Dylgjunni flett

-Ert þú Þyrnirós? spurði Anna.

Satt að segja hafði ég af geðveilu minni velt fyrir mér möguleikanum á því að taka Þyrnirósina til mín, enda ku það vera háttur geðsjúklinga og skálda að líta á flesta veraldarinnar viðburði sem persónuleg skilaboð, misdulin. Komst að þeirri niðurstöðu að ég gæti auðveldlega séð sjálfa mig í Þyrnirós en þyrfti ekki endilega að hleypa túlkunargleðinni á það stig að telja víst að dylgjan væri skrifuð sérstaklega með mig í huga. Gat allt eins litið á hana sem vísun í Sóleyjarkvæði.

Ég hlýt samt að hnjóta um þá staðreynd að Anna sá það sama og geðveila mín, og því hugsanlegt að geðveila mín sé ekki eins galin og maður gæti haldið. Fyrir nú utan það að Sóleyjarkvæði á viðkvæman stað í hjarta mér og því hefur sérhver vísun í það kvæði persónulegt gildi fyrir mig.

Til þess eru dylgjur að túlka þær og ef ég geng út frá því, sjálfri mér til skemmtunar, að ég sé kveikjan að þessu með hana Þyrnirós, þá hlýt ég aftur að spyrja hvað vaki eiginlega fyrir höfundi.

-Var það fínleg þyrnistunga, hugsuð sem hófsamleg hefnd fyrir að sjá ekki hið augljósa, heldur liggja hrjótandi í bælinu í sælli sannfæringu þess að þú værir stunginn af sömu álagasnældu og ég sjálf? Þá hefurðu refsað mér af nærgætni og því get ég tekið sem merki um að mér sé fyrirgefin vanhæfni mín til huglestrar.

-Var það meint sem hughreysting, í fyllstu einlægni þess sem hefði viljað vera svo næs að ríða vafurlogann til að ræsa prinsessugarminn, en hafði það ekki í sér að sveifla sverði? Þá get ég tekið viljann fyrir verkið og það þætti mér vænt um.

-Eða var það vísun í mína eigin sögu? Skilaboð um að þú hafir gægst inn fyrir þyrnigerðið, þrátt fyrir allt? Það myndi gleðja mig, meira en ég get lýst.

Það getur verið varasamt að dylgja við nornir bjartastur minn. Vísast er að nornin sjái hlutina í nákvæmlega því ljósi sem henni hentar. Rumski jafnvel þegar þú rjálar við þyrnigerðið án þess að ætla þér að stinga einni tá inn fyrir það.

Best er að deila með því að afrita slóðina