Inn vil ek!

Þegar Byltingin mætti til afplánunar inn í Hverfisstein, stundvíslega kl. 13 þann 6. ágúst, munaði litlu að hann þyrfti að brjóta sér leið inn. Engin kannaðist við að eiga von á honum og hann var m.a.s. beðinn að leggja fram boðun í afplánun til sönnunnar. Það vildi svo vel til að hann var með boðunina með sér, svo hann losnaði til að fremja glæp á staðnum til að fá inngöngu. Halda áfram að lesa

Forgangsmálin

Sonur minn Byltingin var dæmdur til 18 daga fangavistar fyrir að trufla stóriðjufyrirtæki við þá iðju sína að eyðileggja jörðina. Þetta er algengur dómur fyrir ölvunarakstur enda mun dómskerfinu þykja það álíka alvarlegur glæpur að stofna lífi og limum vegfarenda í hættu og að minna stjórnvöld og stórfyrirtæki á að til er fólk sem ætlar ekki að horfa aðgerðarlaust upp á náttúruspjöll og mannréttindabrot í þágu áliðnaðarins. Halda áfram að lesa

Er í Danmörku

Er stodd hja systur minni í sveitinni. Hér rignir. Thad rigndi líka sídast thegar ég kom hingad.

Darri spilar vidstodulaust á nýja 12 strengja gítarinn sinn. Hann brosir. Mér skilst ad sé ordid lítid um verkefni fyrir hann í vinnunni svo ég hef fleiri ástædur til ad vona ad hann komist strax inn í skólann thótt thad sé ósennilegt.

Kaflaskil

Á morgun fer ég út til Danmerkur að hitta hann Darra minn og þegar ég kem aftur verður hann horfinn úr lífi mínu, Drengurinn sem fyllir æðar mínar af Endorfíni.
-Við höldum samt sambandi, segir hann skælbrosandi að vanda, Drengurinn sem aldrei hefur skrifað lengri texta en kemst fyrir í sms skilaboðum, aldrei lesið lengri bloggfærslu en sem nemur 10 línum og veit manna best að ég fúnkera ekki í síma.
Þú ert dæmigerður hamingjusamur hálfviti hugsa ég en segi það ekki upphátt. Til hvers svosem?

Það væri skinhelgi ef ég segðist gleðjast fyrir hans hönd. Sé ekki að það bæti líf hans á nokkurn hátt á vera að þessum þvælingi en tekur hinsvegar heilmikið frá mér. Ég man ekki eitt augnablik öll þessi ár sem návist hans hefur ekki glatt mig en líklega mun ég ekki sakna hans. Ég hef orðið svo lítinn tíma fyrir tilfinningar sem leiða ekki til niðurstöðu eða aðgerða og söknuður er í skársta falli tilgangslaus.

 

Aldrei aftur Ólafsbúð

-Ég vildi að ég hefði tekið eldhússdótið mitt með frá Bretlandi, sagði Rósin.

Mér rann kalt vatn milli skinns og hörunds. Ég á miklu meira en nóg af eldhússáhöldum og skil ekki hvað hún ætlar eiginlega að gera við meira. Ég þoli ekki að hafa svo mikið drasl í skápunum að ég finni ekki neitt. Mér finnst æðislegt að hafa hana með mér í því að skipuleggja nýja heimilið okkar en hef á tilfinningunni að ég sé komin með enn einn ruslasafnarann inn á heimilið. Ég er satt að segja dauðfegin að hún tók ekki meira dót með sér. Halda áfram að lesa

Flutt

Við erum næstum búin að koma okkur fyrir i Mávahlíðinni. Ég get ekki notað ljósakrónurnar mínar nema hætta á að allir aðrir á heimilnu hálsbrotni og stofan er miklu minni en ág á að venjast svo ég neyðist til að losa mig við stóra sjónvarpsskápinn minn sem ég er svo hrifin af. Það er algerlega ótækt fyrir manneskju sem hefur jafn mikla ánægju af matarboðum og ég að hafa ekki almennilegt borð og ég kem ekki hvoru tveggja fyrir með góðu móti. Ég ætla að láta sérsmíða sjónvarpsskáp undir súðina. Eftir að hafa lifað við þann lúxus að geta lokað þessi ljótu tæki inni í skápum, kemur ekkert annað til greina.

Semsagt ef einhver er spenntur fyrir dásamlega fallegum ljósakrónum og nýlegum Mörkar sjónvarpsskáp úr IKEA, með plássi fyrir dvd-spilara, myndbandstæki og fullt af öðru dóti og skúffum undir fjarstýringar, hafið þá samband. Já og þeir sem eru að flytja mega gjarnan endurnýta stórgóða pappakassa.

Ég fer út að hitta hann Darra minn á fimmtudaginn svo ég verð eitthvað að fresta fertugsafmælis-innflutnings-Hauksafmælis-og búðarafmælisboðinu.

 

Never ending story

-Þú verður að virðurkenna að hann hefur góða afsökun.
-Jájá, þetta eru áreiðanlega ófyrirsjáanlegar, óviðráðanlegar og óumflýjanlegar aðstæður. Alveg eins og síðustu helgi, og helgina þar áður.
-Kannski ættirðu ekki að dæma hann svona hart Eva mín.
-Ég sagði að mér þætti dálítið svekkjandi að vera alltaf í 10. sæti á forgangslistanum, það er nú öll dómharkan.
Halda áfram að lesa

Skýrsla

Klukkan að ganga þrjú og ég ennþá vakandi. Öðruvísi mér áður brá.

-Ég fæ íbúðina mína afhenta í fyrramálið en er alls ekki viss um að ég komist í að flytja fyrr en um helgina.
-Sem er eiginlega ekki frábært því Elías kemur um helgina og ég fer út þann 9. svo við náum varla að hittast almennilega ef ég þarf að standa í flutningum allan sunnudaginn.
-Tukthússlimurinn losnar úr haldi á miðnætti á morgun.
-Búðin mín verður líklega lokuð á afmælisdaginn sinn 2. ágúst, af pólitískum ástæðum.

Prúðmannleg mótmæli

-Úff þetta hljóta að vera slöppustu mótmæli Íslandssögunnar.
-You wish! Ég hef verið viðstaddur mörg mótmæli sem voru bæði fámennari og slappari.
-Nú? hvaða mótmæli voru það?
-Mótmæli sem enginn man eftir, auðvitað.
-Og enginn vissi einu sinni af.
-Er það ekki nákvæmlega þetta sem er verið að hvetja okkur til að gera, mótmæla þannig að það trufli engan?
-Ein svona máttlaus aðgerð er alveg nóg fyrir mig, næst kem ég með litboltabyssuna mína.
-Mér líður eins og herstöðvarandstæðingi.

Að lokum safnaðist hópurinn saman við ruslagáminn og gólaði á hann. Það er jafn líklegt til árangurs.

 

Kveðja frá tukhússlimnum

Tengdadóttir mín tukthússlimurinn fékk engan frest til að ákveða hvað hún vildi gera. Henni var birtur dómurinn og þurfti samstundis að ákveða hvort hún ætlaði að borga sektina eða sitja hana af sér (á launum). Ekki svo að skilja að það hafi nokkurntíma hvarflað að henni að borga hundraðkall í sekt fyrir borgaralega óhlýðni en mér fannst ótrúlegt að það væri bara talið gott og gilt að stilla einhverjum svona upp við vegg, án nokkurs réttar til áfrýjunar eða umþóttunar. Ég er nú búin að líta aðeins yfir lögin og sé ekki betur en að í þessu ríki frelsis og réttlætis sé fullkomlega löglegt að fara svona með pólitíska fanga.

Byltingin fékk leyfi til að heimsækja hana í gær og hún lætur vel af sér. Hún er á Skólavörðustígnum, ein kvenna og fær ekkert samneyti að hafa við hina fangana en hún hefur nóg lesefni og ver miklum tíma til yogaæfinga. Hún biður að heilsa öllum vinum sínum á Íslandi.

Ekki volgt, blautt og guðdómlegt -ekki enn amk

Ég lofaði volgu blautbloggi ef ég fengi rök en eitthvað hefur gredda lesenda legið í láginni.

Mikið er ég farin að hlakka til að komast í frí. Alexander er í síðara sumarfríinu sínu núna svo ég er alveg bundin yfir búðinni. Ég er orðin mjög þreytt, ekki af því að sé svo brjálað að gera heldur af tilbreytingarleysi. Það er ekki hollt að búa á vinnustaðnum.

En þetta stendur til bóta. Ég flyt um mánaðamótin og fer svo út að hitta Pysjuna mína í ágúst. Eða Lundann minn öllu heldur. Hann er, held ég, skriðinn úr holunni. Þegar ég kem aftur verður Drengurinn sem fyllir æðar mínar af Endorfíni fluttur til fyrirheitna landsins og Byltingin að lesa anarkistabókmenntir á dagpeningum í boði ríkisins. Miðað við hans lífsstíl mun hann snúa þaðan auðugur maður og giskið bara á hvaða hreyfingu hann mun gefa dagpeningana sína. Múhahahaha!

Sætt

Einu sinni átti ég kærasta í nokkrar vikur. Hann sleit sambandinu af því að hann ætlaði að verða svo mikill vísindamaður og það er víst ekki hægt ef kærastan manns á börn. Sagði mamma hans.

Í morgun rakst ég á hann fyrir tilviljun. Hann er kennari úti á landi.

 

Brúðkaup í fjölskyldunni

Í dag ætlar systir mín að giftast manninum sínum en þau hafa nú lifað í synd í 12 ár.
Til lukku með það og góða skemmtun í partýinu. Vonandi fáið þið fínt veður en það er víst fullseint að óska ykkur margra barna eða margra gæludýra. Ég óska þess allavega að hjónaband ykkar endist ennþá lengur en óvígða sambúðin og þið verðið rík og hamingjusöm.

Mér finnst voða skrýtið að giftast eftir margra ára sambúð með barnauppeldi og öllu tilheyrandi. Dálítið eins og að ættleiða barnið sitt. Ennþá undarlegri finnst mér sá ameríski siður að endurgiftast. Eins og hafi verið virkilegt vafamál að fólknu væri alvara í fyrra skiptið. Mér finnst margt skrýtið sem öðrum finnst rökrétt. Eða kannski finnst öðru fólki skrýtið að vilja endilega hafa allt rökrétt.

Gott’á’ðau

Ég játa; sjúklega og illskiljanlega reiði í garð allra virkra alkóhólista og annarra fíkla. Andúð mín á tegundinni ristir dýpra en hatur mitt á ríkisstjórn Bandaríkjanna og lyktin af rotnandi mangóávexti samanlagt. Mér finnst það í raun ekki slæmt en ég er ósátt við að finna ekki röklegar skýringar á þessum hörðu viðbrögðum mínum við því sem flestir aðrir virðast líta á sem hversdagslegt bögg fremur en hreinræktaða illsku. Halda áfram að lesa

Safi

-Má ekki bjóða þér eitthvað vatnslosandi? spurði Maðurinn sem teiknar hugaróra á hafsbotni og rétti mér glas með drykk sem er jafnvel rauðari en varir málfræðikennarans með hljóðvarpablætið.
-Veistu að það sem þú ert að bjóða mér er uppistöðuefni í ástarelexír? sagði ég. Hann þvertók fyrir að hafa vitað það.

Vatnslosandi er kannski ekki það æskilegasta fyrir svefninn. Við sættumst á flóaða mjólk með hunangi.
Ég svaf mjög vel í nótt.