Bílastæðamafían

Síðustu daga hafa tveir bílastæðaverðir húkt í bílahúsinu á Vesturgötu eða á stéttinni fyrir utan það allan daginn. Í hvert sinn sem bíll kemur í húsið eða fer, skrifar annar þeirra eitthvað í bók á meðan hinn drekkur kaffi.

Þetta hljóta að vera mjög mikilvægar upplýsingar sem þeir eru að skrá, fyrst bílastæðasjóður er með tvo menn á launum við það.

Ég hélt fyrst að í bókinni væru tveir dálkar merktir bílar inn og bílar út. Ég hugsaði með mér að þegar ég kæmi, tæki sá sem væri minna uppgefinn að sér að skrá tímann og eitt strik fyrir bílinn minn í inn-dálkinn á meðan hinn tæki pásu frá þessu erfiði.

Þegar svona rannsókn stendur í marga daga vaknar tortryggillinn í mér. Kannski eru þeir útsendarar Björns Bjarnasonar og eiga að skrá persónulegar upplýsingar. Kannski er númerið á bílnum mínum í inn-dálknum og upplýsingar á borð við „skítugur en skoðaður, bílstjóri kona um fertugt klædd eftir veðri, of handleggjastutt til að ná miða úr vélinni nema losa öryggibeltið, býður góðan dag fremur kuldalega. Hugsanlega kleyfhugi eða þá tvíburasystir fleðunnar sem ók sama bíl í gær. Þeirrar sem var nánast kókett.“

Ég átti erindi í bæinn í morgun. Þegar ég kom aftur til fundar við minn ástkæra einkabíl, stóðu tvær bílastæðaverjur hjá honum, góndu á gjaldmælinn og voru greinilega að bíða eftir að hann félli.

Á sama augnabliki og önnur þeirra mundaði pennann opnaði ég bíldyrnar og lagði töskuna mína frá mér.
„Mælirinn er fallinn“ sagði hún.
„Jæja“ sagði ég, því það var það gáfulegasta sem mér datt í hug.
„já, þú verður að passa þetta“ sagði hún og tónninn var eins og hún ætlaðist til svars.

Kannski hefur hún ætlast til að ég bæðist auðmjúklega fyrirgefningar og lofaði að klikka aldrei á stöðumælagreiðslum framar. Þá hefði hún væntanlega fundið til göfuglyndis síns og gefið mér eftir þennan þúsundkall. Eða kannski bjóst hún við að ég hellti úr skálum reiði minnar yfir því að bílastæðasjóður sæi ástæðu til að hafa tvo starfsmenn á launum við að voma yfir fólki sem þegar væri búið að greiða fyrir sitt stæði. Þá hefði hún getað valið um að skrifa sekt, og sjálfsagt ímyndað sér að hún væri í mikilvægri valdastöðu, eða sýnt stórmennskulegan „þroska“ og sagt í rólegum tón að hún myndi nú sleppa mér í þetta sinn.

„Viltu þá ekki bara skrifa reikning á mig“ sagði ég í þeim hlutlausasta tón sem ég á til og þýsti freðýsunni fram í hvern einasta andlitsdrátt. Ég hefði viljað benda henni á að hennar verksvið væri fólgið í því að skrifa sektarmiða á þá sem ekki greiða stöðugjöld en ekki að ala þá upp sem sækja bílana á síðustu stundu, en veit af reynslunni að freðýsusvipurinn er áhrifameiri en nokkur orðræðuleg yfirhalning.

„Neinei, þú bara passar þetta næst“ sagði bílastæðaverjan og hélt áfram að kenna sumarafleysingadömunni (því varla er bílastæðasjóður svo fjáður að hafa marga á hverjum mæli) að kópa eins og afglapi á mæla sem munu falla á næstu mínútum.

Best er að deila með því að afrita slóðina