Bara einhver sálarlufsa í fullkomnum líkama?

Ég er heppin með skrokk. Heilsuhraust. Fitna ekki nema eiga það skilið. Ég sýni þó sjaldan í verki að ég kunni að meta það og stundum vakna ég með verðskuldaða ljótu. Sé sjálfa mig í spegli og hugsa oj. Þegar þannig stendur á er tvennt í boði; að verða að skvapslytti að gera eitthvað í því. Það lagast ekki með því að hringa sig uppi í sófa með súkkulaðikex.

Ég er heppin. Get afstýrt flensu með því að sofa nóg og borða hollan mat. Tveggja vikna trimformprógamm lyftir rassinum upp fyrir hné. Eitt sumar í sundlauginni eyddi viskustykkjunum. Einu sinni tók ég námskeið í magadansi. Ég geng stiga. Þetta eru nú öll afrekin.

Þegar ég geri eitthvað nauðaómerkilegt til að flikka upp á mig, fæ ég undantekningarlaust klapp á bakið. „Frábært, æðislegt, gott hjá þér að gera eitthvað fyrir sjálfa þig.“ Aldrei hefur nokkur maður litið á mig með samúðarsvip og sagt; „já gengurðu virkilega stiga? Elsku kjellingin, var rassinn á þér orðinn svona slyttingslegur? Ég hef einmitt verið að hugsa um hvað þú virðist illa á þig komin. Hringdu endilega ef þig vantar einhvern til að skokka með.“

Ég hef meira þurft að hafa fyrir andlegri heilsu minni. Það merkir ekki að ég sé snældugeðveik. Bara að mér er hættara við að leggjast í heimsósóma en flensu og að einangra mig félagslega en að hlaupa í spik.

Stundum verður sálin í mér slyttingsleg og þá hef ég farið í nokkra tíma til ráðgjafa. Aldrei hefur viðmælandinn uppljómast af gleði fyrir mína hönd þegar ég segi að ég ætli nú að drusla mér í nokkra tíma til sálu. Aldrei hefur nokkur maður sagt „frábært, æðislegt, ég er einmitt að hugsa um að gera það líka.“ Þvert á móti verður fólk á svipinn eins og ég sé með Alnæmi. Algeng viðbrögð eru steinrunnið andlit og dæs. „Já er búið að vera svona erfitt hjá þér. Jæja, ég vona að þú náir þér. Hringdu endilega ef við getum eitthvað gert.“

Af hverju er það styrkleikamerki að taka ábyrgð á líkamlegri heilsu sinni, en veikleikamerki að gæta geðheilsu sinnar? Af hverju ætti andleg heilsa að vera fyrirhafnarlaus?

Best er að deila með því að afrita slóðina