Andinn í glasinu

Af og til er ég beðin um upplýsingar um það hvernig best sé að bera sig að við þá iðju að kalla fram anda og fá hann til að ýta glasi fram og til baka. Ku þetta vera helsta leið andanna til að koma skilaboðum til okkar jarðneskra. Reyndar hef ég aldrei heyrt þess nein dæmi að skilaboð andanna séu á nokkurn hátt merkileg en þó hef ég heyrt sögur af undarlegri hegðun anda sem hafa jafnvel fleygt glasinu út í vegg. Það get ég reyndar vel skilið. Ekki væri ég til í að láta 17 ára fáráðlinga fíflast með mig á þannan hátt.

Það sem mér finnst merkilegast við þetta er að andarnir skuli ekkert fylgjast með nýjungum. Ef ég væri andi og fyndi mig knúna til að eiga einhver orðaskipti við þessa heims lýð, þá gengi ég einfaldlega að næstu tölvu. Ef andinn veldur því að færa glas, hlýtur hann alveg eins að geta pikkað á lyklaborð.

 

 

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Andinn í glasinu

  1. ——————–

    þegar ég var gelgja þá átti ég til að stýra glasinu og man að ég brunaði eitt sinn út af spjaldinu og vinkonur mínar urðu dauðskelkaðar og æptu: „andinn er reiður“. það fannst mér mjög fyndið. svona var ég mikið kvikindi í denn, en í dag er ég auðvitað hvítskúruð engilbaun.

    allir alminlegir andar nútímans kunna á lyklaborð, stöku notast þó heldur við IBM kúluritvélar.

    Posted by: baun | 19.01.2007 | 20:29:36

Lokað er á athugasemdir.