Rassgat

Hvusslags eiginlega veðurfar er þetta? Ég varð eins og hundur af sundi dreginn eftir að ganga frá Vesturgötunni og upp að Kristskirkju. Sat hríðskjálfandi undir teppi í matarboðinu og jakkinn minn var enn rennandi blautur þegar ég fór heim. Í gær sat ég hríðskjálfandi í rennblautum fötum í Háskólabíó. Það var samt ljómandi gott veður þegar við lögðum af stað þangað. Halda áfram að lesa

Einmana

Fyrir viku var ég að fríka út á því að vera aldrei ein, eitt andartak. Svo núna, þegar ég er ein meiri hluta dagsins, þoli ég varla við. Ég hef farið út á hverju einasta kvöldi síðan ég kom heim og aldrei hangið svona á msn fram á miðja nótt oft í sömu vikunni. Nú hef ég verið töluvert mikið ein við vinnu í mörg ár og líkað það vel en þessir tveir mánuðir í stöðugum félagsskap hafa greinilega fokkað upp kerfinu í mér.

Ég gæti að vísu ekki hugsað mér að búa með 10 manns í tveimur herbergjum með stífluðu klósetti strax aftur en mikið ofsalega vildi ég að ég gæti haft Alexander hér 2-3 tíma á dag.

… if’s an illusion

… og mér finnst svo sárt að horfa upp á það núna, hve margir sem mér þykir vænt um halda að jákvætt hugarfar eigi eitthvað skylt við óraunhæfa dagdrauma.

Enn og aftur, það er ekki hægt að síkríta nýjan heim, nýtt líf eða nýja stöðu á bankareikningnum. Það er hinsvegar hægt að finna bestu leiðina til að takast á við stöðuna eins og hún er. Og þegar maður gerir það, þá og þá fyrst fara undursamlegir hlutir að gerast.

Í alvöru talað elskan mín, galdur og sjónhverfingar eiga ekkert sameiginlegt, annað en að koma okkur á óvart.

 

Búsáhaldabyltingin – Ný þáttaröð

Ég kom heim í miðja Búsáhaldabyltingu. Haukur var auðvitað á kafi í henni. Ég taldi mig hafa nóg að gera við að koma Nornabúðinni á fullt aftur og reiknaði ekki með að taka mikinn þátt í mótmælum.

Fyrr en mig varði var ég þó farin að boða beinar aðgerðir og Nornabúðin varð einn helsti samkomustaður anarkista í nágrenni miðbæjarins.

Mörg orð

Ég er búin að knúsa strákana mína, fara í heitt bað, pissa í hreint klósett og vera hrein tvo daga í röð. Borða alvörumat með sósu og drekka mjólk, sofa í rúminu mínu og fá almennilegt kappútsínó. Mér finnst það flippað sjálfri en ég væri tilbúin til að fara út aftur í fyrramálið. Ég á svo marg óséð þar og þótt hafi verið fróðlegt að ferðast svona um og skoða marga staði, finnst mér ég líka þurfa tvo mánuði á sama staðnum til að öðlast dýpri skilning á samfélaginu. Halda áfram að lesa

Komin heim

Úff hvað Ísland er kalt. Það var kúltúrsjokk að koma út úr flugstöðinni i nótt.

Ég gisti hjá pabba og Rögnu í nótt og í morgun fór ég í besta dekurbað sem ég hef nokkurntíma fengið. Ragna lét renna í freyðibað fyrir mig, kveikti a kertum fyrir mig og gaf mér serrýstaup. Ég var í Hebron síðustu vikuna mína í Palestínu og það er mjög lítið vatn í boði í húsinu sem vid höfum til umráða þar. Þar áður var ég úti í sveit þar sem ekki er hægt að komast í sturtu, svo ég hafði ekki komist í sturtu í tvær vikur, heldur látið mér nægja kattarþvott. Halda áfram að lesa

Annar veruleiki

Ég var þarna, þennan dag. Ég sá þetta með eigin augum. Ég horfði á þegar kviknaði í trénu en venjulega brennur aðeins lággróður og mótmælendur ráða sjálfir við að slökkva þá elda. Ég sá slökkviliðið koma á vettvang og ég horfði á herinn skjóta táragasi að sjúkrabílum og slökkviliðinu. Ég sá hvernig þeir beina skotvopnum að börnum, hvernig þeir skjóta svokölluðum gúmíkúlum að óvopnuðu fólki. Ég sést ekki á bandinu en ég er á svæðinu og það var þennan dag sem hermaður náði mér og unglingsstrákar náðu mér frá þeim aftur. Halda áfram að lesa

Þú verður að skrifa …

Er það ég sem þoli afskiptasemi svona illa eða er annað fólk stöðugt að reyna segja mér hvað ég ætti að skrifa? Hversvegna í ósköpunum er allt þetta fólk sem telur heiminn hafa þörf fyrir fleiri glæpasögur, ástarsögur eða ævinsögur, ekki að hamast við að skrifa slíkar bókmenntir sjálft?

Ég gæti skilið þetta ef ég spyrði einhvern álits, væri með hundrað sögur í hausnum og vissi ekki hverja þeirra ég vildi skrifa eða bæði vini og vandamenn að lesa yfir handrit fyrir mig.

Er það bara ég sem verð fyrir þessu eða er fólk sífellt að reyna að stjórna lífi annarra? Geri ég þetta sjálf, óbeðin og án þess að taka eftir því? Vinsamlegast sparkið í mig ef þið standið mig að því.

Ég held að ég sé frá Júpíter

Ég er að lesa ‘You just don’t understand’ eftir Deborah Tannen.

Ég hef lengi dregið í efa þá kenningu að samskiptavandi kynjanna stafi af því að konur séu frá Venus og karlmenn frá Mars. Ég á nefnilega ekkert erfitt með að setja mig inn í hugsunarhátt Marsbúa (samkvæmt persónuleikaprófum hugsa ég að 53% eins og karlmaður) en þeim tekst samt að hegða sér eins og geimverur. Og ekki eins og þeir séu frá Venus heldur einhverju allt öðru sólkerfi. Ég skil Venusarruglugufuna þótt hún sé þreytandi og á alveg til að sökkva í hana sjálf. Ég ræð alveg við Marsbúann og kannast við durtsháttartilhneigingar hjá sjálfri mér. Ég ætti þessvegna alveg að skilja karlmenn hvort sem þeir eru frá Vensus eða Mars en um leið og ég held að ég sé að átta mig á þeim, kemur í ljós eitthvert fávitaelement sem var útilokað að ég gæti séð fyrir.

Eftir lestur þessarar bókar finnst mér kenningin um Mars og Venus ennþá fjarstæðukenndari. Ég skil ekki hvorttveggja heldur hvorugt og ég á satt að segja erfitt með að gera upp við mig hvort kynið mér finnst heimskara og verr innrætt.

Líklega er það ég sjálf sem er geimvera.

 

Hamskipti

Ef veruleikinn væri bíómynd kæmirðu til mín. Þú myndir setjast á rúmstokkinn og spyrja –hvernig byrjaði það? Og ég myndi segja þér sögu sem væri falleg og átakanleg í senn. Og þú myndir skilja.

Ef gult væri blátt væri rautt, hefðir þú kjark til að elska mig eins og á að elska.
Og ef gult væri einfaldlega gult, væri ég fær um að gera það sem ég geri best.
Og ef blátt væri blátt áfram. En svo er víst ekki.

Einu sinni þekkti ég mann sem var svo einmana að stærsta leyndarmálið í lífi hans var að hann átti ekkert leyndarmál. Ég gaf honum leyndarmál og hann var mjög þakklátur. Ekki beinlínis fyrir að hafa eignast leyndarmál, heldur fyrir að eiga leyndarmál með einhverjum. Samt var það hvorki fallegt né átakanlegt leyndarmál. Sem er í sjálfu sér allt í lagi því hann hefði hvort sem er aldrei sagt neinum leyndarmálið og saga er einskis virði fyrr en einhver fær að heyra hana. Hvað þá ef hún er ekki fögur og átakanleg.

Slíkt er eðli leyndarmála Baggalútur minn. Leyndarmál öðlast ekki líf fyrr en maður deilir því með öðrum Og þá er það ekki lengur leyndarmál heldur saga. Og þannig er þráin líka. Þú getur haldið áfram að þrá mig, endalaust, svo ákaft að þig verkjar í hjartað. En öll þessi þrá gerir ekki annað en að éta þig að innan fyrr en þú sleppir tökunum á henni og deilir henni með mér. Og það er þannig sem maður byrjar að elska.

Ég hef þráðarkorn að spinna þér held ég enn.
Slíkt er hlutskipti nornar.

Núna

-Kysstu mig.
-Núna?
-Er núna slæmur tími?
-Neeei, ekki þannig. Ég bara tek kossum mjög persónulega.
-Persónulega?
-Já. Ég get alveg sofið hjá þér samt. Eða ekki sofið heldur, þú veist …
-Skipst á líkamsvessum?
-Já, eða nei, ég er mjög hrifin af smokkum.

-Það er samt ekkert persónulegt þú veist. Þótt ég vilji ekki kyssa.

(Ókei, ég veit, það hljómar ekki beint rökrétt.)

Gekk ég yfir sjó og land

Hvalfjörður er bara ekki íslenskur í dag. Enginn kræklingur finnst í þessari endalausu fjöru, líklega þrífst hann ekki í sundlaugarvolgum sjónum og aðeins örfáir fuglar sjáanlegir. Sjálfsagt skortir þá æti en auk þess er íslenski herinn (allir tveir meðlimir hans) skjótandi út í loftið eins og vitleysingar. Ég veit ekki hvað ég þykist vilja til Palestínu. Það eru greinilega ágætar líkur á að verða fyrir slysaskoti hér heima.

Sjórinn hefur vikið og við förum úr skónum og öslum volga leðjuna, langt út á það sem venjulega er hafið bláa hafið. Leðjan spýtist mjúk og hlý milli tánna og andvarinn á meira skylt við hárþurrku en sjávargolu.

Við uppgötvuðum nýja gullnámu í dag við Anna. Framvegis munum við taka nettan leðjuslag í Hvalfirðinum á góðviðrisdögum, gegn aðgangseyri að sjálfsögðu. Með brjóstin á Önnu og rassinn á mér höfum við garantí fyrir góðri aðsókn. Ef einhver spengileg leggjasleggja vill slást með okkur þá endilega hafið samband.