Hvernig greinir maður á milli þeirra sem gera líf manns erfiðara og hinna, spyr lesandinn.
Sko.
-Fortíðin er besta spákonan. Sá sem hefur einu sinni farið illa með þig MUN gera það aftur. Ekki brenna þig á sama grautnum tvisvar. Halda áfram að lesa
Hvernig greinir maður á milli þeirra sem gera líf manns erfiðara og hinna, spyr lesandinn.
Sko.
-Fortíðin er besta spákonan. Sá sem hefur einu sinni farið illa með þig MUN gera það aftur. Ekki brenna þig á sama grautnum tvisvar. Halda áfram að lesa
Grasagarðurinn mannlaus, fyrir utan okkur tvö.
Drengurinn sem fyllir æðar mínar af endorfíni snarstansar og slítur höndina upp úr vasanum.
-Fyrirgefðu hvað ég er sljór, segir hann, og tekur í höndina á mér .
-Sljór? hvái ég.
-Þú sýndir mér lófann. Tvisvar. Og ég skildi ekki hvað þú varst að biðja um.
-Sýndi ég þér lófann? Það hefur ekki verið meðvitað, segi ég.
–Gott að vita að þú gerir stundum eitthvað ómeðvitað eins og annað fólk, segir hann og leiðir mig áfram í gegnum garðinn.
Ég hef svo mikla reynslu af því að hjálpa sjálfri mér að ég gæti skrifað heilt bókasafn af sjálfshjálparbókum.
Ég reikna samt ekki með að gera það.
Í raun þarf maður ekki að kunna nema eina grundvallarreglu til að komast út úr hringiðu dramsýkinnar og verða þeirrar gæfu aðnjótandi að geta horft á sápuóperu tilverunnar utan frá í stað þess að hrærast í henni þáttaröð eftir þáttaröð.
Reglan er þessi:
Veröldin er full af dásamlegu fólki sem vill þér vel. Þú þarft ekki að umgangast þessa örfáu sem gera líf þitt erfiðara.
Undanfarna daga hafa þrír krakkar komið inn í búð til mín og spurt hvað við gerum þegar engir kúnnar eru í búðinni.
Ég minnist þess ekki að hafa nokkurntíma velt þessu fyrir mér þegar ég var barn. Allavega ekki fyrr en ég var orðin nógu gömul til að átta mig á því að „búðarkonan“ þarf að gera fleira en að afgreiða.
Mér finnst skrýtið að þessi spurning komi svona dag eftir dag. Ætli sé að spinnast einhver goðsögn um okkur eða eru börn almennt að velta fyrir sér hinum ósýnilega hluta hinna ýmissu starfa. Spyrja þau t.d. tannlækninn hvað hann sé að gera á milli þess sem hann tekur á móti sjúklingum?
Du Prés virðist hafa tekið að sér hlutverk sérlegs selskaparráðgjafa míns.
Ég veit ekki hver Du Prés er en hann minnir mig á mann sem ég hef ekkert umgengist að ráði í mörg ár. Sá vissi yfirleitt nákvæmlega hvað hafði klikkað í lífi viðmælenda sinna og var alltaf tilbúinn til að gefa góð ráð. Það undarlega var að enda þótt hann væri algjörlega með það á hreinu hvað virkaði og hvað ekki, var venjulega allt í rugli hjá honum sjálfum; fjármálin í steik, hjónabandið í rúst og sambönd við hinar ýmsu hjákonur í uppnámi. Því tóku samt fáir eftir. Honum var nefnilega svo vel lagið að gefa öðrum þá tilfinningu að honum þætti líf þeirra áhugavert að iðulega gerði fólk þau mistök að hlusta á það sem hann sagði í stað þess að horfa á það sem hann gerði.
Ég held næstum að Du Prés gæti verið þessi sami maður ef hann tæki ekki strætó. Sá sem ég hef í huga hefur áreiðanlega ekki stigið inn í strætisvagn á Íslandi í 30 ár. Samt myndi hann aldrei ráðleggja nokkrum manni að kaupa sér bíl.
Og nú hef ég eignast verndarengil líka.
Skrýtið að ég skuli aldrei hafa áttað mig á bjargarleysi mínu sjálf.
Ég vildi að væri jafn auðvelt að fá þjónustu pípara og mannkynslausnara.
Dándikvennafélagið Dindilhosan -hagsmunasamtök aðþrengda og einhleypra glæsikvenda, hélt stofnfund sinn á Vesturgötunni í dag.
Á stofnfundinn mættu eftirtaldar dívur:
Eva
Jamm. Það mætti sumsé engin. Ekki heldur þær sem höfðu staðfest ásetning sinn um að mæta. Ekki heldur sú sem átti hugmyndina að þessum félagsskap.
Það er rangt að dýrmætasti auður hvers manns séu frumlegar hugmyndir. Góð hugmynd er harla lítils virði nema hún sé framkvæmd. Dýrmætasti auður hvers manns er fólginn í sjálfsaga hans til að lyfta skvappokunum upp úr sófanum og gera eitthvað. (Þess ber að geta er hér merkir „að gera eitthvað“ ekki að sitja pöbb og drekka bjór eða fara út að reykja.)
Á stofnfundinum var tekin ein ákvörðun. Ákvörðun um að Dindilhosan myndi hér eftir sem hingað til eyða tíma sínum í fólk sem nennir að gera eitthvað. Semsagt sjálfa sig.
Það er ákveðin fegurð í því fólgin að fá skilaboð sem enginn annar áttar sig á. Þú ert vissulega blábjáni en þekkir mig þó nógu vel til að vita hvað fangar athygli mína.
Í dag komst ég að því hvar einhleypir karlar halda sig ekki uppúr hádegi á sunnudögum. Allt fullt af konum og fáeinir karlar í fylgd kvenna, hvergi tveir strákar saman. Halda áfram að lesa
Því eins og stendur í vísunni góðu:
Ekki gráta, bara bíða
bráðum kemur hjörðin fríða
og dillar smáum dindlum.
Þegar maður hefur engu að tapa er tilvalið að fylgja ráðum sem hljóma út úr kortinu. Sjónvarsþættir koma ekki til greina en ég notaði morguninn til að hanna nýjan ástargaldur, sem á að seiða til mín fjölda karlmanna sem ég kæri mig ekkert um, t.d. sanntrúaða sjálfstæðismenn. Svo þarf ég bara að forrita sjálfa mig til að skipta um skoðun á þeim. Halda áfram að lesa
Einhverjir halda að skilgreiningin á hreiðurgerðarmanni sér frá mér komin en svo er ekki. Ég las einhversstaðar fyrir löngu sálfræðilega úttekt á fólki sem er haldið skuldbindingarfælni. Því miður man ekkert hvar ég las hana eða eftir hvern hún er en allavega var fræðilegt yfirbragð á henni og vitnað í rannsóknir á fyrirbærinu. Halda áfram að lesa
-Þú ættir að bjóða þig fram sem íslenska batsjellorett, sagði hann. Ég hló.
-Ég er ekki að grínast, sagði hann og hljómaði eins og honum væri virkilega alvara.
Jamm, það færi mér vel. Hvaða lúði sýnir frumlegustu smjaðurtæknina og fær piparkerlingu í verðlaun? Missið ekki af næsta þætti af íslensku dindilhosunni! Halda áfram að lesa
Nornakvöld fyrir leshing með mat og öllu tilheyrandi. Spúsa mín ennþá í tarotmaraþoni.
Frýrnar hæstánægðar og skemmta sér hið besta. Ég eins og fluga hinummegin við þilið og það get ég sagt ykkur að þessar nornir eru sko ekki að sóa tímanum í eitthvert small talk. Vissara að fara ekki nánar út í þá sálma.
Du Prés ráðleggur mér að æfa mig í almennu kjaftæði (small talk) Satt að segja finnst mér meiri áskorun að halda uppi samkvæmisblaðri um bólfarir en listaverk, enda þótt du Prés telji það umræðuefni ekki henta. Ég held að sé alveg eins hægt að halda uppi innhaldslausu þvaðri um það eins og hvað annað. Bara að virða regluna um að hafa ekki of sterkar skoðanir og halda umræðunni á ópersónulegu plani. Býður líka upp á möguleikann á nánari kynnum. Halda áfram að lesa
Almennt er snjallt að gera allt sem maður vill og ekkert sem maður vill ekki.
Stundum rekst þetta tvennt á en fólk sem er ekki þeim mun eigingjarnara og heimskara velur sjaldan kost sem er beinlínis skaðlegur. Mann langar kannski að aka yfir á rauðu ljósi en það þarf ekki mikinn ástríðuhita til að langa ennþá meira að komast heim án þess að drepa einhvern. Halda áfram að lesa
Á nýju tungli er við hæfi að fara í vakurleikaviðgerð.
Eftir síðustu tilraun til að gerast iðnaðarmaður, framdi ég vakurleikaviðgerð á sjálfri mér. Fólst hún í því að fela ummerkin eftir fúgusparslið (ég neita að skirfa spartl) með hvítum plastnöglum. Það reyndist hvorki fögur lausn né endingargóð. Úr því var bætt í morgun og verða hinar nývökru hendur mínar til sýnis í Nornabúðinni í dag. Einnig verður opið hús heima hjá mér í kvöld, svo þeir sem komast ekki til að berja krumlur mínar augum á vinnutíma, geta komið og vottað þeim aðdáun sína heima.
Síðustu daga hafa tveir bílastæðaverðir húkt í bílahúsinu á Vesturgötu eða á stéttinni fyrir utan það allan daginn. Í hvert sinn sem bíll kemur í húsið eða fer, skrifar annar þeirra eitthvað í bók á meðan hinn drekkur kaffi.
Þetta hljóta að vera mjög mikilvægar upplýsingar sem þeir eru að skrá, fyrst bílastæðasjóður er með tvo menn á launum við það. Halda áfram að lesa
Ég er að prófa nýja gerð af tarotspilum sem ég næ ekki alveg kontakt við. Þau halda því fram fullum fetum að í dag muni dramatískir atburðir eiga sér stað. Síðasta helga véð muni falla, einhver hafi af mér mjög persónuleg afskipti þvert gegn vilja mínum og ég muni tapa sakleysi mínu.
Ég hlýt að túlka þetta á þann veg að einhver muni reyna að bora í nefið á mér. Nasirnar eru allavega einu líkamsop mín sem enginn hefur ennþá svo ég muni, fálmað í eða gert sig líklegan til að slefa á að mér forspurðri.
Crowley segir hinsvegar að þetta verði afskaplega venjulegur dagur. Ég treysti hans spilum satt að segja betur.
–Var partý? spyr ég og legg frá mér krossgátuna.
–Nei, ég svaf í nótt, svarar hann.
-Og hvað rekur þig á lappir kl. 7 á sunnudagsmorgni?
-Ég vaknaði til að hitta þig. Ef ég þekki þig rétt verður þú farin að vinna um hádegi.
-Vaknaðirðu alvöru til að hitta mig?
-Mmmm. Má ég leggjast hjá þér?
-Já, ef þú ferð úr skónum, segi ég og færi mig.
-Mig langaði að sofa lengur, segir hann, en ég hef vanrækt þig og þá fer postulínsbrúðan í þér að halda að mér sé sama um þig. Ég vil frekar leiðrétta það en að sofa fram eftir.
Höldum hvort um annars úlnlið. Krossgátan má bíða. Maðurinn er aldrei alveg einn.