Hugvekja dagsins

Eldur getur leynst undir sinunni og blossað upp við smávegis vindkviðu. Það er óþægilegt, ógnvekjandi, stundum alveg skelfilegt. En ég þekki engan sem er svo glær að halda að eldur kvikni af sjálfum sér.

Í gær kveikti ég í vaxpottinum. Ég sjálf. Ég stillti helluna á hæsta hitastig og ráfaði svo burt. Ég hef vanið mig á að vera heppin (reykskynjarar færa manni t.d. mikla heppni) svo ég uppgötvaði það í tíma.

Ég er viss um að ef ég hefði kveikt í húsinu hefðu vinir og ættingjar lagt sig fram um að hugga mig. Og það er gott, rétt og fallegt. Fólk er bara mannlegt og til þess eru vinir að vernda og styðja þegar maður þarfnast þess, þótt maður eigi það ekki endilega skilið. Allir eiga bágt þegar þeir gera mistök og allir eiga að fá stuðning þegar þeir eiga bágt. Það er kærleikur.

Ég held samt ekki að kærleikurinn ætlist til þess að Helgi taki að sér að klappa mér á bakið, eða segi bara „ææ en leiðinlegt“ ef ég kveiki í húsinu. Þetta er nefnilega hans hús og ég lofaði að setja upp reykskynjara. Svo ef ég brenni kofann af því ég nota eldfim efni án þess að setja upp öryggisbúnað, þá er það fullkomlega mér að kenna. Og það veit kærleikurinn og kærleikurinn er réttlátur.

Best er að deila með því að afrita slóðina