Heimsókn í búðirnar

Ég fór í morgunkaffi upp í Mosfellsdal í morgun og færði mínu fólki Moggann. Frábært að fá loksins hlutlausa umfjöllun þar sem athyglinni er beint að ástæðunum fyrir aktivisma en ekki bara aðgerðunum sjálfum.

Ég hef ekki stoppað þar fyrr og tvennt kom mér á óvart. Annarsvegar hvað allir eru hreinir. Ég hélt að takmarkaður líkams- og fataþvottur væri hluti af tískunni, rétt eins og göndlagreiðslan en svo er ekki. Vanþrif eru ekki hluti af aktivistamóðnum (þótt druslulegur klæðnaður sé það hinsvegar) en eru óhjákvæmilegar afleiðingar ef þrifaaðstaða er léleg.

Hitt sem ég undraðist er að þau sem ég hitti höfðu ekkert frétt af því að slagorðið hefði verið málað á hús Athygli. Ég taldi víst að Saving Iceland bæru ábyrgð á því verki og hélt að allar aðgerðir væru skipulagðar á fundi sem allir í búðunum taka þátt í en það er víst ekki tilfellið. Það eru aðeins stór götumótmæli og aðrar löglegar aðgerðir sem hópurinn stendur saman um, aðgerðir sem eru á gráu svæði eða ólöglegar eru á ábyrgð smærri hópa og það er ekkert víst að þeir segi öðrum í hreyfingunni frá þeim. Þau sem ég ræddi við sögðu að það gæti hvort heldur verið að einhverjir í búðunum hefðu tekið sig saman um þetta en ákveðið að segja ekki frá því, eða að einhverjir sem styðja málstaðinn en hafa aldrei komið nálægt tjaldbúðunum eða starfi samtakanna hefðu verið að verki.

Best er að deila með því að afrita slóðina