Stæði

Fyrir tveimur vikum sendi ég sviðsstjóra skipulagssviðs Reykjavíkurborgar eintak af bílastæðagaldrinum.

Nú er hægt að leggja við Vesturgötuna og ég hef ekki orðið þess vör að bílastæðaverðirnir skipti sér af því.

Ekki fannst mér vanta fleiri einstefnugötur í miðbæinn en bílastæðahallærið angraði mig þó töluvert meira.

Bara einhver sálarlufsa í fullkomnum líkama?

Ég er heppin með skrokk. Heilsuhraust. Fitna ekki nema eiga það skilið. Ég sýni þó sjaldan í verki að ég kunni að meta það og stundum vakna ég með verðskuldaða ljótu. Sé sjálfa mig í spegli og hugsa oj. Þegar þannig stendur á er tvennt í boði; að verða að skvapslytti að gera eitthvað í því. Það lagast ekki með því að hringa sig uppi í sófa með súkkulaðikex. Halda áfram að lesa

Takk

Kann ég betra orð?

Til er fólk sem virðir hinar undarlegustu þarfir manns þótt það skilji þær ekki.
Ég hef líklega einhverntíma sagt þér að ég er ekki haldin sannleiksást heldur rótgrónu öryggisleysi veikburða sálar með harðan skráp. Það er andlegt, helvítis krabbamein sem étur mann að innan. Ég býst ekki við að krabbameinslyf séu bragðgóð eða geislameðferð þægileg.

Takk fyrir að lofa að meiða mig þegar ég bið þig um það, þótt þú skiljir ekki hvernig það getur flokkast sem miskunnsemi. Það er eitthvað guðdómlegt við frelsið þótt það sé einmanalegt.

Strengurinn

Eva: Þú sem ert vitur. Getur þú sagt mér hverskonar fávitaháttur það er að halda alltaf áfram að treysta mannskepnunni, þótt reynslan sýni að fólk bregst?
Ljúflingur: Þeir sem treysta engum verða geðveikir. Þú ættir að vita það. Trixið er finna út hvar fólk er líklegast til að bregðast og hleypa því ekki inn á það svið nema reikna með því að það geti farið á versta veg. Halda áfram að lesa

Hugvekja dagsins

Eldur getur leynst undir sinunni og blossað upp við smávegis vindkviðu. Það er óþægilegt, ógnvekjandi, stundum alveg skelfilegt. En ég þekki engan sem er svo glær að halda að eldur kvikni af sjálfum sér.

Í gær kveikti ég í vaxpottinum. Ég sjálf. Ég stillti helluna á hæsta hitastig og ráfaði svo burt. Ég hef vanið mig á að vera heppin (reykskynjarar færa manni t.d. mikla heppni) svo ég uppgötvaði það í tíma. Halda áfram að lesa

Morgunsárið

Mammon hefur greinilega vaknað í góðu skapi. Allavega er ég óvön því að súpa kálið áður en ég mæti til vinnu á morgnana. Gott mál að byrja daginn á því að fá óverðskuldaðan afslátt.

Við innakstur-bannaður-skiltið, húkir löggumann á mótorhjóli og skammar þá sem ætla að aka sömu leið og vanalega til að komast heim til sín. Hann var þar allan seinnipartinn í gær (eða kollega hans) og hlakkaði ákaflega í Lærlingnum andsetna yfir því hlutskipti. Eymingja löggan. Þetta hlýtur að vera leiðinleg vinna. Ef hann verður þarna ennþá kl 11 ætla ég að færa honum kaffi og bjóða honum að koma inn ef hann þurfi að pissa.

Einstefna

Lærlingurinn mætti yggldur á brún til vinnu í dag. Fannst það ekki toppmál hjá borgaryfirvöldum að hafa gert Vesturgötuna að einstefnugötu.

Vegfarendur létu sér almennt fátt um finnast og óku Vesturgötu í báðar áttir að vanda. Sjaldan hef ég séð einlægari gleði lýsa úr einu andliti. Líklega er hann andsetinn drengurinn.

Mammonsmessa

Mammonsmessa er sumsé málið. Þrátt fyrir ömurlega mætingu í kvöld, safnaðist aðeins 180 kr minna en allt síðasta ár.

Að vísu tóku aðeins örfáar hræður þátt í þessum fyrsta galdri sem ég frem í félagi við fleiri en einn.

Að vísu seldust ekki þeir hlutir sem ég vildi losna við (af skiljanlegum ástæðum).

Að vísu vill fyrsti arðlingur Mammons alls ekki láta nafns síns getið, hvað þá að láta hengja mynd af sér á altaristöflu.

Að vísu mætti bubbinn sem ætlaði að smala fjölda vel stæðra sjálfstæðismanna á staðinn, ekki sjá sig, hvað þá söfnuðurinn.

Skítt með það allt saman, hvert örstutt spor er áfangi og arðlingur fundinn.

Ekkert persónulegt

Mér láðist víst að verja hluta eigna minna með þjófagaldri en nú er ég búin að sjá við því. Til langs tíma.

Það var víst ekkert persónulegt, meira svona almenn sjálfsbjargarviðleitni en það er mér lítil huggun. Ég tek því persónulega þegar einhver stelur frá mér. Jafnvel þótt það setji mig ekki á hausinn. Það er áreiðanlega bæði sjúkt og rangt en þjófnaður og þessháttar svik særa mig þúsund sinnum meira en framhjáhald. Að vísu fannst mér það frekar pirrandi þegar ég kom að kviðmágkonu minni þar sem hún var að lesa bréf frá mér til fávita drauma minna en hún var nú líka raunveruleg ógn en ekki einhver skyndidráttur. Annars er mér nokk sama hvur riðlast á hverjum. Halda áfram að lesa

Dylgjunni flett

-Ert þú Þyrnirós? spurði Anna.

Satt að segja hafði ég af geðveilu minni velt fyrir mér möguleikanum á því að taka Þyrnirósina til mín, enda ku það vera háttur geðsjúklinga og skálda að líta á flesta veraldarinnar viðburði sem persónuleg skilaboð, misdulin. Komst að þeirri niðurstöðu að ég gæti auðveldlega séð sjálfa mig í Þyrnirós en þyrfti ekki endilega að hleypa túlkunargleðinni á það stig að telja víst að dylgjan væri skrifuð sérstaklega með mig í huga. Gat allt eins litið á hana sem vísun í Sóleyjarkvæði. Halda áfram að lesa

Krísan

Ég hef mjög mikla þörf fyrir að hafa rétt fyrir mér. Þessvegna finnst mér alltaf svolítið sárt að átta mig á því þegar mér hefur skjátlast. Þegar mér hefur skjátlast um eitthvað sem skiptir máli, t.d. pólitíska sannfæringu, fjármálin mín eða eðli og innræti þeirra sem ég hef álit á, tek ég það virkilega nærri mér.

Rökréttara væri auðvitað að upplifa það sem mikla frelsun að hafa loksins séð hlutina í réttu ljósi. Og það kemur. Bráðum.

Breaking the mold

-Þegar ég sá þig fyrst hugsaði ég með mér að þú værir engin norn. En nú veit ég ekki hvað ég á eiginlega að halda, sagði Salvíumaðurinn þegar hann kvaddi.

Hvað hann átti við með því veit ég ekki. Kannski var kaffið kynngimagnað. Ég gaf honum kaffibolla en við áttum engin frekari samskipti. Ég fann ekkert að honum sem er kannski merkilegt út af fyrir sig. Yfirleitt er ég fljót að finna lúsersflötinn á annars æðislegum manni.

Og það varð ljós

Rafmagnssnúruflækjumartröð tilveru minnar er á enda. Málarinn reddaði því eins og öðru. Nú sést hvergi snúrugöndull, hvorki í búðinni né heima. Svo er hann líka búinn að setja lýsingu í glerskápinn og hillurnar svo nú getur fólk séð það sem það er að kaupa án þess ég hafi þurft að fórna stemmningunni. Þetta getur ekki endað í öðru en fullkomnun. Halda áfram að lesa