Trúarbrögð

Ég stend í eilífu stríði við pöddur og vírusa og hef því verið að hugsa um að fá mér Makka, sem ku víst ekki vera jafn lúsasækinn. Bar málið undir tölvugúrú tilveru minnar um daginn og það var engu líkara en að ég hefði Sússað í návist kaþólskrar nunnu. Jújú, hann skrifar svosem alveg undir að þar sem ég noti tölvur svo til eingöngu til ritvinnslu og geri fátt annað á netinu en að blogga, lesa blöðin og skrifa tölvupóst, þá geti Makkinn svosem dugað en Pésinn sé samt sem áður einfaldlega betri. Hvað það merkir er hinsvegar eitthvað óljóst. Hann heldur því líka fram að þótt Makkinn sýkist síður þá geti það alltaf gerst og það sé bara meiri háttar aðgerð að laga það.

Ég hef ekki heyrt neinar sjúkrasögur af Makkatölvum en ég þekki heldur engan sem notar Makka. Hef grun um að þessi andúð vinar míns á Makkanum eigi meira skylt við trúarbrögð en reynslu en velti því líka fyrir mér hvernig standi á því að Pésinn, iðandi af ógeðspöddum, sé svona miklu vinsælli. Er það vegna tölvuleikjafíknarfjandans eða er hann „einfaldlega betri“? Viðbrögð óskast.

 

Sendi fávita í fýluferð

Ef einhver segði mér allan sannleikann um sjálfan sig í netspjalli þætti mér hann annaðhvort óvenju óspennandi eða afspyrnu heimskur. Sennilega hvorttveggja. Ég reikna ekki með að fá rétta mynd af manni í gegnum msn. Ef það væri hægt gæti maður allt eins stofnað til internethjónabands. Ég ætlast ekki til að í lífi manns á fertugsaldri sé allt slétt og fellt, er ekki einusinni viss um að það væri eftirsóknarverður karakter en ég ætlast hins vegar til þess, þegar einhver vill hitta mig, að þær upplýsingar sem hann gefur mér áður standist. Halda áfram að lesa

Veiðimannseðlið

Hugz segir í kommenti:

Veiðmannseðlið er innbyggt í tegundina, þú kemst ekki hjá því. Ef það vantar þá ertu að tala um einhverja hliðartegund eða þá að þú hefur rekist á geimveru á djamminu. Sem kæmi svo sem ekki mikið á óvart miðað við sumt sem maður rekst á þar.

Eitt get ég sagt þér um kynni mín af veiðimönnum góurinn minn: Halda áfram að lesa

Nýtt runktæki óskast

Mig vantar einsemdarrunkara í staðinn fyrir bloggið. Það er bara ekki hægt að bjóða lesendum upp á þetta eymdarklám svona árum saman en ég hef ekki fundið neitt sem virkar betur. Ég hef ekki skoðað vísindalegar rannsóknir á viðbrögðum fólks við einmanaleika. Held samt að hjörtunum svipi saman í þessu sem öðru.

Þegar karlmenn verða einmana dunda þeir sér við að tosa í tillann á sér, held ég. Halda áfram að lesa

Ljóta vitleysan

Ég veit ekki alveg hvort mér finnst meira svekkjandi, þegar ég er búin með sunnudagskrossgátuna fyrir kl 10 á sunnudegi eða þegar öll vikan dugar mér ekki til að klára hana. Mig vantar ennþá tvö orð frá síðustu viku en lauk við nýju gátuna á mettíma. Samt held ég að gamla gátan sé ekkert þyngri. Bara einhver hugarflæðisstífla í mér. Ég er ekki búin að skoða lausnina á síðustu gátu en nú langar mig samt ekkert að ráða hana lengur. Halda áfram að lesa

Eilífðarmálin

Við Hugz erum eiginlega komin út fyrir efni þessarar færslu svo ég ákvað að svara með nýrri.

Ef þig vantar ekki þjónustu (reyndar er flest fólk tilbúið til að nýta sér þjónustu þegar hún er í boði)en hefur samt þörf fyrir návist kvensniptar gæti skýringin verið:
a)þér finnst skemmtilegt að hafa félagsskap í rúminu
b) þig langar að eiga sálufélaga.

Það er yfirleitt af þessum ástæðum sem flest fólk vill eiga maka. Munurinn á körlum og konum er sá að meirihluti karla vill helst eiga marga maka í einu og finnst ekkert mál að skipta um bæði bólfélaga og sálufélaga eins og nærbuxur. Konur eru oft voða mikið fyrir að tengja þetta tvennt einhvernveginn saman og búa til bigg-díl úr því enda er það eðli þeirra að flækja alla hluti ef þess er nokkur kostur.

Venjuleg, ringlhugsandi kona hefur þessa leiðindatilhneigingu til að trúa því að bara vegna þess að karlmaður hefur sofið hjá henni, trúað henni fyrir sínum innstu hjartans leyndarmálum, þegið þjónustu hennar, borðað frítt heima hjá henni vikum saman, myndað tengsl við börnin hennar og hundinn og sagt henni að hann elski hana, þá eigi hún þar með rétt á því að hann haldi sambandi við hana og sinni þörfum hennar þegar HÚN þarf á félagsskap að halda en ekki bara hann. Það er þessi eignarhaldstilhneiging kvenna sem gerir út af við flest sambönd.

Það sem mér finnst athyglisverðast við hinn dæmigerða karl er að honum finnst yfirleitt (þrátt fyrir frjálslyndi sitt gagnvart sjálfum sér) að konurnar sem sinna sálgæslu hans og kynþörf ættu ekki að mynda náin tengsl við aðra karlmenn. Þeim finnst líka gjarnan að þótt þeir sjálfir hafi þörf fyrir öryggi, blíðu, athygli, samúð, hvatningu, viðurkenningu og hughreystingu þá komi þeim lítið við þótt konurnar sem þeir skvetta í hafi þessar sömu þarfir.

Karlmenn líta nefnilega oftast á konur sem mjög fjölhæfar verur en sjálfa sig sem sérhæfða.

 

Fleiri raunveruleikaþætti

Bjartsýniskonan í mér trúir því að til séu karlar sem þurfa ekki að láta draga sig á asnaeyrunum til að sýna lágmarks kurteisi. Ég trúi jafnvel á tilvist karlmanns sem höndlar þá hugmynd að konur ríði einfaldlega af því þær hafi líka kynhvöt en ekki af því að þær séu svo „örvæntingarfullar“ (merkilegt nokk þá virðist kynhvöt karla eða giftra kvenna ekki flokkast sem „örvænting“) að þær séu tilbúnar til að þóknast duttlungum hins útvalda. Að vísu hef ég aldrei hitt þessháttar mann en ég hef heldur aldrei séð hvítan hrafn.

Ég veit að til eru konur sem nenna ekki að leyna þörf sinni fyrir að hafa á hreinu hvort þær eiga kærasta eða ekki. Konur sem vilja frekar vera einar en að standa í því að setja á svið eltingarleik til að þóknast veiðiþörf eilífðarblómsins eða slökkva á símanum af og til bara til að halda prinsinum svolítið óöruggum. Konur sem finnst dálítið skrýtið að flestar konur sem skrifa kennslubækur um það hvernig skuli landa eintaki af tegundinni hómó erectus, skuli sjálfar vera ógiptar.

Ef einhverjum dettur í huga að framleiða stefnumótaþátt fyrir fólk með þessa alvarlegu persónubresti þá er ég til í að skrá mig.

Hvað gengur manninum eiginlega til?

Allir ljúga. Það er nú bara mannsins eðli. Við ljúgum stöðugt og reiknum með að aðrir geri það líka. Við ljúgum til að komast hjá vandræðum (refsingum, leiðinlegum verkefnum, vanþóknun), til að líta betur út í augum annarra, til að kaupa okkur frest, til að gera söguna skemmtilegri … semsagt oftast í einhverjum augljósum tilgangi. Lygar geta verið tiltölulega skaðlausar ýkjur, óbætanlegt mannorðsmorð og allt þar á milli. En oftast, jafnvel þótt lygin sé ljót og óréttlætanleg, sér maður samt tilganginn með henni.
Halda áfram að lesa

Þetta er náttúrulega bilun

Stefnumóti frestað vegna veikinda. Það er eiginlega bara fínt. Ekki fengvænlegt að mæta til mannaveiða með því hugarfari að leita uppi frágangssök. Þegar allt kemur til alls hef ég fyrir satt að ekki séu allir karlar fávitar þótt þeir sem maður vildi bæði blanda við geði og líkamsvessum séu vissulega í útrýmingarhættu. Halda áfram að lesa

Það er efinn

Síðustu 15 árin hefur mitt háværasta harmarunk tengst hjúskaparstöðu minni. Ég hef eignast fleiri en einn sálufélaga og sofið hjá fleiri mönnum en ég myndi viðurkenna fyrir móður minni en þetta tvennt hefur ekki farið saman og er það skítt. Ég naut þess að vera á lausu í 5-6 mánuði eftir skilnaðinn við Vesturfarann, var nokkurnveginn sátt við það í kannski svona ár til viðbótar en síðan hef ég lengst af verið að vonast til að finna sálufélaga sem ég get líka sofið hjá. Halda áfram að lesa

Það var málið!

It´s a date!
Ég á semsagt bókað stefnumót við einstæðan pabba sem lítur allavega vel út á mynd.

Nei elskurnar, hann heitir ekki handsomedevil46. Sá gaur var einn þeirra fyrstu sem ég blokkeraði. Fyrsti lesandi sem getur rétt til um ástæðuna fyrir þeirri blokkun fær í verðlaun 2000 úttekt í Nornabúðinni.

 

Einkamál málanna

____________________________________________________________________

Karlfyrirlitning mín er svo áköf þessa dagana að ef kynskiptaaðgerðir útheimtu ekki sjúkrahússlegu myndi ég slá til. Ég þekki nú samt sjálfa mig nógu vel til að gera mér grein fyrir því að þetta er varnarháttur og eftir 2-3 mánuði verður mig aftur farið að langa í karlmann. Og þá ætla ég að vera undirbúin.

Á laugardagskvöldi er rjómi þjóðarinnar væntanlega að ylja sínum ektakvinnum. Botnfallið á djamminu. Og restin? Þeir sem á annað borð hafa áhuga á því að para sig en eru ekki á kafi í einhverju félagsstarfi eru væntanlega hangandi á netinu. Ég skráði mig inn á einkamal.is fyrir nokkrum dögum og gærkvöldið fór í þá leiðinlegu iðju að sía úr hroðanum.

Í fyrsta sinn sem ég reyndi þessa leið, fyrir mörgum árum, byrjaði ég á því að hafa samband við nokkra sem mér fannst koma til greina. Enginn þeirra reyndist koma til greina. Ég svaraði líka til að byrja með öllum sem höfðu samband, svo framarlega sem þeir voru ekki dónalegir, fannst það bara sjálfsögð kurteisi. Ég gafst þó fljótt upp á því, enda sumt af því sem barst mér afar langt frá því að vera svaravert.

Nú er ég búin að reyna þess leið nokkrum sinnum og ekkert hefur komið út úr því ennþá. Samt þekki ég fáein dæmi um sambönd sem virðast nokkurnveginn í lagi sem hófust þarna og ef maður gerir kröfu um skilvirkni gæti þetta alveg verið reynandi. Ég fékk tugi bréfa strax á fyrstu klukkutímunum en það er ekki eins jákvætt og það hljómar (það gerist alltaf fyrsta daginn, allavega ef maðurinn er kona). Það er ennfremur mín reynsla að maður fær endalaust póst frá sömu fávitunum svo í stað þess að svara þeim öllum, byrjaði ég strax á því að „blokkera“ þá sem mér leist ekki á. Hér fá fordómar mínir aldeilis að blómstra. Ég lokaði án þess að svara og án frekari athugunar á eftirtalda hópa:
-Of gamla. Sumir þeirra sem skrifuðu mér eru eldri en pabbi minn.
-Of unga. Ég fékk t.d. tvö bréf frá drengjum sem eru yngri en Darri
-Of þunga. Já, ég bara…
-Þá sem búa í útlöndum eða í fjarlægum landshlutum.
-Sjómenn, flugmenn og aðra sem eru aldrei heima. Ég get alveg eins verið ein alla daga eins og að sitja í festum.
-Þá sem eru skráðir í skyndikynni. Auðvitað geta menn viljað fast samband þótt þeim finnist skyndikynni skárra en ekkert en þeir hafa þá væntanlega vit á því að búa sér líka til nikk sem gefur til kynna að þeir séu í makaleit.
-Þá sem eru skráðir í bdsm. Allt í lagi að hafa gaman af leðri en ef þeir eru að leita að föstu sambandi skrá þeir sig í vinátta/spjall eða stefnumót, jafnvel þótt þeir hafi sérstakan smekk.
-Þá sem eru að leita að tilbreytingu.
-Þá sem velja sér subbuleg notendanöfn á borð við harðurlimur, analfingrun eða konan_erlendis. (Ég er ekki að búa þetta til!)
-Þá sem velja nöfn fræga fólksins sem nikk. Fólk sem er með heilbrigða sjálfsmynd vex upp úr því um 16 ára aldurinn.
-Þá sem koma upp um fávitahátt eða aumingjaskap í auglýsingunni sinni, t.d. lokaði ég umsvifalaust á alla sem lýsa sjálfum sér með orðunum party-animal eða sex-maniac, aukinheldur þá sem eru að leita að bara einhverju.
-Þá sem segjast halda að þeir líti vel út, séu glaðværir eða fjárhagslega sjálfstæðir. Hvað er eiginlega að mönnum sem þekkja sjálfa sig ekki nógu vel til að fullyrða um þessa hluti?
-Þá sem eru nógu hallærislegir til að skrifa hæbbs, jábbs, neibbs, eða hæ skvís, kva sejist? í fyrsta bréfi.
-Þá sem eru að leita að einhverju sem ég stend ekki undir svosem barnlausum gellum með stór brjóst, eða stelpum sem hafa mikinn áhuga á íþróttum.

Þegar þessu var lokið svaraði ég því sem eftir var, spurði um reykingar, atvinnu og félagslega stöðu. Ekki voru það mörg bréf en meiri hluti svaranna sem ég fékk kallaði á nýja lokunarhrinu. Í þessari umferð fuku eftirtaldir hópar:
-Nokkrir sem eru ófærir um að tjá sig í rituðu máli. Ég lokaði t.d. á þennan; ágjætlega sætur einmanna gaur að leyta eftir vinkonnu til að spjala og kanski kinast betur seina. Ekki svo að skilja að ég hafi neitt á móti lesblindum en ég hyggst halda fast í fordóma mína gagnvart þeim sem eru lesblindir en hafa ekki rænu á því að gera neitt í því. Það er nefnilega vel hægt að læra bæði stafsetningarreglur og tileinka sér mannamál þótt maður sé lesblindur.
-2 örykjar og 1 atvinnulaus. Ég hef ekkert á móti öryrkjum eða þeim sem missa vinnuna en ég er að leita að einhverjum sem gerir líf mitt betra en ekki erfiðara. Ég myndi ekki snúa baki við vini sem missir heilsuna eða á erfitt með að finna atvinnu við hæfi en ég leita þá heldur ekki uppi.
-3 kvæntir menn sem eru að leita að viðhaldi eða aukakonu til að skemmta þeim hjónunum.
-Margir reykingamenn.
-Margir barnlausir menn. Mig vantar ekki fleiri börn og mun ekki eignast fleiri sjálf en mér er ekkert illa við börn og ég trúi ekki á karlmann sem er bæði með sálina í lagi og sáttur við að vera barnlaus.
-Nokkrir sem eru kannski að leita að maka en samt ekki tilbúnir í skuldbindingar alveg á næstunni. Hvern fjandann þýðir það á mannamáli?
-2 menn sem eiga börn sem þeir „fá ekki“ að umgangast. Ef karlinn hefur ekki bein í nefinu til að berjast gegn slíku óréttlæti, nenni ég ekki að þekkja hann.
-Sá sem eru fráskilinn en samt eiginlega ekki alveg fluttur út frá sinni fyrrverandi.
-Þessi sem spurði hvort ég væri ein heima að „dúlla mér“. Fáviti!
-Nokkrir sem gáfu nákvæmar upplýsingar um limstærð sína og/eða smáatriðalýsingar á því sem þeir sækjast eftir í bælinu. Ef þetta er það sem þeim finnst mikilvægast að segja mér um sjálfa sig, þá bara hef ég ekki áhuga.
-Þessi sem er með grunnskólapróf og skyndihjálparmámskeið og ætlar kannski í „einkvað nám seinna“. Það er ekki menntunarstigið sem mér finnst frágangssök, heldur hitt að ég fæ á tilfinninguna að hann sé að gera sér upp áhuga á námi. Til hvers?

Blokklistinn minn nær nú yfir um 300 manns. Ég kann ekki við að kalla hann óvinalista. Þetta eru ekkert óvinir mínir, heldur bara menn sem ekki fylla markhópinn „hugsanlegur framtíðarmaki Evu“ og ég sé því ekki ástæðu til að eyða tíma í að spjalla við á netinu. Árangur? Nei, ég á ekki bókað stefnumót. Kannski er þetta ekki beint vænleg leið en ef ég hefði farið á djammið væri ég veik og þreytt núna, hefði eytt pening í tóm vonbrigði og ekki komist yfir að tékka á jafn mörgum. Ég er þó allavega búin að útiloka um 300 manns sem ýmist eru fávitar eða í þannig aðstöðu að samband kæmi hvort sem er ekki til greina. Kannski er það as good as it gets.

Mikið er nú gott að vera í þessum karlhatursfasa núna. Ég er ekki baun svekkt.
Það er sunnudagur og ég er í fríi í allan dag! Vííí!

____________________________________________________________________

Tjásur:

lifði einhver blokkeringarnar af?

Posted by: inga hanna | 21.01.2007 | 12:45:04

———————————————————-

Jájá. Það eru m.a.s. 3 komnir í markhópinn en ég er ekki búin að spjalla við þá nema einu sinni svo ég geri mér ekki miklar vonir ennþá.

Posted by: Eva | 21.01.2007 | 12:46:35

———————————————————-

„-Þá sem velja nöfn fræga fólksins sem nikk. Fólk sem er með heilbrigða sjálfsmynd vex upp úr því um 16 ára aldurinn.“

Jebb, þetta hittir naglann á höfuðið.

„…ég trúi ekki á karlmann sem er bæði með sálina í lagi og sáttur við að vera barnlaus.“

Ebeh… ha? Ok… ég trú hvort eð er ekkert á að ég hafi sál.

Posted by: Kalli | 21.01.2007 | 15:05:31

———————————————————-

Þvílík snilld þessi færsla! Hvað er málið með með allt þetta óskrifandi lið þarna inni? Utan við allt hitt ruglið.
(Einu fordómarnir sem ég viðurkenni að hafa eru gagnvart fullorðnum óskrifandi karlmönnum.)

Posted by: Harpa | 21.01.2007 | 15:59:31

———————————————————-

Gangi þér vel í leitinni – vonandi leynist gullmoli innan um hroðann.

Posted by: Harpa J | 21.01.2007 | 18:34:02

———————————————————-

Eflaust það mikið af illa skrifandi fábjánum með heilan gervallan í kónginum á sér á einkamal.is að demantarnir týnast í skítnum.

Posted by: Gillimann | 21.01.2007 | 19:52:44

———————————————————-

Eva,
Ég held þetta sé grundvallarmisskilningur hjá þér varðandi vettfanginn einkamal.is. Það er nákvæmlega engin möguleiki á að finna mannsefni þarna, nákvæmlega engin. Þú getur frustrerast yfir því endalust hvað hrak rekur á fjörur þínar þarna inni en þetta er í grunninn eins og að ganga sjálfviljug inn í þekkt hóruhús og fara svo að kvarta yfir siðferðinu.

Posted by: handsomedevil46 | 21.01.2007 | 21:41:09

———————————————————-

Ég þekki reyndar dæmi um fólk sem hefur fundið sér ágæta maka þarna inni,(sem aukinheldur kunna stafsetningu) svo það er einfaldlega rangt hjá þér að möguleikinn sé nákvæmlega enginn.

Posted by: Eva | 21.01.2007 | 22:28:18

———————————————————-

Er myndarlegi djöfullinn að segja að einkamál.is séu eins og hóruhús?
Er það virkilega þannig almennt með karlmenn að þeir líti á þennan vef eins og ókeypis eða keypis drátt??
Telur hann jafnvel að það séu allir eins og hann? (Hljómar eins og hann viti hvað hann er að segja, enda þekkt nick á em.is)
Er almennt talið að fólk (kven- karlkyns whatever) (mis)noti þennan vef ekki til annars en til framhjáhalds og misnotkunnar?

Posted by: Harpa | 22.01.2007 | 0:18:59

———————————————————-

Eva,
Þegar vefur setur upp í skráningu annars vegar „skyndikynni“ og „BDSM“ hvaða tilgangur helduru að liggi á bak við slíkt ? Helduru virkilega að skráning sem „vinátta/spjall“ breyti einhverju þar um ? Sko, elskurnar, ef þið eruð að leita að ástinni þá eruð þið að fara í geitarhús að leita ullar ef þið haldið að hún sé á einkamal.is

Posted by: handsomedevil46 | 22.01.2007 | 8:39:54

———————————————————-

í framhaldi af þessu um einkamal.is og ástina.

„Þess vegna er svo mikilvægt að sleppa takinu á ákveðnum hlutum. Láta þá lausa. Skera böndin. Fólk verður að skilja að í spili lífsins er ekki fyrirfram gefið, stundum vinnum við og stundum töpum við. Ekki búast við að fá neitt endurgoldið, ekki búast við viðurkenningu fyrir viðleitni þína, ekki búast við að snilligáfa þín verði uppgötvuð eða ást þín skilin. Lokaðu hringnum. Ekki vegna stærilætis, vanhæfni eða hroka heldur vegna þess að hvað sem það er þá hæfir það ekki lengur í lífi þínu. Lokaðu dyrunum, skiptu um plötu, gerðu hreint í húsinu, hentu ruslinu. Hættu að vera það sem þú varst og vertu það sem þú ert.”

einkamal.is er gangslaus friðþæging. Mér virðist sem flestir þarna þurfi að særa út sína eigin ára en eru að fresta því með skráningu á þessum vef. Ég held að fyrst þegar maður er sáttur við sjálfan sig þá komi ástin af sjálfu sér, ekki samkvæmt pöntun heldur þegar maður á síst von á því.

Posted by: handsomedevil46 | 22.01.2007 | 8:51:59

———————————————————-

Ég hélt að geitarhús væru fínn staður til að leita ullar. Sérstaklega ef þar væru hýstar kasmírgeitur.

Posted by: Kalli | 22.01.2007 | 14:08:55

———————————————————-

Mér líst vel á þetta hjá þér Eva. Að setja standard er málið!

Posted by: Sigga | 22.01.2007 | 14:27:59

____________________________________________________________________

Andinn í glasinu

Af og til er ég beðin um upplýsingar um það hvernig best sé að bera sig að við þá iðju að kalla fram anda og fá hann til að ýta glasi fram og til baka. Ku þetta vera helsta leið andanna til að koma skilaboðum til okkar jarðneskra. Reyndar hef ég aldrei heyrt þess nein dæmi að skilaboð andanna séu á nokkurn hátt merkileg en þó hef ég heyrt sögur af undarlegri hegðun anda sem hafa jafnvel fleygt glasinu út í vegg. Það get ég reyndar vel skilið. Ekki væri ég til í að láta 17 ára fáráðlinga fíflast með mig á þannan hátt.

Það sem mér finnst merkilegast við þetta er að andarnir skuli ekkert fylgjast með nýjungum. Ef ég væri andi og fyndi mig knúna til að eiga einhver orðaskipti við þessa heims lýð, þá gengi ég einfaldlega að næstu tölvu. Ef andinn veldur því að færa glas, hlýtur hann alveg eins að geta pikkað á lyklaborð.

 

 

Ég þjáist

_____________________________________________________________________

Ég þjáist, þessvegna er ég glöð. Eða kannski bara; þessvegna er ég.

-Hinir mestu menn hafa þjáðst hvað mest.
-Þjáningin er þroskandi.
-Ef ekki væri fyrir þjáninguna fyndum við ekki fyrir gleði.

Blablabla, mikið dæmalaust ógeð hef ég á þessum bullyrðingum.

Mestu úrhrök veraldarinnar hafa glímt við harm og vandamál ekkert síður en mannkynslausnararnir. Einstaka mikilmenni kemst kannski hjá því að láta endalausar þjáningar gera sig að skrímsli en mun líklegra er að illviðráðanlegrir erfiðleikar skaði fólk en bæti. Ef eymd og kvalræði er þessi stóri lykill að hamingjunni sem margir hálfvitar staðhæfa, hversvegna í fjandanum reynir fólk þá ekki unnvörpum að losa sig við allar veraldlegar eigur sínar og verða sér úti um HIV smit? Og ef þjáningar væru í alvöru þroskandi myndu foreldarar þá ekki fagna því þegar börnin þeirra eru lögð í einelti?

Hef ég þjáðst? Fokk já. Stundum þjáist ég svo ákaflega að ég er í rauninni hissa á því að hjartað í mér skuli ekki löngu hafa gefið sig. Ég hef grenjað þar til ég fékk sár í kringum augun. Ég hef þjáðst af nagandi samviskubiti yfir hlutum sem ég bar enga ábyrgð á og hafði enga möguleika til að hafa áhrif á. Ég hef kvalist af útlitskomplexum (ef þið skoðið myndina af mér hér til hægri sjáið þið væntanlega þennan ofvöxt í nefinu á mér). Ég hef komið mér upp óbærilegri ástarsorg út af mönnum sem höfðu það helst til síns ágætis að vera ekki með flatlús. Ég hef þjást af trúarkrísu og tilvistarkreppu, hæfileikaskorti og hefnarfýsn. Einu sinni braut ég nögl. Það var mjög erfiður tími.

Ég viðurkenni að það er vegna allra þessara þjáninga sem ég finn iðulega til djúprar hamingju og innri friðar. Ég geri mér grein fyrir því að ef mér hefði aldrei liðið illa væri ég óhamingjusamur hálfviti en ekki þessi djúpsæja, þroskaða vísdómskona sem ég er í dag. EN, þetta eru þjáningar sem ég hef valið mér sjálf og get þessvegna auðveldlega losað mig við þegar ég er orðin leið á þeim.

Maðurinn hefur afgerandi hæfileika til að koma sér upp þjáningum. Við þurfum ekki sjúkdóma, slys, fátækt, stríð, náttúruhamfarir eða ofbeldi til þess að njóta gleðinnar. Þjáningarhvötin er svo samofin eðli okkar að jafnvel þótt við værum öll á sóma, fyndum við samt tilefni til að þjást.

Í alvöru talað, okkur er óhætt að uppræta stríð, fátækt, ofbeldi og sjúkdóma (og auðvitað álver) og halda áfram að leita leiða til að draga úr hörmulegum afleiðingum náttúruhamfara og slysa. Ef við verðum leið á því að liggja í tilvistarkreppu eða ástarsorg er alltaf hægt að kaupa sér júmbósamloku og finna sig gripinn réttlátri gremju yfir því að allt áleggið sé í haug í miðjunni. Það er fjandinn hafi það heilagur réttur þess sem pungar út 270 krónum að fá samloku sem er almennilega smurð.

_____________________________________________________________________

Tjásur:

Hey, hefurðu séð ranann á mér?

Posted by: Kalli | 16.01.2007 | 11:29:06

————————————————-

var eitt sinn viðstödd rifrildi tveggja gáfumanna (sem voru í mastersnámi í tónlist) um hvort listamenn gætu orðið almennilegir listamenn ef þeir hefðu ekki þjáðst. afar áhugavert.

ég hallast að því að menn geti orðið hreint prýðilegir listamenn án þess að hafa soltið heilu hungri eða verið lokaðir í haughúsinu tímunum saman.

Posted by: baun | 16.01.2007 | 12:00:16

————————————————-

Enginn velur sér þjáningu nema hann sé art fart….. Þjáningin er hins vegar óþolandi fyrirbæri sem á það til að birtast óboðin og mig langar að fá nánari leiðbeiningar hvernig hægt er að losa sig við rað-þjáningar þegar maður verður leiður á þeim. Danke. 🙂

Posted by: lindablinda | 16.01.2007 | 19:52:29

————————————————-

obbobbobb, færðu raðþjáningu Linda?

Posted by: baun | 16.01.2007 | 22:14:19

————————————————-

Öh… ég var auðvitað að meina nefið á mér. Svona í tengslum við það sem stóð í færslunni.

Fattaði ekki tvíræðnina fyrr en á eftir. Ég vil nú ekki verða einhver bloggdónakallsflassari.

Posted by: Kalli | 17.01.2007 | 4:24:38

————————————————-

Raninn á þér er semsagt ekki líklegur til að valda raðþjáningu?

Posted by: Eva | 17.01.2007 | 7:23:48

_____________________________________________________________________

Ef það hristist

Magadansnámskeiðið sem ég ætlaði á féll niður en við stöllur vorum svo hundheppnar að detta niður á námskeið sem hentar okkur hér í Firðinum. Ég hélt að ég væri búin að gleyma öllu sem ég lærði í fyrra en þetta virðist vera svona svipað og að hjóla, hreyfingarnar koma bara sjálfkrafa um leið og maður setur sig í stellingar. Að vísu held ég ekkert alltaf takti og á það til að fara öfugan hring en mér er nokk sama, það stendur hvort sem er ekkert til að ég fari í einhvern sjóvbissniss. Halda áfram að lesa