Þessvegna

Smámsaman rennur upp fyrir þér að sérstaða þín byggist ekki á fötunum sem þú klæðist eða költinu sem þú kennir þig við. Þér verður ljóst að þú ert á vissan hátt eins og tökubarn frá fjarlægum heimshluta. Þótt þú sért uppalinn í heiminum er eins og blóðið í þér tilheyri allt annarri veröld sem þú verður að heimsækja til að átta þig á því hver þú ert.

Eftir níuhundruðníutíu og níu tilraunir til að falla í kramið, tekurðu ákvörðun. Þú kaupir ekki flugmiða til fyrirheitna landsins strax en þú skoðar myndir þaðan og veist að það kemur að því. Þau sjá þig fjarlægjast, fljóta burt með augun á undan. Þeim finnst það skrýtið því það er svo ágætt að vera hérna og þú ert þannig séð í fínum félagsskap. Þú veist að það er satt. Hinn heimurinn er þér ókunnugur og áreiðanlega fullur af hættum.

En þú verður að komast þangað samt.
Því þú ert með öðruvísi land í blóðinu.

Best er að deila með því að afrita slóðina