Aldrei aftur Ólafsbúð

-Ég vildi að ég hefði tekið eldhússdótið mitt með frá Bretlandi, sagði Rósin.

Mér rann kalt vatn milli skinns og hörunds. Ég á miklu meira en nóg af eldhússáhöldum og skil ekki hvað hún ætlar eiginlega að gera við meira. Ég þoli ekki að hafa svo mikið drasl í skápunum að ég finni ekki neitt. Mér finnst æðislegt að hafa hana með mér í því að skipuleggja nýja heimilið okkar en hef á tilfinningunni að ég sé komin með enn einn ruslasafnarann inn á heimilið. Ég er satt að segja dauðfegin að hún tók ekki meira dót með sér.

Ég skil ekki almennilega tilganginn með því að sanka að sér hlutum sem aldrei eru notaðir eða geyma alla gömlu hlutina þegar maður eignast nýja. Flestir virðast samt gera það. Í mínum huga er ónýttur hlutur náskyldur ónýtum hlut og þegar er mikið af ónýttum og ónýtum hlutum í kringum mig þarf ég stöðugt að standa í tiltekt og þrifum til að halda heimilinu snyrtilegu.

Hvorki Eiríkur Stefán né Heiða safna rusli og fann samt aldrei fyrir því að mig vantaði meira dót á meðan ég bjó með þeim. Ég hef búið með þremur karlmönnum sem allir eru (eða voru allavega) með söfnunaráráttu á alvarlegu stigi og Darri er hroðalegur, hann vill m.a.s. geyma umbúðir. Haukur tekur ekki nærri sér þótt drasli sé hent en hann gerir það ekki sjálfur og við höfum mjög ólíkar hugmyndir um það hvaða hlutir skuli flokkast sem drasl. Mér finnst t.d. lítil heimilisprýði af keðjum með hengilásum og 3ja metra löngum bambusprikum með anarkistafánum á endunum. Þetta þykja Hauki hinsvegar hinir fegustu gripir.

Andstyggð mín á ruslasöfnun hefur ágerst með árunum og er nú komin á listann yfir fráganssakir væntanlegs maka, ásamt djammgirni, fjárhagsóreiðu, framsóknarmennsku og offitu. Og blessuð börnin verða vessgú að takmarka dótadreifinguna við sín eigin herbergi. Héðan í frá mun ég henda öllu sem þau leggja frá sér í stofunni eða eldhúsinu og taka verslunarmannahelgina í það að fjarlægja af háaloftinu hvern þann hlut sem í heilt ár hefur ekki verið neinum til gagns eða ánægju.

Best er að deila með því að afrita slóðina