Ég þjáist

_____________________________________________________________________

Ég þjáist, þessvegna er ég glöð. Eða kannski bara; þessvegna er ég.

-Hinir mestu menn hafa þjáðst hvað mest.
-Þjáningin er þroskandi.
-Ef ekki væri fyrir þjáninguna fyndum við ekki fyrir gleði.

Blablabla, mikið dæmalaust ógeð hef ég á þessum bullyrðingum.

Mestu úrhrök veraldarinnar hafa glímt við harm og vandamál ekkert síður en mannkynslausnararnir. Einstaka mikilmenni kemst kannski hjá því að láta endalausar þjáningar gera sig að skrímsli en mun líklegra er að illviðráðanlegrir erfiðleikar skaði fólk en bæti. Ef eymd og kvalræði er þessi stóri lykill að hamingjunni sem margir hálfvitar staðhæfa, hversvegna í fjandanum reynir fólk þá ekki unnvörpum að losa sig við allar veraldlegar eigur sínar og verða sér úti um HIV smit? Og ef þjáningar væru í alvöru þroskandi myndu foreldarar þá ekki fagna því þegar börnin þeirra eru lögð í einelti?

Hef ég þjáðst? Fokk já. Stundum þjáist ég svo ákaflega að ég er í rauninni hissa á því að hjartað í mér skuli ekki löngu hafa gefið sig. Ég hef grenjað þar til ég fékk sár í kringum augun. Ég hef þjáðst af nagandi samviskubiti yfir hlutum sem ég bar enga ábyrgð á og hafði enga möguleika til að hafa áhrif á. Ég hef kvalist af útlitskomplexum (ef þið skoðið myndina af mér hér til hægri sjáið þið væntanlega þennan ofvöxt í nefinu á mér). Ég hef komið mér upp óbærilegri ástarsorg út af mönnum sem höfðu það helst til síns ágætis að vera ekki með flatlús. Ég hef þjást af trúarkrísu og tilvistarkreppu, hæfileikaskorti og hefnarfýsn. Einu sinni braut ég nögl. Það var mjög erfiður tími.

Ég viðurkenni að það er vegna allra þessara þjáninga sem ég finn iðulega til djúprar hamingju og innri friðar. Ég geri mér grein fyrir því að ef mér hefði aldrei liðið illa væri ég óhamingjusamur hálfviti en ekki þessi djúpsæja, þroskaða vísdómskona sem ég er í dag. EN, þetta eru þjáningar sem ég hef valið mér sjálf og get þessvegna auðveldlega losað mig við þegar ég er orðin leið á þeim.

Maðurinn hefur afgerandi hæfileika til að koma sér upp þjáningum. Við þurfum ekki sjúkdóma, slys, fátækt, stríð, náttúruhamfarir eða ofbeldi til þess að njóta gleðinnar. Þjáningarhvötin er svo samofin eðli okkar að jafnvel þótt við værum öll á sóma, fyndum við samt tilefni til að þjást.

Í alvöru talað, okkur er óhætt að uppræta stríð, fátækt, ofbeldi og sjúkdóma (og auðvitað álver) og halda áfram að leita leiða til að draga úr hörmulegum afleiðingum náttúruhamfara og slysa. Ef við verðum leið á því að liggja í tilvistarkreppu eða ástarsorg er alltaf hægt að kaupa sér júmbósamloku og finna sig gripinn réttlátri gremju yfir því að allt áleggið sé í haug í miðjunni. Það er fjandinn hafi það heilagur réttur þess sem pungar út 270 krónum að fá samloku sem er almennilega smurð.

_____________________________________________________________________

Tjásur:

Hey, hefurðu séð ranann á mér?

Posted by: Kalli | 16.01.2007 | 11:29:06

————————————————-

var eitt sinn viðstödd rifrildi tveggja gáfumanna (sem voru í mastersnámi í tónlist) um hvort listamenn gætu orðið almennilegir listamenn ef þeir hefðu ekki þjáðst. afar áhugavert.

ég hallast að því að menn geti orðið hreint prýðilegir listamenn án þess að hafa soltið heilu hungri eða verið lokaðir í haughúsinu tímunum saman.

Posted by: baun | 16.01.2007 | 12:00:16

————————————————-

Enginn velur sér þjáningu nema hann sé art fart….. Þjáningin er hins vegar óþolandi fyrirbæri sem á það til að birtast óboðin og mig langar að fá nánari leiðbeiningar hvernig hægt er að losa sig við rað-þjáningar þegar maður verður leiður á þeim. Danke. 🙂

Posted by: lindablinda | 16.01.2007 | 19:52:29

————————————————-

obbobbobb, færðu raðþjáningu Linda?

Posted by: baun | 16.01.2007 | 22:14:19

————————————————-

Öh… ég var auðvitað að meina nefið á mér. Svona í tengslum við það sem stóð í færslunni.

Fattaði ekki tvíræðnina fyrr en á eftir. Ég vil nú ekki verða einhver bloggdónakallsflassari.

Posted by: Kalli | 17.01.2007 | 4:24:38

————————————————-

Raninn á þér er semsagt ekki líklegur til að valda raðþjáningu?

Posted by: Eva | 17.01.2007 | 7:23:48

_____________________________________________________________________

Best er að deila með því að afrita slóðina