Mér láðist víst að verja hluta eigna minna með þjófagaldri en nú er ég búin að sjá við því. Til langs tíma.
Það var víst ekkert persónulegt, meira svona almenn sjálfsbjargarviðleitni en það er mér lítil huggun. Ég tek því persónulega þegar einhver stelur frá mér. Jafnvel þótt það setji mig ekki á hausinn. Það er áreiðanlega bæði sjúkt og rangt en þjófnaður og þessháttar svik særa mig þúsund sinnum meira en framhjáhald. Að vísu fannst mér það frekar pirrandi þegar ég kom að kviðmágkonu minni þar sem hún var að lesa bréf frá mér til fávita drauma minna en hún var nú líka raunveruleg ógn en ekki einhver skyndidráttur. Annars er mér nokk sama hvur riðlast á hverjum.
Maður veit nefnilega hvort sem er aldrei hvar maður hefur mannkepnuna. Maður neyðist til að treysta fólki af því að manneskjan er félagsvera í eðli sínu en ætli maður að komast óskaddaður frá því er eins gott að reikna með því að fólk bregðist. Veraldleg verðmæti eru hinsvegar örugg og þægileg. Maður veit hvar maður hefur peninga og hversu mikið er hægt að fá fyrir þá. Peningar eru fasti punkturinn í tilverunni, haldreipið, lykillinn að öryggi, hamingju og værum svefni. Blekkingar og lygar verða alltaf hluti af mannlegu eðli, maður verður að lifa með þeim að vissu marki en það er hægt að gera þá kröfu til fólks að það virði eignarréttinn. Þessvegna fær sá sem rænir mig ekki annað tækifæri. Aldrei.
Dálæti mitt á Mammoni merkir ekkert að mér þyki vænna um peninga en manneskjur. En ég treysti þeim betur.