Bóndadagur

Fyrir nokkrum árum ætlaði kona ein ástfangin að halda bóndadaginn hátíðlegan með pompi og prakt. Það tókst ekki betur til en svo að maður sá er hún áleit bestan kandidat í hlutverk síns framtíðarbónda var farinn í vinnuna kl 6:15 um morguninn og kom ekki heim fyrr en 11:40 um kvöldið. Sú ástsjúka hafði nefnt það við hann daginn áður hvort hann gæti hætt snemma svo hún gæti boðið honum út að borða en hann vildi ekki heyra á það minnst. Hafði átt afmæli nokkrum dögum áður og sagðist ekki nenna meiri gleðskap í bili en auk þess hefði hún ekkert efni á því að bjóða honum út. Frábað sér einnig gjafir í nafni meintrar fátæktar unnustunnar.

Bóndi kom heim vonum seinna, hélt sér vakandi nógu lengi til að afplána freyðibað með líkjör og lambasteik með rauðvíni og draga í efa skynsemi þess að fjárfesta í einni rós en hné svo niður í rúm sitt og var sofnaður þegar unnustan kom inn, íklædd korseletti og vopnuð volgri nuddolíu.

Tæpum mánuði síðar kemur bóndi að máli við konuefni sitt og segir í efasemdatón:
Heyrðu, eigum við eitthvað að vera að halda upp á þennan konudag?
Konunni vefst tunga um tönn en spyr svo hikandi hvort bóndi reikni ekki hvort sem er með að vinna fram eftir þann dag sem aðra. Bóndi jánkar því og bætir við, feginsamlega:
Við höfum heldur ekki efni á því og við gerðum náttúrulega ekkert sérstakt á bóndadaginn heldur.

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Bóndadagur

 1. ——————————————

  Skynja ég réttilega einhverja biturð ?
  Ég er reyndar frekar bitur líka út í Bóndadag, finnst konur almennt ekki gefa honum mikla vigt. Alla vegana ekki sömu vigt og Konudeginum, Mæðradeginum, 19 júní, kvennafrídeginum, kvennaofbeldisvikunni og hinum konudögunum.

  Posted by: Hugz | 25.01.2008 | 20:57:36

  —   —   —

  En karlmenn, hversu mikla vigt gefa þeir bóndadeginum?

  Posted by: Eva | 26.01.2008 | 10:09:13

  —   —   —

  Ég skil hvað þú meinar þótt þessi „bóndi“ sé dálítið sérstakur. Það er óþolandi að reyna að gera eitthvað fyrir fólk sem kann ekki að þiggja. Ég þekki t.d. eina sem skiptir öllum gjöfum, ekki fyrir eitthvað annað sem hún vill frekar heldur fyrir gjafir handa öðrum.

  Posted by: Sigurgeir | 26.01.2008 | 14:09:05

  —   —   —

  Eva, það er eins og þú sért gengin til liðs við Sjálfstæðisflokkinn eftir að þú hittir flughestinn:)

  Posted by: Guðjón Viðar | 26.01.2008 | 18:21:36

  —   —   —

  Guðjón minn, heldurðu nú ekki að þú ættir að finna þér áhugamál sem hentar hæfileikum þínum betur en að lesa milli lína? Það bara er ekki þín sterka hlið. Kannski nærðu betri árangri í því að setja saman púsluspil eða ráða suduko gátur.

  Posted by: Eva | 27.01.2008 | 10:51:53

  —   —   —

  Ég hugsa að það sé mjög mismunandi hvernig karlmenn líta á Bóndadag. Held að flestir sætti sig við að fá þokkalegt að éta. Mér finnst nú samt að konur megi leggja sig aðeins fram við þetta í ljósi þess að það er gríðarlegur þrýsingur á karla að halda rausnarlega upp á Konudaginn. Ég nenni amk ekki að hafa mikið fyrir Konudegi ef ég fæ ekkert á Bóndadag …

  Posted by: Hugz | 27.01.2008 | 13:29:30

  —   —   —

  Það get ég vel skilið Hugz. Það er nú ekki merkilegt samband ef aðeins annar aðilinn leggur sig fram um að gera hinum til hæfis. En þá er spurningin, hvað vilja karlar að konan geri fyrir þá á bóndadaginn?

  Posted by: Eva | 27.01.2008 | 17:44:53

  —   —   —

  Það eru gömul sannindi og ný að leiðin að hjarta karlmanns er um magann (og aðeins neðar líka:-).
  Blóm eru algjörlega úti sama hvað íslenskir blómabændur segja, en geisladiskar vel þegnir.

  Posted by: Hugz | 29.01.2008 | 9:42:06

  —   —   —

  Ég hef einu sinni verið með manni sem fannst gaman að fá blóm. Keypti sér m.a.s. stöku sinnum blóm sjálfur. Hann hafði reyndar unnið við blómarækt nokkrum árum árum svo ég trúi því alveg að hann sé undantekning.

  Posted by: Eva | 29.01.2008 | 11:04:56

  —   —   —

  Þessi maður er alveg klárlega undantekning ! Ég hugsa að ég yrði ánægðari með að fá ný þurrkublöð en blóm …

  Posted by: Hugz | 29.01.2008 | 16:23:54

  —   —   —

  Það er nú lítil gáta að þú er afar hamingusöm og ég samgleðst þér mjög:)

  Posted by: Guðjón Viðar | 1.02.2008 | 17:17:34

Lokað er á athugasemdir.