Að vilja eða vilja ekki

Almennt er snjallt að gera allt sem maður vill og ekkert sem maður vill ekki.

Stundum rekst þetta tvennt á en fólk sem er ekki þeim mun eigingjarnara og heimskara velur sjaldan kost sem er beinlínis skaðlegur. Mann langar kannski að aka yfir á rauðu ljósi en það þarf ekki mikinn ástríðuhita til að langa ennþá meira að komast heim án þess að drepa einhvern.

Sem sagt, gerðu það sem þér sýnist svo framarlega sem þér líkar vel við sjálfan þig eftir á, þ.e.a.s. ef þú hefur góðan smekk í þeim efnum.

Ég á sjaldan erfitt með að gera upp við mig hvað ég vil en núna er ég hreint ekki viss. Nærveru minnar er óskað í veislu, sem mig langar ekkert að mæta í. Fólkið sem bauð mér hefur hinsvegar mikið yndi af fjölmennum veislum og mig langar mjög mikið að gera þeim til geðs. Í slíkum tilvikum er hægt að fara þá málamiðlunarleið að stoppa eins stutt og maður kemst upp með. Málið er bara að ég er búin að fullnýta það trix.

Ég hef aldrei séð neitt skemmtilegt við að sitja með rauðvínsglas og segja fólki sem ég þekki ekki og ætla ekki að kynnast, hvað ég á marga krakka og hvar ég ólst upp. Ég get svosem sýnt af mér fleðulæti ef það þjónar tilgangi en alveg er mér hjartanlega sama hvort fólk sem ég þekki ekki fór í háskólanám í Þýskalandi eða spilar golf. Það hlýtur samt eitthvað að vera við þetta sem ég hef ekki áttað mig á. Annars myndi fólk ekki leggja þetta á sig.

Best er að deila með því að afrita slóðina