Leyndur aðdáandi

Vinkona mín komst að því fyrir tilviljun að einhver hefur nógu mikinn áhuga á fjárhagsstöðu minni, til að kynna sér mánaðarlega hvort ég sé á vanskilaskrá eða með einhver opinber gjöld ógreidd. Ósköp krúttlegt að vita til þess að einhver óviðkomandi beri slíka umhyggju fyrir mér að það sé hluti af rútínunni að tékka á því hvort ég sé nokkuð í vandræðum. Ég hef enga trú á að það sé einhver heildsalanna minna sem stendur í þessu reglubundna snuðri því á það samstarf hefur engan skugga borið. Ég versla fyrir hámark 80.000 í hvert sinn, oftast mun lægri fjárhæðir, og staðgreiði oftar en ekki, fæ líka alltaf skjóta og góða þjónustu.

Eitt hint til þessa velunnara míns (því nafn á vanskilaskrá segir þér ekkert annað en að sá svartlistaði sé löngu búinn að missa niður um sig); ef þú hefur svona mikinn áhuga á því hvernig mér gengur, væri einfalt mál að hringja í þá sem ég á regluleg viðskipti við, kynna þig sem Jónu Jóns eða Guðmund Gunnarsson og segjast vera að taka við bókhaldinu fyrir mig. Væri mjög sannfærandi að segja í mæðutón að þetta virðist nú hafa verið „óttalegt rassvasabókhald hja henni blessaðri“ og biðja svo um nákvæmar tölur um skuldastöðuna.

Trúið mér, þetta virkar hvort sem um er að ræða mín persónulegu fjármál eða fjárhagsstöðu Nornabúðarveldisins. Hver sem er getur fengið allar upplýsingar um skuldastöðu óviðkomandi fyrirtækja og einstaklinga. Það er sama hvort hringt er í skattinn, orkuveituna eða einhver þeirra smáfyrirtækja sem útvega mér jurtir, kerti og reykelsi, fólk mun gleypa þetta hrátt og gefa þér nákvæma tölu. Í öllum tilvikum mun sú tala vera kr 0 en sumir munu geta þess að reyndar sé líka búið að greiða fyrir síðustu sendingu jafnvel þótt reikningurinn hafi ekki ennþá verið sendur.

Nei krúsidúlla, ég er ekkert á leiðinni á vanskilaskrá.
Ég er bara ekki svoleiðis týpa.
Ég býst við að þetta séu vonbrigði en því miður dettur mér ekkert annað í hug til að gleðja þig með.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Leyndur aðdáandi

 1. ————————————————-

  en furðulegt mál..

  Posted by: baun | 2.04.2007 | 11:13:22

  ————————————————-

  Já, mér finnst þetta skrýtið. Ég sé ekki hver getur talið sig hafa slíkra hagsmuna að gæta að hann þurfi að vera með nefið ofan í fjármálunum mínum.

  Ég á heldur enga kunningja eða ættmenni sem ég álít líkleg til að hnýsast í mín einkamál og þetta er of reglubundið og of langur tími til að sé trúlegt að einhver maður sem ég hef átt stefnumót við sé að tékka á mér.

  Skrýtnast af öllu er þó að nenna þessu þegar aldrei hefur neitt komið fram sem gefur viðkomandi ástæðu til að runka sér yfir því.

  Posted by: Eva | 2.04.2007 | 11:39:11

  ————————————————-

  Stórfurðulegt. Það er líka furðulegt að einhver vinkona þín sé í þeirri aðstöðu að geta tékkað á tékkinu en ekki fundið út hver tékkarinn er. Hverslags tékkari er hún?

  Posted by: SG | 2.04.2007 | 13:22:27

  ————————————————-

  Ég þekki eina manneskju sem er líkleg til að nenna þessu 🙂

  Posted by: Eiki | 2.04.2007 | 13:54:07

  ————————————————-

  Það er ekki hún Eiki. Hún myndi pottþétt koma upp um sig.

  Posted by: Eva | 2.04.2007 | 16:10:32

  ————————————————-

  SG Það væri áreiðanlega lítið mál að finna út hver þetta er en viðkomandi er ekki að gera neitt ólöglegt. Þetta er ekki einu sinni á gráu svæði, bara frekar hallærislegt og fer alls ekki nógu mikið í taugarnar á mér til að ég leggi mig niður við að láta rekja iptölur eða leggjast í rannsóknarvinnu. Þvert á móti gleður það kvikindið í mér að vita að mánuð eftir mánuð fær snuðrarinn bara staðfestingu á því að það sé allt í mesta sóma hjá mér.

  Posted by: Eva | 2.04.2007 | 16:13:42

Lokað er á athugasemdir.