Ef það hristist

Magadansnámskeiðið sem ég ætlaði á féll niður en við stöllur vorum svo hundheppnar að detta niður á námskeið sem hentar okkur hér í Firðinum. Ég hélt að ég væri búin að gleyma öllu sem ég lærði í fyrra en þetta virðist vera svona svipað og að hjóla, hreyfingarnar koma bara sjálfkrafa um leið og maður setur sig í stellingar. Að vísu held ég ekkert alltaf takti og á það til að fara öfugan hring en mér er nokk sama, það stendur hvort sem er ekkert til að ég fari í einhvern sjóvbissniss.

Aðalmálið er að þetta er gaman og maður þarf hvort sem er að hreyfa sig eitthvað ef maður ætlar að halda heilsu fram yfir fimmtugt. Að ég tali nú ekki um að halda rassinum fyrir ofan hnésbætur.

Alex Skúli sagði einhverntíma að fólk væri of feitt ef það „dinglaði“ á sundfötum. Ágæt skilgreining fyrir ballettdansara kannski en ekki alveg raunhæf fyrir miðaldra búðarkonur. Ég veit um miklu sanngjarnara fitu- og massamælingarpróf. Þú hoppar jafnfætis á táberginu svona tíu sinnum eða svo, berrössuð. Ef rassinn á þér sveiflast nógu mikið til að skella á lærunum (nú eða herðablöðunum) og mynda klapphljóð, þá þarftu að þramma stiga í nokkrar vikur eða fara í einhverskonar púl. Ef ekki, þá geturðu farið í sund án þess að nota hauspoka. Flestir hristast dálítið á sundfötum hvort sem er.

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Ef það hristist

  1. ———————————-

    nú hló ég upphátt með vænu snörli:-D

    Posted by: baun | 15.01.2007 | 22:56:59

    ———————————-

    Ég líka. Takk takk. Ætla að gera prófið þegar ég fer í bað á eftir.

    Posted by: Kristín Jónsdóttir | 16.01.2007 | 11:23:17

Lokað er á athugasemdir.