Og eitt enn…

Og eitt í viðbót sem þú verður að skilja: andúð þín á mönnunum stendur í beinu samhengi við sorgina yfir því að eiga ekki heima í veröldinni.

Carmen ólst að hluta til upp í klausturskóla. Harður agi og mamma víðs fjarri. Hún hataði klaustrið, átti til að sýna ögrandi framkomu og nunnurnar sýndu henni kulda og afskiptaleysi. Ein nunnan hélt mikið upp á vinkonu hennar og var góð við hana, kannski af því að hún var glaðlynd og sátt við skólann. Jafnaðargeð vinkonunnar fór í taugarnar á Carmen. Einu sinni sátu vinkonurnar í svefnsalnum og töluðu saman. Þær voru bara tvær inni. Nunnan sem hélt upp á vinkonuna kom inn til þeirra og gaf henni konfektmola. Hún virti Carmen ekki viðlits. Vinkonan bauðst ekki til að skipta molanum með henni.

-Ég hef borðað marga konfektmola síðan, en sá eini sem ég man eftir er þessi sem ég fékk ekki, sagði hún mér 20 árum síðar. Hún tók ekki fram að hún hefði hatað þær báðar næstu dagana en ég veit að hún gerði það. Ekki af því að hún öfundaði vinkonuna af sælgætinu eða af því að eiga verndara innan klaustursins, heldur af því að samband þeirra vakti í henni heimþrána.

Þegar allt kemur til alls hefur fólkið sem ég og þú hötum sjaldnast svikið okkur um konfektmolann sem það hefði getað deilt. Yfirleitt hefur það ekki gert neitt af sér, annað en að vera sátt við hlutskipti sitt í heiminum.

Best er að deila með því að afrita slóðina