Þegar tennurnar týnast …

Fólk sem tekur líkamsrækt alvarlega eyðir ekki orkunni í að tyggja ávexti. Það maukar þá og þynnir svo leðjuna með safa, mysu eða undanrennu svo sé hægt að neyta þeirra í fljótandi formi. Ég hef alltaf haldið að svona hræringur þjónaði þeim tilgangi að hylja lyfjabragðið af próteinpúlveri en nú er mér sagt að það séu ekkert endilega sett fæðubótarefni saman við súpuna. Halda áfram að lesa

Goðsögnin um endorfínkikkið

Tvennt hefur komið mér á óvart síðustu daga.

Í fyrsta lagi er fólk sem hreyfir sig reglulega er ekki rassgat fallegra en við hin. Að vísu hef ég ekki séð marga fituhlunka í tækjasalnum og sjálfsagt er þetta fólk allt saman rosalega sterkt og með mikið úthald en sturturnar eru svo fullar af signum brjóstum, flaxandi viskustykkjahandleggjum og lærum með mörkögglaáferð að ég er alveg hissa á að lýtalæknar hafi ekki klínt auglýsingum upp um alla veggi. Halda áfram að lesa

Sellofan

-Hvernig þekkirðu þennan mann? spurði Lærlingurinn.
-Gömul silkihúfa, svaraði ég.
-Draugur?
-Já. Hann skýtur upp kollinum einu sinni á ári eða svo.
-Draugur sem droppar inn og býðst til að sverma fyrir viðskiptasamböndum. Það er athyglisvert. Heldurðu að sé einhver alvara á bak við það eða er hann bara að vesenast eitthvað til að hafa afsökun fyrir því að nálgast þig?

Það er nú það. Ég veit það ekki og eiginlega er mér sama. Það kemur allt í ljós. Heppnin á það til að bregða sér í dulargervi og þegar allt kemur til alls virka galdrar ekkert verr þótt þeim sé pakkað í sellófan. Þeir seljast hinsvegar betur.

Silkihúfa.
Kannski sellófanhúfa.
Mikið vildi ég að hann Elías drifi nú í því að barna einhverja huggulega lesbíu.

 

Krónísk frekja?

Enn stendur frekjubíllinn í tveimur stæðum. Um daginn skildi ég eftir á honum svohljóðandi orðsendingu; „Þú hefur dýpkað skilning minn á orðinu frekja.“ Að sjálfsögðu setti ég einnig nafn og staðsetningu á blaðið. Maður sem býr í hverfinu kom í búðina til að þakka mér fyrir framtakið en þetta hefur hinsvegar ekki haft nein áhrif á eigandann.

Ef hann verður ekki farinn í kvöld frem ég eitthvert fordæði.

 

Hvað er tröll nema það?

-Er hann þá loksins farinn?
-Það lítur út fyrir það.
-Eva. Sorrý að ég skuli skipta mér af þessu en ólíkt fólk rennur stundum saman í eina persónu á blogginu þínu. Stundum veit ég ekki hvort þú ert að skrifa um mig, Elías eða einhvern annan, sagði hann og hljómaði eins og eitthvað væri athugavert við það.
Halda áfram að lesa

Frekja

Viku eða 10 dögum fyrir páska var ægilega fínum sportbíl lagt við Norðurstíginn, þannig að hann tók tvö stæði. Ég fann ygglibrúnina síga þegar ég sá hann en tók þá eftir því að eitt dekkið var sprungið. Ég hugsaði sem svo að eigandinn hlyti að hafa lent í vandræðum og væri væntanlegur á hverri stundu með nýtt dekk og myndi svo færa bílinn. Þar skjátlaðist mér. Halda áfram að lesa

Páskafrí útrunnið

Notaði páskana til að þrífa hólf og lakka gólf. Gerði reyndar líka fleira, fór t.d. á leiksýninguna „Epli og eikur“ hjá Hugleik, alltaf gaman að þeim. Fór í mat á Selfoss til pabba og Rögnu á föstudaginn langa. Prísa mig sæla fyrir að vera ekki í mat hjá Rögnu á hverjum degi því það væri vís leið til að koma mér upp krónískri átfíkn. Ég er ennþá södd en reyndar gætu kjúklingabringurnar sem Sigrún eldaði ofan í mig í gær og keisaralega páskaeggið sem Stefán færði mér frá útlandinu haft einhver áhrif. Fyrir nú utan allar kaloríurnar sem Elías er búinn að troða í mig en hann hefur reyndar líka lagt sitt af mörkum til að láta mig brenna þeim aftur og það fannst mér nú skemmtilegt.

Þótt sé góð tilbreyting að hafa búðina lokaða og dunda bara við að lakka og þrífa er samt varla hægt að kalla það páskafrí. Ég er ákveðin í því að taka mér frí fyrstu helgina í júní. Svona alvöru frí, fara burt heila helgi. Ég veit reyndar ekkert hvert ég ætla. Nenni varla austur fyrir svona stuttan tíma en þar sem ég verð þá flutt í kjallarann á Vesturgötunni, kemur ekki til greina að vera heima í því fríi.

 

Afsakið …

Mér finnst alltaf skrýtið þegar fólk biðst afsökunar á því að hafa ekki bloggað lengi. Ég gæti kannski skilið það ef bloggið væri eina færa leiðin til að láta nánustu aðstandendur vita að maður sé á lífi en þeir sem eru í aðstöðu til að blogga geta nú yfirleitt líka sent tölvupóst. Það liggur því beinast við að álykta að fólk sé að biðjast forláts á því að hafa ekki sinnt þeirri borgaralegu skyldu sinni að vera kunningjum sem og ókunnugum til afþreyingar. Upplifir fólk virkilega vefbókina sem kvöð? Eitthvað sem maður skrifar af skyldurækni fremur en sjálfum sér til ánægju? Halda áfram að lesa

Smá klemma

Ég get fengið nákvæmlega þá íbúð sem ég vil, fyrir 130.000 kr meira en það hæsta sem ég er tilbúin til að borga.

Ég gæti áreiðanlega galdrað fram 130.000 í viðbót en það bara ofbýður sanngirniskennd minni. Á hinn bóginn er frekar hallærislegt að missa af akkúrat því sem maður vill, fyrir skitinn 130.000 kall, sem maður getur reddað.

Nú þarf ég að hugsa út fyrir rammann.

 

Eymd

Ég ætla að loka búðinni yfir páskana. Hef svona verið að velta fyrir mér þeim möguleika að vera bara þar og vinna eins og vitleysingur. Nóg verkefni framundan. Gæti haft yfirdrifið nóg að gera 14 tíma á dag, jafnvel þótt búðin væri lokuð. Ég þarf bara svo sárlega á fríi að halda. Þyrfti helst tilbreytingu, skipta um umhverfi, brjóta upp rútínuna, hitta fólk, gera eitthvað.

Ég hlakka samt ekki baun til þess að vera í fríi. Vandinn er sá að ég nenni ekki að fara neitt, nenni ekki að gera neitt og nenni ekki að hitta neinn. Hef ekki einu sinni druslast í leikhús nema einu sinni það sem af er árinu, sótt eina tónleika og farið fimm sinnum í bíó. Sá ekkert á frönsku kvikmyndahátíðinni. Núna nenni ég ekki einu sinni í vinnuna og klukkan að ganga 10. Það væri mjög eðlilegt ef ég væri útkeyrð af þreytu eða væri að fara að gera eitthvað ógurlega spennandi í kvöld.

(Reyndar varð ég svo sjokkeruð yfir sjálfvalinn eymd minni í síðustu orðum skrifuðum að ég pantaði mér leikhússmiða í kvöld. Ætla hér með að rífa mig upp og koma mér að verki.)

 

Leyndur aðdáandi

Vinkona mín komst að því fyrir tilviljun að einhver hefur nógu mikinn áhuga á fjárhagsstöðu minni, til að kynna sér mánaðarlega hvort ég sé á vanskilaskrá eða með einhver opinber gjöld ógreidd. Ósköp krúttlegt að vita til þess að einhver óviðkomandi beri slíka umhyggju fyrir mér að það sé hluti af rútínunni að tékka á því hvort ég sé nokkuð í vandræðum. Ég hef enga trú á að það sé einhver heildsalanna minna sem stendur í þessu reglubundna snuðri því á það samstarf hefur engan skugga borið. Ég versla fyrir hámark 80.000 í hvert sinn, oftast mun lægri fjárhæðir, og staðgreiði oftar en ekki, fæ líka alltaf skjóta og góða þjónustu. Halda áfram að lesa

Kaup

Ég hef aldrei skilið hvernig fólk sem eyðir 2 klst í mátunarklefa áður en það fjárfestir í einum gallabuxum, getur hugsað sér að kaupa íbúð eftir 5 mínútna skoðun.

Ég er búin að skoða c.a. milljón íbúðir undarfarna daga og er loksins búin að finna eina sem myndi henta mér fullkomlega. Ætla að taka fagmann með mér til að kíkja betur á þá þætti sem ég hef ekki nógu mikið vit á sjálf og ef hann leggur blessun sína yfir dæmið mun ég ákalla Mammon mér til fulltingis og græja greiðslumat með hraði. Reyndar gæti farið svo að við verðum á vergangi í sumar. Það er þó engin frágangssök því ef ég þekki syni mína rétt verða þeir hvort sem einhversstaðar uppi á fjöllum, úti í sveit eða annarsstaðar þar sem þeir geta „andað“ og mér er engin vorkunn að setja búslóðina í geymslu og nýta mér aðstöðuna á Vesturgötunni í nokkra mánuði. Allavega er það vel þess virði ef ég fæ íbúð sem hentar mér til frambúðar. Vona bara að ég þurfi ekki að selja verðbréfin mín. Það eru ekki mörg ár þar til þarf að skipta um klæðningu og þá gæti komið sér vel að eiga sjóð að sækja í.

Mér hrís hugur við flutningunum en hlakka þeim mun meira til að losna við aksturinn í morgungeðveikinni.