Úff hvað Ísland er kalt. Það var kúltúrsjokk að koma út úr flugstöðinni i nótt.
Ég gisti hjá pabba og Rögnu í nótt og í morgun fór ég í besta dekurbað sem ég hef nokkurntíma fengið. Ragna lét renna í freyðibað fyrir mig, kveikti a kertum fyrir mig og gaf mér serrýstaup. Ég var í Hebron síðustu vikuna mína í Palestínu og það er mjög lítið vatn í boði í húsinu sem vid höfum til umráða þar. Þar áður var ég úti í sveit þar sem ekki er hægt að komast í sturtu, svo ég hafði ekki komist í sturtu í tvær vikur, heldur látið mér nægja kattarþvott.
Ég eyddi deginum með Borghildi, strákunum mínum og Önnu og hlakka ósköpin öll til að hitta fleiri vini og vandamenn. Annars er ég svo ófrýnileg í augnablikinu að ég vil helst ekki fara út úr húsi. Fékk ofnæmisviðbrögð af táragasi og er rauðdílótt í framan. Apótekari ráðlagði mér að setja engan farða framan í mig nema hitta húðsjúkdómalækni fyrst. Bömmer.
Ég biðst forláts á því hvað ég hef verið ódugleg við að senda tölvupóst, halda sambandi a facebook og kommenta á blogg en það er ekki af áhugaleysi heldur hef ég bara verið í mjög lélegu og stopulu netsambandi. Ég á heila viku frá Palestínuferðinni óbloggaða enn og á auk þess eftir að setja inn myndir. Ég þarf líka að taka út ákveðnar upplýsingar sem gætu verið viðkvæmar en ég reikna með að opna Palestínubloggið þegar þeirri vinnu er lokið.
Aðal verkefni morgundagsins verður reyndar að komast að því hvort ég er orðin gjaldþrota eða bara rambandi á brún eymdar og örbirgðar. Ég geri mér enga grein fyrir því hvernig allar þessar vaxtahækkanir hafa farið með mig.
—————————————–
Velkomin heim aftur Eva mín:) Verst að ástandið er eins og það er en þú kippir þessu örugglega í liðinn. Mér virðist sem tvær leiðir séu í stöðinni, Iceland Express eða Icelandair 🙂 Ég var að hugsa um aðra hvora því ég nenni ekki að vera :
http://www.youtube.com/watch?v=mfuNW1QL3Wc
Posted by: Guðjón Viðar | 30.10.2008 | 0:06:26
———————————–
Velkomin til baka. Ég kem í heimsókn til þín í desember og vona innilega að Nornabúðin ætli sér stóra hluti á aðventunni.
Posted by: Kristín | 30.10.2008 | 10:26:16
———————————–
yndislegt að þú sért komin heim, velkomin aftur á klakann! það fór allt í rúst um leið og þú yfirgafst okkur, nú verður allt betra:)
Posted by: baun | 30.10.2008 | 11:10:36
———————————–
Vekomin heim sys 🙂
Gleð mig yfir að heyra í þér fljótlega 🙂
Knús frá öllum hér.
Posted by: Hulla | 30.10.2008 | 11:33:21
———————————–
Velkomin heim – verst hvað allt er kalt og eitthvað… brrrr… en við eigum þó nóg af heitu vatni.. jeij!
Posted by: Siggadís | 30.10.2008 | 22:31:06
———————————–
Velkomin heim. Vonandi fáum við að sjá afganginn af ferðasögunni fljótlega.
Posted by: Begga | 31.10.2008 | 8:32:23
———————————–
Velkomin heim Eva, hlakka til að sjá þig.
Posted by: Stefán H. | 31.10.2008 | 19:10:29
———————————–
Velkomin heim Eva mín!
Posted by: Þorkell | 1.11.2008 | 12:20:28