreiðrinu?
Áreiðanlega. Maður hefur alltaf valkosti. Alltaf. Hvaða valkosti hefur maður gagnvart ungmenni sem ætlar að búa á hótel mömmu án þess að virða almennustu samskiptavenjur? Láta hann komast upp með að ganga um með fýlusvip og hundsa óþægilegt umræðuefni, eins og t.d. hver eigi að taka til eftir hann? Er þá ekki bara tímaspursmál hvenær hann telur sjálfum sér trú um að það sé hægt að komast hjá margháttuðu böggi með því að hundsa gluggapóst eða humma fram af sér leiðinleg verkefni í vinnunni? Er eitthvað göfugt við að bjóða sjálfum sér upp á það að búa með einhverjum sem sýnir manni slæma framkomu? Gerir maður barninu einhvern greiða með því að láta það viðgangast?
Ég batt endi á ástand sem rýrði lífsgæði okkar beggja. Það kostaði ekki læti, bara sömu þögn og venjulega. Líklega er hægt að orða það þannig að hann hafi tekið því vel.
Ég lít á það sem örþrifaráð af því að það var einhliða ákvörðun. Ég fékk hann ekki til samráðs svo ég tók af skarið og það virðist bæði rökrétt og siðferðilega rétt. En þótt ég hafi tekið marga mánuði í að réttlæta það fyrir sjálfri mér, og þótt ég sé vitrænt séð viss um að það sé betra fyrir hann að halda eigið heimili en að búa hjá mér, og þótt ég sé dauðfegin í aðra röndina, þá er samt eitthvað sem er ekki eins og það á að vera.