Og eitt enn…

Og eitt í viðbót sem þú verður að skilja: andúð þín á mönnunum stendur í beinu samhengi við sorgina yfir því að eiga ekki heima í veröldinni.

Carmen ólst að hluta til upp í klausturskóla. Harður agi og mamma víðs fjarri. Hún hataði klaustrið, átti til að sýna ögrandi framkomu og nunnurnar sýndu henni kulda og afskiptaleysi. Ein nunnan hélt mikið upp á vinkonu hennar og var góð við hana, kannski af því að hún var glaðlynd og sátt við skólann. Jafnaðargeð vinkonunnar fór í taugarnar á Carmen. Einu sinni sátu vinkonurnar í svefnsalnum og töluðu saman. Þær voru bara tvær inni. Nunnan sem hélt upp á vinkonuna kom inn til þeirra og gaf henni konfektmola. Hún virti Carmen ekki viðlits. Vinkonan bauðst ekki til að skipta molanum með henni.

-Ég hef borðað marga konfektmola síðan, en sá eini sem ég man eftir er þessi sem ég fékk ekki, sagði hún mér 20 árum síðar. Hún tók ekki fram að hún hefði hatað þær báðar næstu dagana en ég veit að hún gerði það. Ekki af því að hún öfundaði vinkonuna af sælgætinu eða af því að eiga verndara innan klaustursins, heldur af því að samband þeirra vakti í henni heimþrána.

Þegar allt kemur til alls hefur fólkið sem ég og þú hötum sjaldnast svikið okkur um konfektmolann sem það hefði getað deilt. Yfirleitt hefur það ekki gert neitt af sér, annað en að vera sátt við hlutskipti sitt í heiminum.

Þessvegna

Smámsaman rennur upp fyrir þér að sérstaða þín byggist ekki á fötunum sem þú klæðist eða költinu sem þú kennir þig við. Þér verður ljóst að þú ert á vissan hátt eins og tökubarn frá fjarlægum heimshluta. Þótt þú sért uppalinn í heiminum er eins og blóðið í þér tilheyri allt annarri veröld sem þú verður að heimsækja til að átta þig á því hver þú ert. Halda áfram að lesa

Brill

Það hentaði mér ekki beinlínis vel að bíllinn skyldi bila viku áður en ég átti von á satanískum reikningi fyrir utanhússviðgerðunum. Viðgerðarkostnaðinum var skipt niður á tvö ár og um síðustu áramót þurfti ég að taka lán til að eiga fyrir honum. Það átti ekki að gerast aftur enda hata ég að sjá mínus á bankareikningunum mínum en allt leit út fyrir að bílabilunin hefði klúðrað fyrir mér ánægjunni af grænni tölu í stað rauðrar. Gól ég því seið og hét á Mammon að forða mér frá rauðu.

Rukkun vegna uatanhússviðgerðanna er komin inn á heimabankann hjá mér. Ef maður tekur greiðsluseðilinn fyrir fyrri hlutanum og dregur frá viðgerðina á bílnum, fær maður út töluna á þessum nýja. Upp á krónu.

 

Meira en hálfkomið

Þá er ég loksins endanlega flutt af Blogger. Nú get ég sett inn eins marga tengla og mér sýnist án þess að raska uppsetningu og er þegar búin að tengja á nokkra sem ég hef ekki getað fyrr. Eldri vefbókarfærslur (af reykjavikurdrama) eru komnar hér inn. Að vísu hafa komment farið til fjandans en þau voru hvort sem er ekki mörg.

Nú á ég bara eftir að læra á ljósmyndatrixið og þá verður allt ….komið.

 

Galdrabíllinn bilaði

Ég held að minn næst þarfasti þjónn sé að hefna sín fyrir vanræksluna. Þegar hann bilaði lofaði ég honum að senda hann í allsherjar yfirhalningu ef hann héldi út þar til hann kæmist á spítalann og það mun ég að sjálfsögðu standa við en dæmið verður svo dýrt að ég þarf líklega að leita til Mammons. Ég virðist vera í náðinni hjá honum svo það reddast. Eins gott samt að ég sé betri við Lærlinginn en bílinn, annars fer nú Mammon minn að verða þreyttur á mér. Halda áfram að lesa

As good as it gets

Hann: Svo þú hefur hitt einhvern?
Hún: Nei. Eða jú, kannski, en hann hitti aðra. Fínt samt að vita að það er ekki útilokað að ég hrífist af einhverjum á mínum aldri.
Hann: Það er víst eitthvað í gangi hjá þér, ég þekki þig.
Hún: Ég sver!
Hann: Hvaða blik er þetta þá í augunum á þér?
Hún: Ekkert.
Hann: Hahh, ég veit hver það er! Djöfull vissi ég það.
Hún: Jæja?
Hann: Ætlarðu að gera eitthvað í því?
Hún: Nei.
Hann: Því ekki?
Hún: Maður þarf ekki endilega að éta allar kökurnar í bakaríinu.
Hann: Þú mátt éta mig.
Hún: Æ góði, tantraðu tíkina þína.

Hann (leiður): Kannski ætti ég að láta þig í friði???
Hún (kuldalega): Þú gerir það sem þér finnst rétt.
Hann: Það er málið. Hjá mér er ekkert rétt eða rangt. Hjá mér er bara mun ég sjá eftir því? Og eitt veit ég með vissu; ef ég læt þig í friði, mun ég alltaf sjá eftir því.

Þögn.

Hann: So, maybe this is as good as it gets.
Hún: Já. Ég býst við því hjartað mitt. Það versnar varla úr þessu.

Sennilega ekki

Ég hef ekki fengið neinn greiðsluseðil til að borga af kreditkortinu og netbankinn minn þvertekur fyrir það að nokkurt kreditkort sé skráð á mig. Samt er ég nú með kort og hef ekki lent í neinum vandræðum með að nota það. Eitthvað á ég erfitt með að trúa því að kortafyrirtækið hafi ákveðið að láta mig fá kort sem ekki þurfi að borga af.

Dund, hvað það væri samt næs.

 

Til að allt sé á hreinu…

Bara svo það sé á hreinu og allir meðvitaðir um þakklæti mitt og hrifningu, þá var það galdravefarinn Ásta sem setti upp vefsíðuna fínu og fullkomu fyrir Nornabúðina og tók grilljón og eina mynd. Hún hefur sumsé ekki slegið mér örlagavef, heldur Nornabúðarvef ef einhver skyldi hafa misskilið titilinn sem ég gaf henni á tengli, bæði hér og hér.

Það var hinsvegar Anna sem trixaði síðuna þannig að hin tölufatlaða og lagfæringaóða norn gæti grautað í henni án þess að klúðra myndum, letri og fyrirsögnum í hvert sinn, fyrir nú utan það að gera mér fært að blogga án þess að streða við Blogger.

Snorri (hinn vefsíðulausi) tók svo myndirnar (sem eru væntanlegar) af allkonar dóti sem hefur bæst við á síðustu mánuðum.

Hamingja mín með þetta allt saman er takmarkalaus og mun þessa englum líka fólks getið að góðu í ævisögu minni.

Ég skal!

Það er náttúrulega ekki heilbrigt að sitja skjálfandi undir sæng og borða ís en nú er Kuldaboli búinn að spilla fyrir mér mörgum dögum og ég ætla ekki að láta hann hafa af mér ánægjuna af því að borða ís.

 

Ég lýga (Óli pýga?)

Var að tala við mann á netinu. Fæddan og uppalinn á Íslandi. Hann sagðist lýga hafa gaman af leikhúsi og bað um símmanúmmerið mitt. Ég geri ekki kröfu um fullkomna stafsetningu eða málfar en ég ætla samt ekki sleppa takinu á fordómum mínum gagnvart þeim sem skrifa lýga.

Í alvöru talað, er enginn þarna úti sem er til í að kynna mig fyrir frambærilegum karlmanni? Hundraðþúsundkall í boði handa þeim sem kynnir mig fyrir þeim sem ég mun búa með þegar strákarnir eru flognir úr hreiðrinu.

 

Gúrkublogg

Ég kann ekki vel við Kuldabola. Hann er búinn að bíta mig svo illa síðustu daga að mér er kalt í beinunum þótt ég sé undir sæng með lokaðan glugga og ofninn á fullu. Svo hrekur hann viðskiptavinina mína inn í Kringlu helvískur. Nóvember ætlar að fljóta á kynningum svo líklega ætti ég ekki að kvarta en tilhugsunin um að sitja í kuldanum og lóða víra í allan dag vekur mér fullkomið ógeð.

Bíllinn minn er skítugur og búðargluggarnir líka en ég get ekki hugsað mér að láta unglingana mína sulla í vatni í þessum kulda.

Ég kann ekki almennilega við þetta letur. Finnst það of lítið og klesst en kann ekki að breyta því. Grey Anna. Ég mun ekki láta hana í friði í marga daga eftir að hún kemur heim.

 

Er að flytja

hingað.

Bloggflutningar eru næstum eins og að flytja á milli húsa. Maður þarf að henda út rusli og fara aftur á gamla staðinn til að sækja alls konar stöff.

Ég er mjög ánægð með nýja staðinn en hann er ekki orðinn „heima“ ennþá því dótið mitt er ennþá hérna og ég þarf að bíða eftir að Anna komi heim frá útlöndum (hún er að heimsækja Ken) því hún ætlar að hjálpa mér. Dugar víst ekkert að kalla á sterka stráka til að flytja tengla og vefbókarfærslur.

Bara að ljúga?

Ég var orðin töluvert áhyggjufull vegna pöntunar sem ég lagði inn hjá fyrirtæki í Bandaríkjunum þann 11. spetember. Ég greiddi vörurnar með korti og fékk þær upplýsingar að þær ættu að berast mér innan sex vikna. Ekkert hefur ennþá bólað á sendingunni en ég fékk þær skýringar hjá fyrirtækinu, endur fyrir löngu, að sendingin hefði ekki farið af stað fyrr en 10 dögum eftir að ég lagði inn -og greiddi pöntunina. Ekki fást skýringar á hvernig á því standi.

Í morgun hringdi ég svo í póstinn til að athuga hvort þar á bæ væri hægt að fá einhverjar upplýsingar um hvað hefði orðið af sendingunni. Góða konan sagði mér að það tæki minnst átta vikur og gæti tekið allt að tólf vikur að fá vöru afgreidda frá Bandaríkjunum en að fyrirtæki ættu það til að „ljúga bara“ til um afgreiðslutímann.

Ég ætla rétt að vona að sendingin berist fyrir jól. Annars gæti farið svo að eitthvað verði ekki fullkomið og það er náttúrulega óþolandi.