Hismi

-Hvað segja rúnirnar?
-Þær segja að ég eigi að sigta hismið frá kjarnanum.
-Hvað gerist þá?
-Þá sé ég hvað skiptir máli.

Það reyndist flóknara verk en ég átti von á, því þegar ég byrjaði að sigta himsið frá kjarnanum, fann ég engan kjarna. Síðar fannst mér að þeir hlytu að vera fleiri en einn en hvar þeir leynast, það veit ég ekki.

Bráðum ætla ég að særa þig.  Já ég veit, það myndi hljóma smekklegar að segja „bráðum þarf ég að særa þig“. Það væri hinsvegar ekki satt. Maður getur yfirleitt valið og í þessu tilviki þarf ég að gera upp við mig hver á að þjást. Ég hef ákveðið að það verðir þú. Ég hef hinsvegar ekki ennþá ákveðið hvernig ég fer að því.

Ég gæti gert það með látum, og þar með gefið þér færi á að beina athyglinni að ofsa mínum fremur en ástæðunni. Það yrði hinsvegar til þess að þú gleymdir því aldrei og það er ekki tilgangurinn. Satt að segja kæri ég mig heldur ekki um að sterkasta minning þín frá þessum tíma verði tengd ógeðfelldustu birtingarmynd minni.

Ég gæti farið yfirveguðu leiðina. Snúið hnífnum í sárinu hægt og hljótt og strokið enni þitt ástúðlega á meðan. En ég veit hvernig sú aðferð færi með sálina í þér svo hún kemur heldur ekki til greina.

Gólfið í dyngju minni er þakið hismi og ég á ekki nema einn kúst.

Best er að deila með því að afrita slóðina